þriðjudagur, september 18, 2012
"Ekki amerískar seríur"
Ég var lasin um þarsíðustu helgi og lá bara í sófanum og gæddi mér á hinum ýmsu þáttum á VOD-inu sem ég hef ekki haft tíma til að horfa á. Þetta voru þættir frá ýmsum löndum sem allir voru í sýningu á RUV. Fyrsti þátturinn var hinn franski "Hver myrti Rauðhettu", svo voru það þýsku þættirnir "Berlínarsaga", sænsku þættirnir "Líf vina vorra", danski þátturinn "Dráparinn" og dansk/sænski þátturinn "Brúin". Ég get bara sagt að þetta eru frábærir þættir allir með tölu.
Sá þáttur sem helst hefur haft áhrif á mig er "Berlínarsagan", þarna er fjallað um fólk sem bjó í Berlín árið 1980... ég meina það 1980, þá er ég unglingur og get sko alveg samsamað mig við unga fólkið í þættinum. Það mátti hreinlega ekki neitt, hugsið ykkur, ef fjölskyldan hafði ákveðið að flytja úr landi, þá voru einkunnir barnanna lækkaðar svo þau ætti minni séns í námi annars staðar. Ef Bubbi hefði búið í A-Þýskalandi á þessum tíma hefði hann bara verið í fangelsi og örugglega Baggalútur líka. Allir skíthræddir, vinir að njósna um vini eða ættingja. Ef þú vildir eignast íbúð þá sóttir þú um það hjá "Húsnæðisstofnun" og ef þú þóknaðist ekki yfirvöldum áttirðu ekki séns á íbúð, vinnu eða neinu. Ef þú aftur á móti hafðir góð tengsl við æðstu yfirvöld eða stjóra hjá STASI þá var allt í gúddí og enginn þorði að andmæla þér eða hreinlega kæra þig eða fara í mál við þig. Come on talandi um að allir væru jafnir!! Jæja, ég bíð spennt eftir næsta þætti.
"Líf vina vorra" er aftur á móti yndislegur og fjallar um 4 karlmenn í nútímakrísu, þetta eru allt svolítið mjúkir sænskir menn sem kunna að elda, tala saman og gráta á öxlinni á hvor öðrum. Þeir ráðleggja hvor öðrum í ástarmálum og ræða lífið og tilveruna. Eru svona menn til?? Kannski í henni "mjúku" Svíþjóð, ég á aftur á móti ekki svona mjúkan mann, það er á tæru.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli