fimmtudagur, júní 07, 2007

Unglingar!!

Já með 2 unglinga á heimilinu auk eins til viðbótar í láni í viku er ég stundum á barmi taugaáfalls. Þau eru ótrúleg. Ég kem heim úr vinnunni í gær, var að flýta mér þessi líka ósköp þar sem ég átti eftir að gera svo mikið fyrir kl. 19:00 þegar ég átti að mæta með hundinn í hundaskólann. (Það er eins gott að vera með forgangsröðunina í lagi!!). Ég sé að stelpan og gesturinn eru að horfa á "Beverly hills 90201" í sjónvarpinu sitja þarna í sitt hvorum stólnum. Ég lít inn í eldhúsið og mér hreinlega féllust hendur.

Uppþvottavélin var full af hreinum diskum, sem enginn nennti að taka uppúr og svo voru þau öll þrjú búin að fá sér a.m.k. að drekka úr nokkrum glösum á mann og nota nokkra diska (þið vitið það að ef maður er búin að drekka vatn úr einu glasi þá er það skítugt og ef það skyldi vera brauðmylsna á disknum þá er hann líka skítugur!!) Allavega voru diskar og glös um öll borð, auk allra dagblaðanna sem streyma á heimilið og öllum virtist vera alveg sama. Ég hefði gengið út ef ég hefði ekki átt eftir að setja krem á kökuna sem ég þurfti að fara með í útskrift sonarins og elda matinn.

Þvotturinn!! Já þvotturinn, mér finnst þvottavélin bara vera non stop alla daga, ég set í hana áður en ég fer í vinnuna, tek úr henni set í aðra þegar ég kem heim og svona gengur þetta allt kvöldið kannski 3-4 þvottavélar á dag og svo skellir maður einhverju í þurrkarann. Allavega það sér ekki fyrir endann á þessu, það eru handklæði ofl. ofl. Ég veit ekki hvað er langt síðan ég sá síðast botninn á þvottakörfunum (þær eru samt 2)!!

Svo geta þau líka verið yndisleg þessar elskur stundum ;-)

Knúsið unglingana ykkar.

Engin ummæli: