fimmtudagur, september 27, 2012

Næstu skref.

Jæja þá, nú er runninn upp fimmtudagur.  Nú verður stefnan tekin á næsta skref í umbreytingunni.  Sko... ég er hætt að lita hárið mitt þannig að nú er það bara fallega grátt!

Næst er það léttingurinn, er búin að vera kóklaus í hvað...  næstum 3 vikur, er búin að svindla 2 svar, þ.e. í saumó fékk ég mér pepsi MAX og á sunnudaginn var.. eftir stífa drykkju á laugardeginum, fékk ég mér eina svona kók með öllu þ.e. original.  Enda þurfti ég að keyra í bæinn úr Skagafirði.

Já... ég var búin að setja markið á 15 kíló niður...  mættu alveg vera 20+ en 15 kíló er markið því þá ætlar kærastinn að hætta að reykja, svo ég geri þetta allt með heilsu hans í forgangi.  Audda...

En nú er markið sett á aðeins breytt matarræði, sleppa öllum sykri, brauði, kartöflum, hrísgrjónum ofl.  Borða meiri fitu.

Allavega tók Krissi bróðir sig til um áramótin og hóf nýjan lífsstíl og það eru 20 kg. farin hjá honum síðan!!  það gera rúmlega 2 kg. á mánuði.

Jæja nú er ég búin að skrifa þetta niður, sjáum hvað gerist rakst á ótrúlega mynd um daginn.



Spáið í það, þetta eru hvorutveggja 938 kcal.!!

see yah

þriðjudagur, september 18, 2012

"Ekki amerískar seríur"


Ég var lasin um þarsíðustu helgi og lá bara í sófanum og gæddi mér á hinum ýmsu þáttum á VOD-inu sem ég hef ekki haft tíma til að horfa á.  Þetta voru þættir frá ýmsum löndum sem allir voru í sýningu á RUV.  Fyrsti þátturinn var hinn franski "Hver myrti Rauðhettu", svo voru það þýsku þættirnir "Berlínarsaga", sænsku þættirnir "Líf vina vorra", danski þátturinn "Dráparinn" og dansk/sænski þátturinn "Brúin".  Ég get bara sagt að þetta eru frábærir þættir allir með tölu.

Sá þáttur sem helst hefur haft áhrif á mig er "Berlínarsagan", þarna er fjallað um fólk sem bjó í Berlín árið 1980... ég meina það 1980, þá er ég unglingur og get sko alveg samsamað mig við unga fólkið í þættinum.  Það mátti hreinlega ekki neitt, hugsið ykkur, ef fjölskyldan hafði ákveðið að flytja úr landi, þá voru einkunnir barnanna lækkaðar svo þau ætti minni séns í námi annars staðar. Ef Bubbi hefði búið í A-Þýskalandi á þessum tíma hefði hann bara verið í fangelsi og örugglega Baggalútur líka.  Allir skíthræddir, vinir að njósna um vini eða ættingja.  Ef þú vildir eignast íbúð þá sóttir þú um það hjá "Húsnæðisstofnun" og ef þú þóknaðist ekki yfirvöldum áttirðu ekki séns á íbúð, vinnu eða neinu.  Ef þú aftur á móti hafðir góð tengsl við æðstu yfirvöld eða stjóra hjá STASI þá var allt í gúddí og enginn þorði að andmæla þér eða hreinlega kæra þig eða fara í mál við þig.  Come on talandi um að allir væru jafnir!!  Jæja, ég bíð spennt eftir næsta þætti.

"Líf vina vorra" er aftur á móti yndislegur og fjallar um 4 karlmenn í nútímakrísu, þetta eru allt svolítið mjúkir sænskir menn sem kunna að elda, tala saman og gráta á öxlinni á hvor öðrum.  Þeir ráðleggja hvor öðrum í ástarmálum og ræða lífið og tilveruna.   Eru svona menn til??  Kannski í henni "mjúku" Svíþjóð, ég á aftur á móti ekki svona mjúkan mann, það er á tæru.

mánudagur, september 17, 2012

Mánudagur til mæðu? eða alls ekki

Það er tvennt sem mér er ofarlega í huga þennan mánudag.

Í fyrsta lagi, var helgin frábær, fór í Hrunaréttir á föstudag og þar á eftir í kjötsúpu á þremur bæjum. Laugardagurinn hófst með frábærum morgunverði hjá Inga og Elsu og svo var farið á hestbak. Ég hef aðeins einu sinni áður farið á hestbak og þá var ég búin að drekka svolítið og kunni ekkert, kann svo sem ekkert enn, en þetta var mun betri reiðtúr en sá síðasti. Ég sé það alveg kærastanum til mikils ama að ég gæti alveg hugsað mér að fara á hestbak af og til í framtíðinni! :).

Í öðru lagi þá er það kókleysið, ég er búin að vera kóklaus í viku og langar bara ekkert í það enn. Vonandi tekst mér að halda þessu og geta svo í framtíðinni fengið mér kók svona einstaka sinnum án þess að skítfalla. En allavega gaf svo eitt knús á kaffistofunni í morgun og mér líður vel.

þriðjudagur, september 11, 2012

1 dagur kóklaus.

Já ég kláraði fyrsta daginn með stæl, fékk smá hausverk, það gæti líka verið kvefið og pestin sem eru búin að vera hrjá mig undanfarnar 2 vikur. Já, og nú er klukkan að verða 17:00 á degi nr. 2, þannig að ég held að þetta sé allt að koma. Fékk mér reyndar 2 aukabolla af kakókaffinu mínu.....(já sko það er ekkert að marka myndina, minn er ekki með rjóma... nema þegar ég fer á kaffihús og dekra við mig) já sko, við erum ekki komin í léttinginn ennþá, fyrsta skref var að losna við kókfíknina, hitt kemur "leiter". Hafið það gott.

mánudagur, september 10, 2012

Játning, ég er kókisti!

Ég tók ákvörðun í morgun... já alveg satt. Ég ætla að hætta að drekka kók. Ég er einn af þessum forföllnu kókistum og á erfitt að komast í gegn um daginn nema með kókglas eða flösku við hönd... þarna er eitthvað sem hreinlega stjórnar lífi mínu. Ég fer ekki í búðina nema vera viss um að kókbirgðirnar séu í lagi. Já ég þarf meira að segja stundum ekkert að fara í búð en fer afþví að kókið er búið!! How low can you get. En allavega í dag 10. september kl. 15:00 hef ég ekki drukkið deigan dropa af kóki.. já ég veit að fyrsta vikan verður erfið, en ég skal klára þetta. Þetta er í raun byrjun á öðru stærra verkefni, en það kemur svo í framhaldinu. Kókið er byrjunin. Ég skrifa þetta hér svo ég falli síður, hérna er ég búin að gera samning við sjálfa mig og þá er undir mér komið að standa við hann.