mánudagur, júlí 14, 2008

Húsmæðraorlof!


Já, ég fór ásamt vinkonu minni í "húsmæðraorlof" í Borganes um helgina. Við vöknuðum eldsnemma á laugardag og lögðum af stað vestur á Snæfellsnes með gönguskó og stafi í skottinu. Vorum með góðan ásetning um að taka nú góða göngutúra, ganga á milli Arnarstapa og Hellna, fara niður í Dritvík, uppí Sönghelli ofl. ofl. Á leið okkar vestur byrjaði að rigna, og svo rigndi og rigndi, þegar við keyrðum í Staðarsveitinni, sáum við ekki einu sinni fjöllin á hægri hönd þvílík var þokan og rigningin. Við enduðum í hádegismat í Fjörukaffi á Hellnum, fórum svo upp í Sönghelli þar sem við keyrðum fram á erlendan puttaferðalang. Við spáðum svolítið í það hvort við ættum að taka hann uppí, en hann var greinilega á leið upp Jökulhálsinn en við ætluðum ekki þá leiðinni þannig að við skildum hann bara eftir í hellinum. Hefur einhver heyrt um týndan ferðalang á Snæfellsnesi hmmm.....?
Þaðan tókum við bara stystu leið í Borgarnes þar sem beið okkar hótelherbergi á Hótel Hamri, heitur pottur og dásamlegur kvöldverður. Á sunnudeginum fengum við okkur morgunmat, gerðumst herbergisþernur, hjálpuðum aðeins til í eldhúsinu í frágangi eftir morgunmat og gerðumst svo léttadrengir og hjálpuðum heilli rútu af amerískum eldri borgurum með töskurnar sínar. Sáum svo sýninguna "Börn í 100 ár" í Safnahúsinu í Borgarnesi og fengum okkur léttan hádegisverð í "Vinakaffi".
Komum svo heim með bros á vör eftir vel heppnaða helgi og mikinn hlátur.

Engin ummæli: