miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Hundalogík


Fór á fyrirlestur í síðustu viku þar sem verkfræðingur sem vinnur í banka reyndi að útskýra fyrir okkur hinum verkfræðingunum hvað hefði gerst í bankaheiminum sem olli þessu hruni og svona helstu hugtök í þessum heimi eins og skortsala, gírun, skuldavafningar, fjármálaafurðir, markaðsáhætta ofl. ofl. Hann útskýrði þetta fyrir okkur hinum með því að líkja peningum ja eða "ímynduðum peningum" við hunda. Fór í smá leik þar sem hann útskýrði það hvernig maður gæti líftryggt hund nágrannans og svo skotið hann til að fá líftrygginguna borgaða....

Hafiði spáð í það hvað "skortsala" er? Það er þegar ég sel þér hlutabréf fyrir 100 kall, ég sannfæri þig um að þetta séu góð kaup. Í raunveruleikanum á ég ekki þessi hlutabréf heldur fékk þau lánuð hjá nágrannanum gegn loforði um að ég myndi borga honum þau seinna. Ok, nú veðja ég á að hlutabréfin lækki og þau gera það og þá greiði ég eigandanum þ.e. nágrannanum þau á 80 kall og hirði mismuninn. Lesið þetta aftur með athygli.... þetta eru víst búnir að vera "eðlilegir viðskiptahættir"!

Svo hefur einn bankinn fengið lán hjá Seðlabankanum gegn veði í hlutabréfum í öðrum... og svo er ekkert eðlilegra en að kaupa sér hlutabréf í banka og láta hlutabréfin sjálf duga sem tryggingu. Sko ef þú færð lán til að kaupa bíl, tekur lánafyrirtækið veð í bílnum en þér ber skylda til að hafa kaskótryggingu á bílnum, ef eitthvað kemur nú fyrir bílinn. Hvað gerist nú ef eitthvað kemur fyrir hlutabréfin, ok þau verða verðlaus, þá bara sorry banki, þú ert hvort eð er kominn á hausinn úr því hlutabréfin þín eru orðin verðlaus og skuldin er bara afskrifuð.

Þessi hlutabréfakaup í bönkunum væri hugsanlega hægt að líkja við það að þú kaupir líftryggingu fyrir hundinn, en þú þarft ekkert að borga líftrygginguna fyrr en hundurinn er dauður og færð trygginguna borgaða og þar með er það orðið þinn hagur að hundurinn drepist sem fyrst........

p.s. myndin er á engan hátt tengd efni pistilsins heldur er fengin úr myndasafni heimilsins og nafn fyrirsætunnar er Tinna.

Engin ummæli: