föstudagur, desember 11, 2009

Brennu-Njálssaga

Ég á son sem er í menntaskóla, honum finnst ekkert sérstaklega gaman að lesa og sérstaklega ekki skólabækurnar, það sem bjargar honum í sinni góðu skólagöngu er að hann á mjög auðvelt með að læra hluti sem hann heyrir og er ágætlega klár.  Allavega gengur honum mjög vel í skólanum þó ég sjái hann mjög sjaldan lesa skólabækur.  Í vikunni var próf í Brennu-Njálssögu og minn maður auðvitað ekkert búinn að lesa þá bók frekar en aðrar, en hann var nú ekki að baki dottinn og fór á bókasafnið og náði sér í teiknimyndasögur sem gefnar hafa verið út á undanförnum árum og segja sögur úr Brennu-Njálssögu, þær heita Blóðregn, Brennan, Hetjan og Vetrarvíg.  Ég kíkti nú í þessar bækur og svei mér þá ef ég þarf ekki að fara að lesa og rifja upp þessa stórmerku sögu.

fimmtudagur, desember 10, 2009

Áður en ég dey.

Jæja, þá er ég búin að lesa bækurnar um dauðann hmmm....  Bókin "Áður en ég dey" fjallar um 16 ára gamla stúlku sem er með krabbamein og veit að hún á aðeins örfáa mánuði eftir.  Hún er aðeins 16 ára og auðvitað full af uppreisn gagnvart foreldrum sínum og umhverfi, svona týpískur 16 ára unglingur auk þess sem hún þarf að bera þann þunga bagga að vera dauðvona. 
Það eru ýmsar uppákomur sem sagt er frá í bókinni og það sem er skemmtilegt er að stúlkan gerir lista yfir allt það sem hún vill gera áður en hún deyr og á þeim lista eru m.a. kynlíf, dóp, frægð, ást, segja já við öllu í heilan dag, fremja glæp osfrv.  Þessi bók er í senn átakanleg og skemmtileg, hún ýtir við manni, fær mann til að hugsa um hvað lífið er í raun dýrmætt og hve mikilvægt það er að njóta hvers augnabliks þess.    Hún kennir manni einnig sitthvað um ástina og það sem skiptir máli í lífinu.