föstudagur, maí 26, 2006

Frídagar og skilnaðir

Þessir dagar eru pínu erfiðir. Ég sé fram á að vera að skilja, ég sem var svo bjartsýn í síðustu viku, hélt að kallinn væri að sjá ljósið og "afruglast" en svo er víst ekki og nú er búið að panta tíma hjá Sýslumanni.

Ég er frábærlega sett og get alveg talað um þetta við alla, þ.e. vinnufélaga og fjölskyldu að því leyti er ég betur sett en margar og allir eru með góð ráð sem flest hljóða uppá það að ég sé svo frábær manneskja og hann sé búinn að fara svo illa með mig að ég eigi nú bara ekki að láta bjóða mér uppá þessa framkomu og halda áfram með lífið.

Þetta er nefnilega auðveldara að segja en gera, hvernig pakkar maður 19 árum já 19 árum ofan í kassa og segja bara þetta er búið haltu áfram?

Ég veit að ég verð ekki í vandræðum fjárhagslega er í ágætri vinnu og ekki með neina pakka á bakinu, ég veit líka að ég get örugglega náð mér í annan kall svona flott og frábær sem ég er! En samt, þessi tengsl eru ótrúlega sterk, fullt af hans fjölskyldu eru góðir vinir mínir, tengdaforeldrarnir eru frábærir og allt!

Ég er kannski að láta þetta vaxa mér um höfuð. En það þarf að selja draumahúsið, húsið sem við ætluðum að eiga þangað til börnin væru farin að heiman, það þarf að skipta upp eigunum, hvað er mitt og hvað er þitt? Við erum búin að vera saman það lengi að það eru engar einkaeigur, bankareikningarnir, visakortinn, það er allt sameiginlegt!

Samskiptin við börnin, hann tók litla skottið og leyfði henni að gista hjá sér aðfaranótt fimmtudags, ég fór með stóru börnin í bíó sáum "Da Vinci Code" ég saknaði litla skottsins framan af degi í gær.

Hún sagði við pabba sinn, "Hvar erum við þetta er ekki heima hjá okkur!" Svo þegar pabbi hennar var að pakka sænginni hennar í gærmorgun, fór hún að rúlla upp sænginni hans pabba til að taka með heim!!

Frídagarnir eru verstir, það er bara þannig að virkir dagar eru svo fullir af verkefnum að maður dettur ekki í neina þvælu maður fer bara í gegn um daginn en svo koma frídagarnir og þá er best að hafa fullt að gera.

Í gær fór ég eldsnemma að heiman vann í rúman klukkutíma, tók mig svo til og hjólaði inn í Grafarvog að Egilshöll, taldi allar flöskurnar í bílskúrnum og fór með í Sorpu, tók blaðabunkann og sorteraði fór líka með blöðin í Sorpu, þreif annað baðherbergið þurrkaði af í stofunni, fór í búð, las öll blöðin í ræmur, leysti 3* SUDOKU í Mogganum, bjó til Lasagna og horfði svo á eina mynd í DVD og þessu náði ég öllu fyrir kvöldmat!!

Jæja nóg í bili.

Munið svo að kjósa rétt á morgun!!

1 ummæli:

Mamma tveggja pjakka sagði...

Hæ,
Mikið finnst mér leiðinlegt að þið séuð að skilja. Ég heyrði einu sinni þessa setningu: "Maður á ekki að vilja að vera endilega með einhverjum sem vill ekki vera með manni" Ég las líka bók sem heitir "fullnuminn" og er eftir Cyril Scott þegar ég var í ástarsorg. Hún hjálpaði mér dáldið að líða betur þegar ég var einu sinni í ástarsorg. Svo slökkti ég líka alltaf á lögum sem voru svona "can't live without you" lög. Gangi þér sem allra best!