fimmtudagur, júlí 17, 2008
"Relationships in the city"
Fór í gær á myndina "Sex in the city" með Gelgjunni. Hún var reyndar mjög skemmtileg á köflum og yfirhöfuð ágæt mynd. Hún var nú reyndar í það lengsta og voru þau nokkur atriðin sem við hefðu getað klippt aðeins mæðgurnar og stytt myndina verulega, enda óþarfi að hafa svona mynd í tvo og hálfan tíma.
Það sem mér fannst soldið athyglisvert í myndinni var að áherslurnar hafa breyst nokkuð, nú eru þær allar vinkonurnar komnar í sambönd sem hafa varað í einhver ár og aðrar áherslur komnar í lífið hjá þeim og nokkuð langt frá kærulausu stelpunum sem stunduðu það að "hösla" sem mest og lýsa svo kynlífinu og samverunni fyrir hinum. Jafnvel gera grín að "fórnarlambi höslsins". En við skemmtum okkur bara nokkuð vel og get alveg mælt með þessari mynd sem ágætri kvöldskemmtun.
p.s. hún er sýnd í sal 4 í Háskólabíó og var salurinn næstum fullur en aðeins sá ég 2 karlmenn í salnum.
miðvikudagur, júlí 16, 2008
Þyrlur!
Já, það eru greinilega breyttir tímar. Ekki er langt síðan aðeins ein eða tvær þyrlur voru til á landinu og voru þær aðallega notaðar til björgunaraðgerða ýmis konar. Í dag er til fjöldi þyrlna og er alls konar fólk (ja, aðallega það sem á pening) farið að nýta sér þennan ferðamáta og þessi frábæru tæki til verka og flutninga.
Ekki er langt síðan frétt kom um það að menn hefðu komið á þyrlu úr Kjarrá til að fá sér pylsu í Baulu, svo óheppilega vildi til að peningaveskin gleymdust í jeppunum við ánna en þetta voru þekktir menn í viðskipalífinu svo þeir fengu að skrifa pylsuna hjá sér í sjoppunni. Skottið mitt var nú ekki lengi að grípa þetta og svaraði því til um daginn þegar pabbi hennar sagðist hafa skilið veskið eftir heima, hvort þau gætu ekki bara skrifað djúsinn hjá sér eins og "......".
Nú vill Björn Bjarnason banna þyrluflug yfir Þingvöllum, en eitthvað er um það að sumarbústaðaeigendur hafi notað þyrlur til að flytja að efni til endurbygginga og endurnýjunar bústaða við Þingvelli hmm.... Þetta stafar örugglega af því að hann sjálfur á bústað við Þingvelli og þetta hefur pirrað hann um helgina, þegar hann hefur ætlað að njóta kyrrðarinnar við vatnið. Á hvaða forsendum ætlar hann að styðja þetta bann, kannski er það hægt af því að um þjóðgarð er að ræða, en hvað gerir hann svo þegar hann sjálfur fattar þessi frábæru tæki og vill nýta sér þau?
Ég heyrði líka af yfir hundrað manna erlendum hópi sem lét flytja sig með þyrlum upp á Langjökul.
Já það er kannski málið að losa sig við bílinn og fá sér þyrlu í staðinn??
mánudagur, júlí 14, 2008
Húsmæðraorlof!
Já, ég fór ásamt vinkonu minni í "húsmæðraorlof" í Borganes um helgina. Við vöknuðum eldsnemma á laugardag og lögðum af stað vestur á Snæfellsnes með gönguskó og stafi í skottinu. Vorum með góðan ásetning um að taka nú góða göngutúra, ganga á milli Arnarstapa og Hellna, fara niður í Dritvík, uppí Sönghelli ofl. ofl. Á leið okkar vestur byrjaði að rigna, og svo rigndi og rigndi, þegar við keyrðum í Staðarsveitinni, sáum við ekki einu sinni fjöllin á hægri hönd þvílík var þokan og rigningin. Við enduðum í hádegismat í Fjörukaffi á Hellnum, fórum svo upp í Sönghelli þar sem við keyrðum fram á erlendan puttaferðalang. Við spáðum svolítið í það hvort við ættum að taka hann uppí, en hann var greinilega á leið upp Jökulhálsinn en við ætluðum ekki þá leiðinni þannig að við skildum hann bara eftir í hellinum. Hefur einhver heyrt um týndan ferðalang á Snæfellsnesi hmmm.....?
Þaðan tókum við bara stystu leið í Borgarnes þar sem beið okkar hótelherbergi á Hótel Hamri, heitur pottur og dásamlegur kvöldverður. Á sunnudeginum fengum við okkur morgunmat, gerðumst herbergisþernur, hjálpuðum aðeins til í eldhúsinu í frágangi eftir morgunmat og gerðumst svo léttadrengir og hjálpuðum heilli rútu af amerískum eldri borgurum með töskurnar sínar. Sáum svo sýninguna "Börn í 100 ár" í Safnahúsinu í Borgarnesi og fengum okkur léttan hádegisverð í "Vinakaffi".
Komum svo heim með bros á vör eftir vel heppnaða helgi og mikinn hlátur.
fimmtudagur, júlí 10, 2008
Mamma mia!
Fór að sjá Mamma mia í gær með Gelgjunni. Hún er reyndar búin að sjá "showið" í London tvisvar sem er meira en ég get sagt þar sem ég hef ekki séð það. Mér fannst myndin yndisleg, bæði grét og hló. Ofsalega gaman að sjá heldri leikara, þ.e. sem ekki eru bara þrjátíu og eitthvað í svona skemmtilegri mynd. Reyndar eru þessir karlmenn sem léku í myndinni alveg sér á parti, allir fjallmyndarlegir og sama má svo sem segja um konurnar, en samt náðu þau einhvern vegin að leika svona nokkuð venjulegt fólk hehehe.....
Svo er tónlistin líka alveg frábær, hlustaði nú á ABBA hérna í gamla daga alveg í rot, og safnaði ABBA myndum hmmm....
Mæli með þessari mynd fyrir alla.
þriðjudagur, júlí 08, 2008
Gúrka!
Já, það mætti halda að það væri "gúrka" í fréttamiðlum landsins. Það eru allir enn að fjalla um flóttamanninn sem sendur var til Ítalíu, ég bloggaði nú um það í gær og afgreiddi það þannig, mér finnst ekkert meira um það að segja.
Nú virðist krónan eitthvað vera að styrkjast svo brúnin ætti nú að lyftast á mörgum, einnig er margir sjálfstæðismenn hættir að fá útbrot þegar minnst er á Evrópusambandið, þannig að enn er von þar. Ég hef svo sem sagt það fyrir löngu að við ættum að ganga í sambandið og taka upp evruna, sem er eitthvað stöðugri en krónan. Mér líst aftur á móti ekkert á að taka upp dollar, hverjum datt það eiginlega í hug?
Hérna situr maður í vinnunni og nennir ekki að vinna, síminn hringir varla og það berst bara einn og einn póstur, sem sjaldnast er vinnutengdur og maður telur dagana þar til maður fer í frí. Í dag eru það 8 vinnudagar.
mánudagur, júlí 07, 2008
Flóttamenn og dómskerfið.
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða mál Keníska flóttamannsins hérna hans Ramses. Mín skoðun er sú að á meðan maðurinn er ekki dæmdur glæpamaður, morðingi eða eitthvað þaðan af verra í heimalandi sínu heldur er flóttamaður vegna þátttöku sinnar í stjórnmálum eigi hann og fjölskylda hans að fá hér hæli, punktur basta.
Hann hefur tengsl við Ísland, afhverju þá senda hann til Ítalíu? Ég skil heldur ekki alveg afhverju kona hans er með dvalarleyfi í Svíþjóð en ekki hann og af hverju honum einum var vísað héðan en ekki allri fjölskyldunni. Skil ekki alveg svona vinnubrögð. Mér finnst að þessi mál og mörg önnur eins og t.d. dómsmál eigi ekki að fá misjafna meðhöndlun og það fari eftir dagsformi embættismanna hvort menn fá hér hæli eða ekki og hve langa dóma menn fá í dómsmálum.
Sorrý Stína mín þú fékkst fimm ára dóm af því að dómarinn var í fúlu skapi, hann var eitthvað að tuða í krökkunum sínum í morgun. Hún Sigga sem framdi nákvæmlega sama glæp og þú fékk bara 2ja ára dóm af því hún var með annan og betri lögfræðing og hennar dómari hafði unnið í lottóinu á laugardag......
Við viljum ekki svona dómskerfi er það?
Hann hefur tengsl við Ísland, afhverju þá senda hann til Ítalíu? Ég skil heldur ekki alveg afhverju kona hans er með dvalarleyfi í Svíþjóð en ekki hann og af hverju honum einum var vísað héðan en ekki allri fjölskyldunni. Skil ekki alveg svona vinnubrögð. Mér finnst að þessi mál og mörg önnur eins og t.d. dómsmál eigi ekki að fá misjafna meðhöndlun og það fari eftir dagsformi embættismanna hvort menn fá hér hæli eða ekki og hve langa dóma menn fá í dómsmálum.
Sorrý Stína mín þú fékkst fimm ára dóm af því að dómarinn var í fúlu skapi, hann var eitthvað að tuða í krökkunum sínum í morgun. Hún Sigga sem framdi nákvæmlega sama glæp og þú fékk bara 2ja ára dóm af því hún var með annan og betri lögfræðing og hennar dómari hafði unnið í lottóinu á laugardag......
Við viljum ekki svona dómskerfi er það?
föstudagur, júlí 04, 2008
Saxi, ekki læknir sko!
Ég læddi hérna inn á hliðarlínuna tengil á gamlan skólabróður minn hann Einar Braga mikill saxófónleikari sem býr nú austur á Seyðisfirði. Hann var að flytja frumsamið verk sitt Drauma og naut þar aðstoðar annars "gamals" Garðbæings hennar Irmu Gunnarsdóttur, sem samdi dansana, í virkjanagöngunum í Fljótsdal, hefði gjarnan viljað vera þarna frábær stemmning og sérstakt umhverfi. Kíkið á myndböndin á síðunni hans.
Vona að þau komi með þetta hingað suður.
Vona að þau komi með þetta hingað suður.
Vinna, sól og blíða!
Jæja, þá er sumarið komið fyrir alvöru á Íslandi, spáð hitabylgju um helgina og áfram næstu viku. Er þetta ekki alveg týpískt? Ég fer ekki í frí fyrr en 21. júlí þá verður örugglega byrjað að rigna eða hvað? Jæja Skottið er að fara í frí með pabba sínum núna þannig að þau ættu að geta notið blíðunnar.
En það er hrikalega erfitt að vinna í þessari stemmningu sem er í gangi, þeir fáu sem ekki eru í fríi í vinnunni eru í skreppitúrum, mæta seint og hætta snemma!!
Er eiginlega búin að lofa mér því að nýta tímann á meðan Skottið er hjá pabba sínum og mæta snemma í vinnunna. Þá meina ég bara svona hálfátta eitthvað svoleiðis. Jæja það kemur í ljós hvort maður stendur við stóru orðin.
Það sem toppar þetta eiginlega er að á morgun er ég víst búin að lofa mér í vinnu við Bíkarmót sundsambandssins og það er haldið innandyra í Reykjanesbæ púff...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)