þriðjudagur, apríl 28, 2009

Kosningaúrslit og fleira

Jæja, þá liggja nú kosningaúrslitin fyrir, gekk ekkert sérstaklega vel hjá mínum mönnum og vona ég svo innilega að þeir fari ekki í stjórn og taki aðeins til hjá sér. Það eru menn og málefni þarna sem þarf að hreinsa út.

Greinilegt er að þjóðin vill skoða aðildaviðræður við ESB, það voru þeir flokkar sem vildu það sem unnu þessar kosningar. Ég skil þess vegna ekki afhverju menn eru að tala um að kjósa um það hvort, já athugið hvort, það eigi að fara í aðildaviðræður. Eins og ég hef margoft sagt hér og annars staðar þá verðum við að hefja viðræður og svo kjósum við um hvað það er sem kemur útúr þeim viðræðum. Auðvitað verða skiptar skoðanir og misvísandi upplýsingar en er það ekki alltaf þannig þegar umdeild málefni ber á góma. Ég treysti algjörlega íslenskum almenningi til að velja það sem er best fyrir okkur þegar samningurinn er í höfn.

Allir bíða spenntir eftir því að sjá hvort Samfó og VG nái að mynda stjórn því þeir eru ósammála um stóra ESB málið. Ég hef reyndar áhyggjur af því að Samfó líti á ESB sem alsherjar bjargvætt, sem það er auðvitað alls ekki, og miði allar sínar efnahagsaðgerðir að því að við séum að fara í ESB. Það gengur ekki, það er ekkert búið að ákveða í þessu máli og óháð ESB þarf virkilega að taka til hér í skápum og skúffum og fara í aðgerðir.

Jæja, við bíðum enn spennt og sjáum hvað gerist.

Engin ummæli: