mánudagur, maí 18, 2009

Hundaþvottavél


Rakst á frábæra frétt á Vísir. Reyndar er höfundurinn með þágufallssýki en við reynum að láta það ekki trufla okkur.

"Fann upp hundaþvottavél
Frakkinn Romain Jarry er búinn að finna upp hundaþvottavél sem hefur slegið í gegn í heimabæ hans, St. Max. Jarry, sem er rúmlega þrítugt athafnaskáld, er að reyna að kynna nýjungina fyrir Bretum.
Ekki eru allir jafn sannfærðir en Jarry sver að vélin geri dýrunum ekkert nema gott og þau þjáist ekkert á meðan þvottinu stendur.
Nú þegar er hægt að fara á nokkurskonar dýraþvottahús þar sem dýraeigendur borga klink fyrir að þrífa dýrin.
Jarry segir að hundarnir sitji pollrólegir á meðan vélin baðar þá. Aftur á móti tekur talsverðan tíma að þurrka dýrunum.
Í viðtali við The Daily Mail segist Jarry vonast til þess að Bretar taki vel í þessa nýjung.
Þess má geta að það er einnig hægt að þvo köttum í sömu vél."

Ef fréttin er lesin kemur í ljós að höfundur vélarinnar fullyrðir að hundarnir sitji rólega á meðan vélin þvær. Ehemm.. ef myndin er skoðuð kemur í ljós skelfingu lostinn hundur sem gerir allt til að reyna að brjótast út.....

Ég sem hundaunnandi er nú ekkert sérstaklega hrifin af svona þvottavél, þar sem hundum finnst nú ekkert sérstaklega gaman að láta baða sig, allt í lagi að sulla í vatni og jafnvel synda en hún Tinna mín ljómar sko ekkert þegar baða á hana í bala útá palli hehehe.... Og síðast þegar ég vissi voru kettir ekkert hrifnir af vatni heldur...

Ég er orðin umhverfissinni....!! og mig langar til Róm.

Notaði blíðuna um helgina m.a. til að klára að lesa "Draumalandið". Og vitiði ég er bara nokkuð sammála honum Andra. Hvað höfum við að gera með öll þessi álver, er ekki nóg komið í bili. Ekki það að ég vilji hætta að virkja, en er álið málið? Hvet fólk til að lesa þessa bók, hún vekur allavega til umhugsunar og er mikið betri en myndin.

Ég hef tvisvar á ævinni komið til Rómar og nú langar mig afskaplega mikið þangað. Það er eitthvað við Róm. Ástæðan er tvennskonar, í fyrsta lagi er ég byrjuð á næstu bók sem heitir "borða, biðja, elska" og er komin langt inn í fyrsta hlutann og þar er söguhetjan stödd í Róm að njóta unaðsemda tungumálsins og matarins. Ég fór líka í bíó í gær með Skvísunni minni og sáum við myndina "Englar og Djöflar" sem gerist að mestu leyti í Róm og í Páfagarðinum. Góð mynd ja.. allavega skemmtileg, soldið ljót og ekki fyrir viðkvæma.

Mig langar....

miðvikudagur, maí 13, 2009

Eurovision, stjórnin og svona almennt röfl.

Já nú er komið að hinni frægu Eurovision viku. Jú við komumst áfram í gærkveldi, og var nú farið að fara um marga þegar eitt umslag var eftir og Ísland ekki komið á listann. Skottan mín sagði reyndar stundarhátt, "mér er alveg sama hvort Ísland kemst áfram, ég held nefnilega með Noregi", Unglingurinn ja eða sá fullorðni sagði líka að sér þætti Jóhanna svo leiðinleg og hrokafull að hún hefði nú bara ekki gott af því að komast áfram á meðan Gelgjan sat með tárin í augunum og krosslagði fingur. Sá fullorðni fullyrti reyndar að hann þyldi ekki þessa keppni og ætlaði sko ekki að horfa á hana, til að sanna mál sitt var hann í tölvunni og á msn og "refreshaði" reglulega til að vinirnir föttuðu það ekki að hann væri að horfa á sjónvarpið hehehe.... Yndislegt lið.

En að öðru, já nú setti ríkisstjórnin sér það markmið að enginn forstjóri í ríkisfyrirtæki mætti vera með hærri laun en forsætisráðherra. Hljómar voða vel á pappír, spurning hvað er tekið inní, nefndarstörf, stjórnarsetustörf, bílahlunnindi osfrv. eða hvort aðeins er miðað við slétt grunnlaunin hmmm... svo kemur reyndar í ljós að þetta er nú kannski ekki svona einfalt, stjórnir viðkomandi fyrirtækja þurfa að samþykkja þetta og jafnvel þarf að breyta lögum í einhverjum tilfellum. Ég veit alveg hvaða leið þau fara til að bjarga þessu, og það er nú bara að hækka laun forsætirsráðherrans hehehe....

Bjarni minn Ben þarf nú líka aðeins að passa sig, ég ætla rétt að vona að Sjálfstæðisflokkurinn setji ekki hömlur á sína þingmenn þegar ESB málið verður tekið fyrir, það er fullt af sjálfstæðismönnum bæði á þingi og útí samfélaginu sem vill fara í aðildaviðræður og sjá svo til. Afhverju má það ekki bara? Ekki falla í sama gamla flokksræðisfarið í guðanna bænum....

Rokið er svo mikið úti þessa dagana og það fýkur allt sem fokið getur... líka aumingja hjólreiðamennirnir sem eru að rembast við að hjóla í vinnuna og taka þátt í þeirri keppni.... gangi þeim vel.

jæja nóg röfl í bili

fimmtudagur, maí 07, 2009

Að umbreyta lánum í vafninga og selja - snilldar samlíking

Ester er bareigandi í Berlín. Til þess að auka veltuna þá ákveður hún að leyfa dyggum viðskiptavinum — sem flestir eru atvinnulausir alkar —að drekka út á krít.

Hún skráir allt sem drukkið er í þykkan kladda. Þegar þetta þægilega fyrirkomulag spyrst út þá flykkjast nýir viðskiptavinir á barinn. Frelsi fólks til þess að njóta augnabliksins og borga seinna gefur Ester valið tækifæri til þess að hækka verðið á vinsælustu veigunum, bjór og víni

Salan eykst gífurlega. Ungur og efnilegur lánafulltrúi í hverfisbankanum gerir sér grein fyrir að þessar skuldir viðskiptavinanna eru framtíðarverðmæti. Hann hækkar því yfirdráttarheimild Esterar í bankanum. Lánafulltrúinn telur þetta vandræðalaust vegna þess að skuldir alkanna eru haldgóð veð.

Í höfuðstöðvum bankans breyta sérfræðingar í æðri peningalist þessum viðskiptaskuldum í Drykkjuskuldabréf, Alkabréfavafninga og Gubbuafleiður. Þessi verðbréf — sem virt áhættumatsfyrirtæki hafa (gegn þóknun) stimplað AAA gæðastimpli — ganga síðan kaupum og sölum út um allan heim. Raunverulega skilur enginn hvað nöfn bréfanna þýða eða hvernig þau eru tryggð. Samt sem áður halda þau áfram að hækka. Þau eru metsöluvara.

Einn góðan veðurdag, þrátt fyrir að bréfin séu enn á uppleið, þá ákveður áhættusérfræðingur bankans að nú sé tímabært að drykkjuhrútarnir á bar Esterar borgi eitthvað upp í skuldirnar. Þeir geta það hins vegar ekki. Ester getur því ekki staðið í skilum við sína skuldunauta og lýsir yfir gjaldþroti. Drykkju- og Alkabréf falla um 95%. Gubbubréfin gera betur og ná stöðugkeika eftir 80% fall. Nýr veruleiki blasir við hjá fyrirtækjum sem seldu barnum á lánakjörum og hafa jafnvel líka fjárfest í fyrrnefndum bréfum. Heildsalan sem seldi Ester vín er gjaldþrota og fyrirtækið sem seldi bjórinn er yfirtekið af keppinauti.

Eftir dramatísk fundahöld og andvökustundir sem standa samfleytt í marga sólarhringa þá ákveða stjórnvöld að bjarga bankanum.

Nýr skattur er lagður á. Bindindismenn eru látnir borga brúsann.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Sporin í sandinum. - smá hugvekja

Nótt eina dreymdi mann draum. Honum fannst sem hann væri á gangi eftir ströndu með Drottni. Í skýjum himins flöktu myndir úr lífi mannsins. Við hverja mynd greindi hann tvenns konar fótspor í sandinum, önnur hans eigin, og hin Drottins. Þegar síðasta myndin birtist fyrir augum hans,leit hann um öxl á sporin í sandinum. Hann
tók eftir því að víða á leiðinni voru aðeins ein spor. Hann sá einnig að það var á þeim augnablikum Lífsins, sem hvað erfiðust höfðu reynst.

Þetta olli honum miklu hugarangri og hann tók það ráð að spyrja Drottinn hverju þetta sætti.

“ Drottinn, þú sagðir að þegar ég hefði ákveðið að fylgja þér, myndir þú ganga alla leiðina í fylgd með mér. En ég hef tekið eftir að meðan á erfiðustu stundum lífs míns hefur staðið, eru bara ein fótspor í sandinum. Ég get ekki skilið hvernig þú gast fengið af þér að skilja mig eftir einan þegar ég þarfnaðist þín mest ”.

Drottinn svaraði: “Þú dýrmæta barn mitt.Ég elska þig og myndi aldrei skilja þig eftir eitt. Á meðan þessir erfiðu tímar lífs þíns liðu – þar sem þú sérð aðeins ein fótspor – Var það ég sem bar þig “.

Mary Stevenson (f. 1922 d. 1999)

mánudagur, maí 04, 2009

Draumalandið og fleira

Já, hef ekki sett mikið af póstum hér inn síðustu daga, er búin að vera pínu upptekin, var ekki í bænum alla helgina og naut sveitasælunnar í faðmi stórfjölskyldunnar. Ég er með tvær bækur á náttborðinu mínu og eru það Draumalandið sem ég er svona hálfnuð með og svo bók sem vinkona mín lánaði mér sem heitir "borða, biðja, elska..." bíð spennt eftir að byrja á henni. En ég er svo mikill "kassahaus" að ég þarf að klára eina bók áður en ég byrja á næstu.

Reyndar finnst mér bókin Draumalandið eiginlega mikið betri en myndin, þar sem ég er að lesa núna þá er hann að fjalla um uppbyggingu herstöðva hérlendis. Vissuð þið það að Bandaríkjamenn vildu byggja a.m.k. 4 herstöðvar hér og umsvifin áttu að vera miklu meiri en þau voru. En stjórnmálamenn þess tíma höfðu vit á að setja mörk á það sem leyft yrði. Í rauninn ætlar svo Andri Snær sennilega að líkja uppbyggingu hersins hérlendis við uppbyggingu álvera, það verður gaman að sjá hvað kemur útúr því. Þessi bók er reyndar ekkert svo slæm og greinilegt að Andri Snær er með heilmikið á milli eyrnanna og hefur pælt og hugsað mikið. Mér fannst reyndar bókin hans um Bláa hnöttinn þvílík gersemi að hann er alveg á mínum höfundalista.
Allavega góð pæling hjá Andra og ég mæli með bókinni frekar en myndinni.