þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Ég get allt sem ég vil!

Undanfarnar vikur hef ég verið á svona Dale Carnegie námskeiði, alveg frábært námskeið mæli með því við alla. En jæja ég er búin að stunda þetta af mikilli samviskusemi enda verkefni útaf fyrir sig.

Á þessu námskeiði höfum við þurft að segja frá ýmsu sem hefur haft áhrif á okkur, sem hefur mótað okkur og jafnvel sem stendur í vegi fyrir framförum hjá okkur.

Ég hef svo sem átt nokkrar frásagnir þarna, hef reyndar ekki kafað neitt ofboðslega djúpt enda enn þá á soldið svona viðkvæmu stigi til að fjalla um það sem er virkilega að hrjá mig, en þetta kemur örugglega með tímanum.

Í gærkveldi áttum við að fjalla um eitthvað af mikilli tilfinningu sýna tilfinningar og gráta og hlæja og allt það. Þarna komu fullt af mjög svo átakanlegum frásögnum en einnig nokkrar svona mjög svo heimspekilegar.

Ég fór ekki í grátinn enda hefði ég örugglega ekki getað staðið þarna fyrir framan allar þessar konur (þetta er sko kvennanámskeið) án þess að brotna ef ég hefði valið þá leiðinna. Ég ræddi aftur á móti um atvik frá unglingsárunum.

Málið er að ég var svo sem enginn vandræðaunglingur, en á unglingsárunum kom okkur mömmu kannski ekkert allt of vel saman. Þar sem ég er eina dóttirinn var hún sennilega að vonast eftir svona dömu en hún fékk hana ekki. Ég var bara skáti og í hjálparsveit og ef mér sýndist svo fór ég bara í gönguskónum, rifnum gallabuxum og stóru lopapeysunni hans bróður míns í skólann, mömmu minni til mikillar hrellingar. Ég svaraði henni líka oft fullum hálsi og er mér sérstaklega minnistætt eitt atvik er ég var í gaggó og átti minn kærasta sem ég þeyttist með aftan á skellinöðrunni hans. Mamma var sífellt að finna að því hvað ég kæmi seint heim og einn daginn stóð ég fyrir framan hana og tilkynnti mömmu minni það að maður gæti sko alveg orðið ófrískur á daginn!

Jæja, fegin er ég að dóttir mín er ekki komin í þennan pakka og er ljúf sem lamb þó unglingur sé. En jæja einn daginn þarna á mínum unglingsárum er ég eitthvað að vandræðast með framtíðina eins og unglingum er svo tamt. Sat þarna við eldhúsborðið og segi mömmu minni það að ég viti bara ekkert hvað ég vilji verða þegar ég verð stór. Þarna kom mamma á óvart. Hún horfði á mig og sagði: "............ mín, þú ert svo klár, falleg og dugleg að þú getur gert allt sem þú vilt!". Þetta er sko alveg satt hjá henni, enda hafa þetta verið mín einkunnarorð síðan. Maður hefur jafnvel farið að ögra sjálfum sér til að sjá hvort þetta gangi ekki upp.

En jæja þá kemur önnur pæling. Er þetta ekki að há mér þessa dagana, þegar ég þarf að læra að lifa með einhverju sem ég vill ekki og get ég þá ekki snúið þessu við og sagt, ég get ekki það sem ég vil ekki.

smá pæling.

Engin ummæli: