mánudagur, janúar 29, 2007

Lagt á hilluna

Jæja

Þetta hafa svo sem ekki verið viðburðalitlar vikur þessar upphafsvikur ársins en svona er víst lífið. Ég hef ekki skrifað mikið enda mikið í gangi þessa dagana. Ég er búin að vera rosa reið en er nú að jafna mig.

Ég er líka búin að taka ákvörðun. Gamli kallinn minn verður lagður á hilluna. Það er ótrúlegt hvað manni líður miklu betur þegar maður er búinn að taka svona ákvörðun. Ég þekki ekki þennan mann lengur og vil eiginlega ekki þekkja hann eins og hann er núna þannig að hann er bara farinn, hann fær að vera í hillunni þangað til það fellur á hann ryk en þá nenni ég ekki að þurrka af honum heldur set hann inn í geymslu þar til ég tek til þar og fer með allt draslið í Sorpu.

Ég er líka búin að sjá að með þessu er missirinn allur hans. Hann situr uppi með einhverja konu sem hann veit ekki hvort hann vill eða ekki, allavega er hann búinn að missa af mér sem er af flestum talin mun betri kvenkostur á allan hátt. En ég, ég er bara laus! Hann er líka að missa af unglingunum, unglingar eru þannig að maður hittir þá í mýflugumynd rétt á meðan þeir fá sér eitthvað að borða eða koma heim til að fara að sofa og ef maður býr ekki með þeim og hittir þá þessar mínútur þá hittir maður þá bara ekki neitt!! Það er ekkert sem heitir virkar "pabbahelgar" með unglingum.

Ég skil eiginlega ekki afhverju hann reynir ekki að nálgast þau meira, hann hringir í þau annað slagið og búið. Þau gista hjá honum einstaka nótt en annars ekkert. Hann gæti gert milljón hluti með þeim, tekið þau á virkum dögum bara til að spjalla svona þegar þau eru ekki upptekin í öðru, hann gæti platað þau í bíó ofl. ofl. En það gerist bara ekkert hann er svo upptekinn í því að finna sjálfan sig að hann gleymir því að einu sinni bar hann ábyrgð á heimili og börnum!!

Ég held að hann sé bara á "gelgjunni". Samkvæmt tengdó þá fór hann aldrei á gelgjuna svo það er nú ekki seinna vænna svona á fimmtugsaldrinum. Ég get líka fengið létt í taugarnar þegar hann hringir og er svo þreyttur eftir vinnudaginn og að hugsa um sjálfan sig að hann ætlaði bara í sundlaugarnar og pottinn að slappa af. Ég leit á klukkuna hún var rúmlega níu að kveldi til og ég leit svona létt yfir eldhúsið þar sem maturinn var enn á eldhúsborðinu því elsti unglingurinn var ekki kominn heim af æfingu, það var heill bali af þvotti sem átti eftir að brjóta saman, það átti eftir að setja í a.m.k. eina þvottavél, taka úr vélinni, setja í þurrkarann og hengja upp. Ekki nóg með þetta heldur var litla skottið ekki enn komið í náttföt og sat á gólfinu og fullyrti að hún væri bara ekkert "freitt".

Svo hann er bara á hillunni, það er strax farið að falla á hann ryk, á ég ekki bara að fara með hann beint í Sorpu??

Engin ummæli: