þriðjudagur, apríl 13, 2010

Inngangur að Aprílbloggi.

Langt síðan ég bloggaði síðast...  en svona er þetta bara tíminn flýgur og ég verð nú að segja það að ég er heldur ekki búin að vera uppá mitt besta.

Ég fór í þessa fyrrnefndu hnéaðgerð í byrjun janúar, nánar tiltekið á afmælisdaginn minn hehehe.... eftir þó nokkra þrautagöngu, verki og slagsmál við bjúg kom í ljós að ég er með blóðtappa frá miðjum kálfa að miðju læri.  Þetta hefur kostað ýmislegt t.d. þurfti ég að sprauta mig fyrstu vikurnar og svo tek ég blóðþynnandi töflur sem eiga að forða því að blóðtappinn geri frekari skaða.  Þetta hefur nú gengið svona frekar hægt og enn er ég hölt og er vinstri fóturinn á mér mun feitari en sá hægri.  En allavega leið mér og líður stundum eins og ég hafi elst um marga tugi ára í þessum veikindum svo ekki sé talað um fleiri tuga þúsunda útgjöld sem eru nú komin vel á annað hundraðið.

En mikið ofsalega lærir maður að meta góða heilsu þegar maður verður fyrir svona áfalli, vona að það skili sér í meiri hreyfingu og hollara matarræði svona þegar ég næ að koma mér uppúr volæðinu......

Nú er ég stödd í Bergen á ný, það er mun bjartara hér núna en var í haust og sólin hefur líka látið sjá sig þó enn sé skítkalt.  Hér ákvað ég að lifa soldið svona "bohem" lífi, þ.e. ganga og taka strætó allar mínar ferðir.  Þetta kallar á þó nokkuð labb og vill brekkan hér á leiðinni heim stundum vera ótrúlega löng og brött og reynir þó nokkuð á fótinn, en ég vona að ég hafi gott af þessu.

Ég hef nú loksins tíma til að lesa eitthvað og var ég byrjuð á bókinni "Sex grunaðir" sem er eftir sama höfund og "Viltu vinna miljarð".  Reyndar er sú bók í venjulegu bindi svo ég skildi hana eftir heima hálflesna vegna þyngdar.  Í staðin tók ég með mér bækurnar "Póstkortamorðin" og "Berlínaraspirnar".  Ég lofa ykkur bókarýni á næstu dögum.

Engin ummæli: