Ég hitti góða vinkonu mín í gær, sem vinnur hjá stóru fyrirtæki í útrás. Þau voru að kaupa hollenskt fyrirtæki núna um daginn og hún fór að lýsa því hvað Hollendingar væru ófjölskylduvænir. Ég hváði við, enda hef ég alltaf haldið að þjóðir sem standa svona framalega væru með þetta fjölskyldudæmi alveg á hreinu.
Hún sagðist hafa hitt hollenska konu í stjórnunarstöðu og þær tóku tal saman. Vinkona spurði hana svona eins og gengur hvað hún ætti mörg börn enda á þessi vinkona mín 2 stykki. Sú hváði og leit á hana og sagði: "ég er að vinna". Já ég veit sagði þá vinkona mín en hvað áttu mörg börn, hélt að konan hefði misskilið sig, en þá sagði sú hollenska: "hérna velur maður". "Hvað meinarðu?" spurði þá vinkona mín. "Maður velur hvort maður ætlar að vinna eða eiga börn. Karlmennirnir geta gert hvoru tveggja en við konurnar þurfum að velja!" Vinkona mín varð alveg mállaus enda er hún í stjórnunarstöðu í sínu fyrirtæki og einstæð móðir með 2 börn.
Annað dæmi sagði hún mér líka en hún var í haust á námskeiði með 40 manns þar af 5 konur og voru þar nokkrir Hollendingar. Hún hitti þar einn yfir kvöldverði og þau ræddu málin og þar barst í tal að hún ætti börn. Hann horfði á hana og sagði að það hlyti að vera rosa erfitt fyrir þau hjónin að vera bæði að vinna með 2 börn. Þá leiðrétti vinkona mín hann og sagði að hún væri nú reyndar fráskilin og væri ein með börnin. Þá missti sá hollenski hökuna niður á maga. Það kom reyndar danskur maður henni til hjálpar og fór að útskýra þetta kerfi sem væri svo ríkjandi í Skandinavíu að þó maður sé fráskilin þá taki faðirinn mikinn þátt í uppeldi barna sinna og í Danmörku sé mjög algengt að foreldrar hafi börnin viku og viku. Sá hollenski leit á þau en var nú ekki sannfærður og fékk svo alveg áfall þegar vinkona mín bætti við að auðvitað væri það mjög algengt en sinn fyrrverandi væri nú búinn að búa í útlöndum síðasta hálfa árið og hefði ekkert haft börnin á þeim tíma. Ég held að þegar þarna var komið hafi Hollendingurinn flautað á þjóninn og pantað einn tvöfaldann!!! hehehehe......
Þessar íslensku ofurmömmur!!!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli