þriðjudagur, apríl 28, 2009

Kosningaúrslit og fleira

Jæja, þá liggja nú kosningaúrslitin fyrir, gekk ekkert sérstaklega vel hjá mínum mönnum og vona ég svo innilega að þeir fari ekki í stjórn og taki aðeins til hjá sér. Það eru menn og málefni þarna sem þarf að hreinsa út.

Greinilegt er að þjóðin vill skoða aðildaviðræður við ESB, það voru þeir flokkar sem vildu það sem unnu þessar kosningar. Ég skil þess vegna ekki afhverju menn eru að tala um að kjósa um það hvort, já athugið hvort, það eigi að fara í aðildaviðræður. Eins og ég hef margoft sagt hér og annars staðar þá verðum við að hefja viðræður og svo kjósum við um hvað það er sem kemur útúr þeim viðræðum. Auðvitað verða skiptar skoðanir og misvísandi upplýsingar en er það ekki alltaf þannig þegar umdeild málefni ber á góma. Ég treysti algjörlega íslenskum almenningi til að velja það sem er best fyrir okkur þegar samningurinn er í höfn.

Allir bíða spenntir eftir því að sjá hvort Samfó og VG nái að mynda stjórn því þeir eru ósammála um stóra ESB málið. Ég hef reyndar áhyggjur af því að Samfó líti á ESB sem alsherjar bjargvætt, sem það er auðvitað alls ekki, og miði allar sínar efnahagsaðgerðir að því að við séum að fara í ESB. Það gengur ekki, það er ekkert búið að ákveða í þessu máli og óháð ESB þarf virkilega að taka til hér í skápum og skúffum og fara í aðgerðir.

Jæja, við bíðum enn spennt og sjáum hvað gerist.

miðvikudagur, apríl 22, 2009

Kosningar - kosningar

Já, vitiði það eru kosningar á laugardag. Hvað á að kjósa? Þar sem ég hef oft haft mjög ákveðnar skoðanir á mörgum hlutum hef ég ekki verið í vandræðum með að blogga hér heilan helling um allt í sambandi við stjórnmál, en núna ég veit það eiginlega ekki. Ég veit eiginlega bara ekkert hvað ég á að kjósa á laugardag, auðvitað ætti ég bara að hlusta á minn landsfund og formann og hlýða, kjósa X-D eins og venjulega, en vitiði, ég er bara ekkert sammála þeim þessa dagana. Burtséð frá öllu ruglinu og vitleysuni, þá myndi ég fyrirgefa þeim það ef ég hefði trú á því sem þeir eru að segja. En jú sumt meikar alveg sens en annað er bara afturhaldssemi og roluháttur.

En þá kemur milljón dala spurningin. Hvað á ég að kjósa í staðin??
Tók einhvern svona kosningakompás á mbl.is og fékk Framsóknarflokkinn 77% sammála, tók hann aftur svona með aðeins breyttum áherslum og fékk aftur Framsóknarflokkinn efstan með 75% en hina flokkana í báðum tilfellum þ.e. Sjálfstæðis, Samfylking og Borgarahreyfingu með alla 75% í fyrri könnuninni en ca 72-73 % í þeirri seinni, þannig að þið sjáið að það er mjótt á mununum. Kannski er ég bara svona óákveðin sem ég held reyndar að sé málið og þá er Framsókn voða seif kostur svona opinn í báða enda og allt það hmmm....

En þá komum við aftur að rót vandans, ég veit ekki hvað er best fyrir þjóðina núna, er það ESB, er það að taka upp dollara einhliða, er það að fella niður skuldir, er það að fella niður verðtryggingu...

Það sem er kannski mergurinn málsins er að klára þetta ESB mál, fara í viðræður og fá samning og bera hann undir þjóðina, sjá hvað við fáum, við getum þá bara hafnað samningnum ef okkur líst ekki á eða ef okkur finnst hann of dýr... Ég er ekkert viss um að ESB sé svarið við bænum okkar, og er eiginlega viss um að það er það ekki, en það verður að skoða þann kost til hlítar, ekki ýta honum útaf borðinu strax.

Svo er það myntmálið, er kannski best að halda bara í lasna krónu og reyna að lífga hana við, er best að taka nýja mynt strax, eða er best að miða að því að taka upp evru í framhaldi af samningaviðræðunum, sem svo kannski verða felldar og þá sitjum við uppi með enn lasnari krónu hmmm....

Jú ég vil nýta auðlindirnar og já ég er alveg til í smá meiri stóriðju, ef hún sýnir sig að skila aðri, ég vil ekki fara í framkvæmdir bara til að fara í framkvæmdir, við eigum alveg að kunna að finna útúr því hvaða arð við viljum fá útúr þeim.

Svo ef við lítum á þessa blessuðu skjaldborg sem slá átti um heimilin, hmmm... mér finnst bara vera sett fata undir lekann en það er enginn sem nennir uppá þak til að gera við... Einu úrræðin sem bjóðast eru fyrir fólk sem er komið með allt í klessu. Er ekki betra að hjálpa fólki áður en allt fer í klessu, það er svo erfitt fyrir sálartetrið að vera með allt í klessu og við gætum örugglega sparað soldið í heilbrigðiskerfinu ef við björguðum fólkinu fyrr....

Já spara í opinbera kerfinu, það ætti nú ekki að vera svo hrikalega erfitt, auðvitað eru margar stofnanir vel reknar, en margar síður. Mér finnst t.d. aðþað ætti alvega að vera hægt að loka eitthvað af þessum sendiráðum sem Halldór Ásgrímsson opnaði hér hvert á fætur öðru með pompi og prakt. Til hvers að vera með sendiráð alls staðar, afhverju ekki reka samnorræn sendiráð sem myndu sinna öllum Norðurlöndunum á einum stað, er það ekki bara nokkuð góð hugmynd.

Annað svona í bríaríi væri ekki hægt að selja eitthvað af þessu dópi, sem fannst þarna á skútunni, í útlöndum... við erum hvort eð er búin að segja okkur úr lögum við þessi ríki, það væri örugglega hægt að stoppa eitthvað uppí þetta blessaða fjárlagagat sem allir eru að tala um hehehehe.....

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Draumalandið

Fór í bíó í síðustu viku og sá Draumalandið.

Æji ég veit það ekki, mér leið ekkert vel á þessari mynd, leið pínulítið eins og glæpamanni. Jú, jú ég hef unnið við að skoða stóriðju og ýmsar framkvæmdir tengdar henni síðasta áratuginn eða svo, en í myndinni er mjög svo drungalegur boðskapur. Ég er reyndar ekki búin að lesa bókina, hún er á náttborðinu mínu, en hef einhvern vegin ekkert komist áfram með hana, sé til hvernig það þróast.

Mér finnst vera gert lítið úr landsbyggðafólki í þessari mynd og gerir grín að því þegar Húsvíkingar og Reyðfirðingar fagna samningum um komu álvers, eitthvað svona æji greyin þau vita bara ekki betur....

En boðskapur myndarinnar er sá að erlend stórfyrirtæki séu með áætlanir um yfirtöku auðlinda þeirra vesalings þjóða sem þeir setja verksmiðjur sínar í. Já, einn punktur var soldið fyndinn en það var þegar fyrrverandi bæjarstjóri þeirra Reyðfirðinga var tekinn tali og hann sagðist vinna nú sem verkefnastjóri hjá ALCOA. En stuttu áður var búið að ræða þá samsæriskenningu að þessi fyrirtæki borguðu stjórnmalamönnum og þeim sem einhverju réðu undir borðið og jafnvel setti þá á launaskrá. Fyrrverandi bæjarstjórinn átti semsagt að sanna þessa kenningu hehehe...

Þeirri skoðun öfgafullra náttúrverndarsinna hefur verið haldið mjög á lofti, að ekki megi reisa verksmiðjur heldur eigum við að gera "eitthvað annað". Jú en hvað? Þá er fátt um svör... jú ferðamennska... en hún mengar líka, þessir ferðamenn þurfa að komast á milli staða og nota til þess koltvísýringspúandi farartæki sem fara illa með andrúmsloftið.

Margt landsbyggðafólkið vill hafa meiri fjölbreytileika í sínum atvinnumöguleikum og vill eitthvað annað en sjávarútveg og búskap. Fólkið t.d. á Reyðarfirði gat ekki ákveðið að vinna bara við eitthvað annað, það verður einhver að vilja borga brúsann, auðvitað leysir álver ekki allt en störf og atvinnustarfsemi sprettur ekki bara af sjálfu sér, óháð markaðslögmálum.

Jæja, en ég allavega sá þessa mynd og jú hún vekur mann soldið til umhugsunar en er kannski einum of öfgafull og fullyrðingar í henni, margar hverjar, standast engan veginn.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Menn sem hata konur


Já þetta voru góðir Páskar. Hefði viljað fara eitthvað á skíði, en er með bilað hné í augnablikinu og sleppti því í þetta sinn, borgar sig ekki að ögra sér um of sko...
En í staðin náði ég að slappa ótrúlega vel af og hreinlega datt í eina bók, sem heitir "Menn sem hata konur", keypti hana fyrir 2ur árum á Kastrup flugvelli á dönsku, vissi ekki að ég væri að kaupa eina mest umtöluðu sakamálasögu á Norðurlöndum síðustu árin.
Höfundurinn var Stieg Larsson og var sænskur, fæddur árið 1954 og lést árið 2004 úr hjartaáfalli. Kaldhæðni örlaganna olli því að fyrsta bókin í seríunni kom ekki út fyrr en árið 2005 svo hann náði aldrei að upplifa gríðarlegar vinsældir bókanna, sem urðu alls 3.
Allavega er þó nokkuð síðan ég byrjaði á bókinni, og gekk þetta nú frekar hægt svona framan af, en svo bara kom það, ég gat ekki lagt hana frá mér, stóð yfir pottunum á Páskadag að hræra í sósunni með pískinn í annarri hendinni og bókina í hinni. Þetta er ein besta sakamálasaga sem ég hef lesið og ótrúleg persónusköpun sem á sér stað í bókinni og flækjurnar mjög snilldarlega útfærðar. Ég gat ekki hætt fyrr en ég kláraði bókina en um leið og hún kláraðist var ég líka soldið svekkt yfir því að henni væri lokið hehehe... ætla sem allra fyrst að útvega mér bók númer 2 og 3.
Ég semsagt mæli með þessari bók við hvern sem er og bið ykkur um að láta ekki hugfallast þó bókin sé hátt í 600 blaðsíður.

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Konur og menntunarsaga þeirra.

Komst yfir mjög skemmtilega bók í gær... hún fjallar um menntamál kvenna og þróun þeirra á fyrri hluta síðustu aldar.

Hún heitir Íslenska menntakonan verður til og er eftir Valborgu Sigurðardóttur.

Þegar maður spáir í þetta þá var ekki sett í lög að konur "mættu" taka stúdentspróf fyrr en 1897.

Konur máttu kjósa til bæjar og sveitarstjórnar ef þær voru ekkjur eða einar frá árinu 1888.

Það var ekki fyrr en árið 1911 sem konur máttu gegna embættum öðrum en kennarastöðum eins og prestsembættum, eða læknisembættum.

Fyrsta konan sem útskrifast frá Háskóla Íslands gerði það árið 1917 úr læknisfræði.

Ef maður kafar svo ofan í bókin betur má sjá mjög svo skemmtilegar umræður og ýmis rök fyrir því að konur ættu ekki að gegna embættum.

T.d. orðrétt þegar fjallað var um að aðalhlutverk kvenna að ala og ala upp börn:

"Þetta stórvirki hefur á konum hvílt alt til þessa og þetta afrek hafa þær af hendi leyst. Ef konan færi nú að vasast í mörgu öðru, er hætt við, að barnauppeldi sæti á hakanum hjá henni. Og óhollar afleiðingar af því eru hverjum manni auðsæjar.

spurning hvort hægt sé að rekja bankahrunið til þessa ehemm...

Ég velti því bara fyrir mér, hvað óskaplega er stutt síðan, ekki 100 ár, og hvað rosalega mikið hefur breyst á þessari síðustu öld, sérstaklega í kvennréttindamálum.

Einnig held ég að allar ungar konur hafi gott af því að kíkja í þessa bók, því mér finnst eins og þær átti sig ekki á því hvað mikið hefur áunnist og hve mikilvægt það er að halda baráttunni á lofti.

mánudagur, apríl 06, 2009

Fréttamennska og ræða Davíðs!

Ég tók mig til og hlustaði á skemmtiræðu Davíðs Oddssonar frá Landsfundi sjálfstæðismanna. Hún er ekkert svo löng og er tiltæk á netinu. (Reyndar má finna allar þær ræður sem fluttar voru á þessu þingi á slóðinni xd.is). Ástæða þess er að ég hef heyrt brot og brot úr þessari ræðu í fjölmiðlum og fékk alveg grænar bólur. Jú þetta var svona ræða sem frekar hefði átt heima sem skemmtiræða eða sem ræða á þorrablóti, en þegar maður hlustar á hana í heild sinni kemur hún alls ekki jafnilla út og það sem sýnt hefur verið úr henni í fjölmiðlum. Þau brot sem hafa verið sýnd eða spiluð, eru öll tekin í samhengi og þess vegna lítur þetta mun verr út þannig en í heild sinni.

Þið skuluð alls ekki misskilja mig, ég hef haft þá skoðun að Davið hefði nú bara átt að setjast í helgan stein og skrifa æviminnigar sínar þegar hann lét af störfum sem forsætisráðherra og hann hefði aldrei átt að fara í Seðlabankann, ekki endilega af því að hann hafi eitthvað staðið sig svo rosalega illa, ég ætla ekki að dæma um það, en þetta var mjög svo pólitísk ráðning og ég er svona bara yfirhöfuð soldið á móti slíkum. Ég er líka á því að hann hefði ekkert átt að vera að halda þessa ræðu þarna á landsþinginu og dissa allt og alla eins og krakki í fýlu. En það má samt með sanni segja að það hefur verið mun meira gert úr þessu sem hann sagði þarna en tilefni voru til, og það sem mér þótti reyndar merkilegast í þessu öllu var að eftir þennan fræga landsfund að þá var það ræða Davíðs sem var aðalumræðuefnið, sem er nú bara brandari útaf fyrir sig sko... Ég held að fjölmiðlamenn mættu nú aðeins fara að líta í eigin barm og hætta þessum poppúlisma í fréttamennsku og snúa sér að því að skilja hismið frá kjarnanum.

föstudagur, apríl 03, 2009

Tala um að berja hausnum við steininn hehehe...

"Worrying is the same thing as banging your head
against the wall. It only feels good when you stop."

— John Powers: Author and motivational speaker -

Að berja hausnum við steininn, berja járnið á meðan það er heitt eða eitthvað þannig...

Fór á mjög góðan fyrirlestur um daginn. Hún hélt fyrirlesturinn hún Kolbrún B. Ragnarsdóttir, fjölskylduráðgjafi og hét hann "Það býr sigurvegari í þér". Ég ákvað bara að taka hana bókstaflega og skrá mig bara á næsu ólympíuleika... veit ekki aaalveg í hvaða grein... æji, það eru alveg 3 ár þangað til, hlýt að finna eitthvað....

Nei grínlaust, en svo eins og alltaf í svona fyrirlestrum kemur hjá manni, já en þetta er bara svona almennt "common sense". Auðvitað, þetta er allt svoleiðis, en maður virðist samt þurfa að heyra það 100 sinnum til að fatta það sko....


Ég er reyndar ekki að segja að ég hafi eitthvað fengið uppljómun þarna en...

Spurningarnar voru:

Hvað viltu? Draumar þínir, settu þér markmið
Hvað geturðu? Trúðu á sjálfa þig
Hvað þorirðu? Dansaður við óttann
Hvaða ábyrgð ertu tilbúin að taka? Taktu fulla ábyrgð
Hvaða úthald hefurðu? Það sem þarf
Hvers virði er það sem þú ætlar að gera? Lífsnauðsyn - Ástríða

Svo talaði hún um að jákvætt fólk lifði uþb. 7-12 árum lengur en neikvætt.

Niðurstaðan er, þú getur allt sem þú vilt og aðeins meira ef það er það sem þarf.

Brostu.