föstudagur, apríl 16, 2010

Þar sem sólin skín

Mér barst í hendurnar bók sem heitir "Þar sem sólin skín".  Þessi bók er eftir Lizu Marklund sem er sænskur rithöfundur og bara nokkuð góður svona í þessum sakamálasöguflokki allavega.  Bókin hefst á því að sænsk fjölskylda er myrt á suður Spáni og blaðamaðurinn Annika fer og kannar málið frekar.  Inní atburðarásina flækist svo einkalíf Anniku, erfiðleikar í samskiptum hennar við samstarfsmenn og ekki má svo gleyma hinni flóknu sögu um smygl og fleira sem tengist morðunum á fjölskyldunni.
Allavega alveg sæmilegur krimmi og á það jafnvel til að koma manni á óvart á köflum.

fimmtudagur, apríl 15, 2010

Ein soldið fúl og sár.

Æji, eitt svona neikvæðnisblogg.  Málið er að vegna gossins í Eyjafjallajökli, sem er nú að gera miklu meira rask en menn höfðu reiknað með, er búið að stoppa alla flugumferð í Evrópu.....  spurning hvað það varir lengi, og svo er spurning hvort opið verði heima í Keflavík þó það opnist í Evrópu...  mamma og Skottið mitt ætluðu að koma hingað til Bergen í næstu viku og vera hér síðustu dagana sem ég er hér, allir búnir að hlakka mikið til..... en nú þurfum við bara að krossa fingur að vindáttin verði hagstæð, sem ég hef eiginlega ekki hugmynd um hver er eða að gosið hafi róað sig soldið og ekki sé eins mikið öskufall frá því og er núna....  Svo bíða allir núna með öndina í hálsinum yfir nýju flóði í Markarfljóti, sem sagt er að verði mikið stærra en flóðið í gær....  vonandi að allir hafi náð að rýma og enginn sé í hættu....
Síðast en ekki síst er ég með slasað hné nr. 2, þ.e. ég slasaði hálfheila hnéð mitt, þ.e. ekki þetta skorna heldur hitt, haldið ekki að ég hafi farið með vinnunni hér í Bergen í Krullu, og náði að renna þannig að hálfheila hnéð mitt snérist allt í klessu.... ég krossa bara fingur yfir að ekki hafi neitt slitnað púff.... ég snéri nefnilega þetta hné í djúpum snjó á milli jóla og nýárs.....  en sleit ekkert skv. lækni .....en nú er ég skíthrædd... hnéð bólgnaði upp og er hrikalega stirt.....

púfff....... 

miðvikudagur, apríl 14, 2010

Váá... ég er að missa af öllu!!

Mér finnst soldið fúlt að vera ekki heima á Íslandi þessa dagana.  Sakna umræðanna og deilnanna á kaffistofunni, en nú er aldeilis tækifærið til að ræða málin.  Skýrslan góða.... Já og svo öll eldgosin, ég er reyndar enn með frekar veikan fót svo ekki komst ég uppá Fimmvörðuháls til að sjá fína "túristaeldgosið" okkar og svo verður gufubólsturinn á Eyjafjallajökli pottþétt búinn þegar ég kem heim aftur. 
En skýrsluna hefði ég vilja ræða við einhvern sem kann íslensku....  á reyndar eftir að lesa hana en hef fylgst vel með fréttum.  Ég sjálfstæðismaðurinn þarf auðvitað að svara fyrir okkur og okkar stefnu. 
Mér finnst reyndar soldið fúlt að allir benda á einhvern annan, enginn kemur fram og segir sorrý, ó jú Bjöggi gerði það víst í Fréttablaðinu, en það hvarf í öllu "gosstússinu".  Ég kann að meta það þegar menn segja sorrý, jú ég gerði mistök, jú ég trúði að þetta væri í lagi, jú ég var ekki nógu gagnrýninn í hugsun, jú ég tók lán, jú ég ætlaði mér of mikið, jú ég skal segja af mér. 
Reyndar tíðkast það ekki hér á landi að menn segi af sér.... en það má breyta því.
Eini maðurinn sem ég get rætt þetta við er kærastinn minn, en það er í síma yfir netið og sambandið rofnar yfirleitt þegar umræðurnar eru komnar á ákveðið stig...   hehehe.... en hann er harður framsóknarmaður og fullyrðir að þeir séu eini flokkurinn sem sé búinn að taka til hjá sér.... jú eitthvað til í því.....  En ég vildi gjarnan taka nokkrar rimmur á kaffistofunni og þær jafnvel við aðra sjálfstæðismenn.
Jæja kannski er bara gott að fá aðeins fjarlægð á þetta....  maður verður svo reiður!!!!  ARG...

2 ára gullmoli

Yndisleg frænka mín er tveggja ára í dag.  Glókollur með stór blá augu og þau dekkstu og lengstu augnahár sem finnast.  Hún á örugglega ekki eftir að sjá þetta blogg mitt hérna en ég ætla að nota tækifærið að óska henni til hamingju með afmælið og lýsa yfir leiða mínum á því að geta ekki mætt í veisluna hennar í kvöld.
En þessi gullmoli kom í heiminn fyrir 2 árum síðan og var meira en velkomin.  Hún kemur inn í stórar  og flóknar fjölskyldur.  Hún var barnabarn númer 8 báðum megin ef allir eru taldir með þ.e. skábarnabörn og slíkt með.  Hún á 3 hálfsystkin, tvær yndislegar systur sem eru líka frænkur mínar og einn stóran flottan bróðir, svo er hún líka rík af ýmsu öðru, hún á stóran Labrador hund og sérvitra kisu.

Hún er bara flottust, koss og knús.

Bara!

Fékk frábæran póst í dag sem ég er að hugsa um að birta hér, nokkurn veginn óritskoðaðan....  vona að höfundinum sé sama ;)

Allir að fárast yfir kreppu, sukki, iceslave, snekkjum, þjófum og ræningjum.
Svo þegar allir eru búnir að tala í hringi og allir komnir með doða og ógeð þá kemur gos. Allir tala um gosið.
Allir orðnir leiðir á þessu blessaða frussi, nei gosi meina ég.
Gosið hættir þegar skýrslan er gerð opinber.
Allir blaðra sig út um skýrsluna, „þetta var bara kjaftæði“ sagði fólk, „við vissum þetta nú alveg, það þurfti enga skýrslu maður!“. „shit 160% fram úr tímaáætlun og allir með ræpu af spenningi yfir skýrlunni og svo er þetta niðurstaðan.....“ allir hundfúlir yfir skýrslunni....
Þá kemur Bjöggi Thor og segir sorrý maður, ég bara fattaði þetta ekki, sko bara (Orðið bara var mikið notað af útr-víkingum. „Slá bara lán. Endurfjármagnar þetta bara . Hirðir bara draslið maður. tekur bara Kúlu á þetta. Þetta er bara dallur osfrv...)
Þá kemur bara nýtt gos, já og ekki eins og þetta lélega drasl um daginn. Nú er almennilegur gosmökkur, stórflóð og allt almennilegt. Vantar bara gullflögurnar til að toppa þetta.

(var að heyra í aukafréttatíma að þeir búast við miklu tjóni og ekki bara á vegum og brúm... þannig að það er náttlega ekki fyndið sko)
Sem betur fer búið að koma fólki í burtu.

Njótið brosins ;)

þriðjudagur, apríl 13, 2010

Inngangur að Aprílbloggi.

Langt síðan ég bloggaði síðast...  en svona er þetta bara tíminn flýgur og ég verð nú að segja það að ég er heldur ekki búin að vera uppá mitt besta.

Ég fór í þessa fyrrnefndu hnéaðgerð í byrjun janúar, nánar tiltekið á afmælisdaginn minn hehehe.... eftir þó nokkra þrautagöngu, verki og slagsmál við bjúg kom í ljós að ég er með blóðtappa frá miðjum kálfa að miðju læri.  Þetta hefur kostað ýmislegt t.d. þurfti ég að sprauta mig fyrstu vikurnar og svo tek ég blóðþynnandi töflur sem eiga að forða því að blóðtappinn geri frekari skaða.  Þetta hefur nú gengið svona frekar hægt og enn er ég hölt og er vinstri fóturinn á mér mun feitari en sá hægri.  En allavega leið mér og líður stundum eins og ég hafi elst um marga tugi ára í þessum veikindum svo ekki sé talað um fleiri tuga þúsunda útgjöld sem eru nú komin vel á annað hundraðið.

En mikið ofsalega lærir maður að meta góða heilsu þegar maður verður fyrir svona áfalli, vona að það skili sér í meiri hreyfingu og hollara matarræði svona þegar ég næ að koma mér uppúr volæðinu......

Nú er ég stödd í Bergen á ný, það er mun bjartara hér núna en var í haust og sólin hefur líka látið sjá sig þó enn sé skítkalt.  Hér ákvað ég að lifa soldið svona "bohem" lífi, þ.e. ganga og taka strætó allar mínar ferðir.  Þetta kallar á þó nokkuð labb og vill brekkan hér á leiðinni heim stundum vera ótrúlega löng og brött og reynir þó nokkuð á fótinn, en ég vona að ég hafi gott af þessu.

Ég hef nú loksins tíma til að lesa eitthvað og var ég byrjuð á bókinni "Sex grunaðir" sem er eftir sama höfund og "Viltu vinna miljarð".  Reyndar er sú bók í venjulegu bindi svo ég skildi hana eftir heima hálflesna vegna þyngdar.  Í staðin tók ég með mér bækurnar "Póstkortamorðin" og "Berlínaraspirnar".  Ég lofa ykkur bókarýni á næstu dögum.