Jæja þá eru jólin yfirstaðin.
Þetta var kannski ekki eins slæmt og ég var búin að ímynda mér. Fórum í mat til bróður míns á Aðfangadagskvöld, þvílík veisla og allir mættir. M+P, yngri bróðir minn með sína konu en þau voru barnlaus þessi jólin (það er svona með þessar flóknu fjölskyldur) og svo ég með krakkana. Okkur taldist svo að við hefðum ekki verið saman á Aðfangadagskvöld öll systkinin síðan 1990, það gera heil 16 ár. Þegar búið var að borða í rólegheitum, var farið í pakkaopnun og auðvitað með svona margt fólk þá tók þetta tvo og hálfan tíma allt saman en rosa gaman. Svo var eftirrétturinn snæddur og kökur og þá dreif ég mig með mitt lið til tengdó svo þau gætu séð framan í pabba sinn og heilsað uppá ömmu og afa. Þar tók við önnur pakkaopnun að vísu mun færri pakkar en ekki síður gaman. Svo staulaðist ég með liðið heim klukkan að ganga þrjú!
Jóladagurinn var ekki síður skemmtilegur, kallinn kom og sótti krakkana um tvöleytið og ég rölti yfir til litla bróður í aspassúpu og pakkaopnun hjá prinsinum þeirra. Svo þegar ég kom heim hringdi kallinn í mig og bauð mér að koma og snæða með þeim hangikjöt sem ég og gerði þannig að fjölskyldan var eiginlega saman bæði í Aðfangadag og Jóladag.
Annar í jólum var frekar rólegur, ég var ein heima, lá í sófanum og horfði á sjónvarpið m.a. á Harry Potter fór svo í langan og hressandi göngutúr, fattaði auðvitað í miðjum göngutúr að ég hafði gleymt Ipodinum og nýju göngustöfunum sem börnin gáfu mér í jólagjöf. Ég skaut því reyndar að kallinum hvort hann væri að gefa mér göngustafi svo ég gæti farið að stunda ferðir með Útivist og Ferðafélaginu en mér skilst að þar séu miklar líkur á að hitta miðaldra einhleypa karlmenn í konuleit og auðvitað konur í karlaleit!! Honum fannst þetta ekkert fyndið.
Jæja næst eru það áramótin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli