mánudagur, febrúar 23, 2009

18 ára.

Já nú er einkasonurinn og elsta barnið mitt ekki lengur barn í lagalegum skilningi, hann varð fullorðinn í dag, með sjálfræði og fjárræði, má gera allt nema kaupa áfengi. Hmmmm.... mikið fannst manni maður sjálfur vera fullorðinn á þessum árum, maður gat allt, já og gerði hehehe...

En ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar sonurinn fæddist, auðvitað gleyma mæður aldrei þeirri upplifun að fæða barn, en ég held að það sé samt einstök upplifun svona að eiga fyrsta barn. Þó þetta hafi verið mikið basl og gengið illa, þá gleymdist það einhvern veginn allt saman þegar ég fékk hann í fangið...

Hann var eldrauður, með mikið svart hár og fremst á enninnu snérist hárið í svona hvirfil, það var svona hrikalegur sveipur á greyinu... hehehe... þessi sveipur hefur svo sem oft verið til umræðu og mikið verið hlegið að honum, sérstaklega í seinni tíð, enda stöðugt til vandræða... hehehe...

Svo grét hann allar nætur fyrstu 6 mánuðina.. já ýkjulaust, hann byrjaði á miðnætti og grét til fjögur á morgnana... þá sofnuðum við mæðginin útkeyrð og sváfum til hádegis...

En í dag er þessi ungi maður stolt foreldra sinna og ég held að við höfum bara skilað af okkur ágætis verki hehehe....

Og auðvitað finnst mér hann vera sætasti strákur í heimi...

föstudagur, febrúar 20, 2009

Eilífðarhamingja

Ég man ekkert hvort ég hef birt þetta hér áður, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.


Eilífðarhamingja:

Þegar ég var yngri, vóg ég nokkrum kílóum minna.
Ég þurfti aldrei að halda maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.

En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minn brotist til frelsis. Og um þann hluta hans sem einu sinni var mitti, eru þægileg teygjanleg efni.

Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður, ef ég kem þá fótunum yfirleitt í þá, og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft niður undir hné.

En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist, eða hversu DIMMT virðist yfir öllu í dag. Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri dagur.

Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna hvernig hún bregst við þessum þremur hlutum:
1. Rigningardegi
2. Týndum farangri
3. Flæktu jólatrésskrauti

Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar, komum við til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.

Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti, er ekki það sama og að skapa sér líf !!

Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.

Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið með hornabolta-hanska á báðum höndum. Öðru hvoru verður maður líka að gefa boltann til baka.
Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu, þá hef ég yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.

Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.

Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina.
Allir þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.
Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast, en fólk gleymir ekki hvernig þú lætur því líða.

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Smá áminning


Stundum þegar maður er að svekkja sig á líferni sínu eða á því að hreyfa sig nú ekki nóg, ja eða á aukakílóunum er ágætt að muna boðorðið:

Lífið á ekki að vera rólyndis rölt að grafarbakkanum með það að markmiði
að komast örugg á áfangastað í huggulegum og vel varðveittum líkama. Miklu
heldur á það að vera blússandi gleðibuna og ískrandi yndisflug með
súkkulaði í annarri og vínglas í hinni í fullnýttum og gatslitnum skrokki
öskrandi...

Fjárans fjör sem þetta er!

þriðjudagur, febrúar 17, 2009

Viðutan...


Ég er búin að vera eitthvað viðutan þessa dagana. Veit ekkert almennilega afhverju, bara á svona daga stundum.....

Þeir sem þekkja okkur vita að við erum svona B-fjölskylda... getum vakað frameftir öllu og sofið frameftir öllu líka.... Eigum oft erfitt með að vakna á morgnana. Þetta á einnig við um Skottuna. Hún stendur á því fastar en fótunum á kvöldin að hún sé bara ekkert freitt... og finnist leiðinlegt að fara að sofa. Á morgnana þegar hún þarf að vakna leggur hún handlegginn um hálsinn á manni, kúrar sig í hálsakotið og treður ísköldum tásunum undir sængina hjá manni. (Sko við sofum nefnilega saman í "fjölskyldurúminu", ég og hún). Svo tekur við óratími þar sem ég kitla hana, tala við hana, strýk henni um vangann, fer í "kemur kallinn labbandi, ætlar að heimsækja....." en allt kemur fyrir ekki, hún bara umlar og nennir ekki að vakna. Þá þarf að grípa til annarra ráða og þýðir það að ég kveiki ljósin, fer á fætur og í sturtu á meðan kúrir hún sig áfram undir sæng... það er eiginlega ekki fyrr en ég fer að hóta með því að nú sé ég bara tilbúin og sé farin, eða að nú sé hún að verða of sein að fá morgunmat.... að eitthvað fer að gerast. En allavega þegar að þessu kemur erum við oftast orðnar í frekar mikilli tímaþröng og þá hefst leitin að bíllyklunum, húslyklunum, veskinu, gemsanum osfrv.... auðvitað er þetta allt á sínum stað hmmm.... ja eða þannig.

Allavega gerðist það um daginn að ég fann ekki veskið mitt. Ég leitaði og leitaði, í öllum vösum og veskjum, á öllum borðum og inni í öllum herbergjum en allt kom fyrir ekki. Þar sem ég hafði verið í einhverju stússi daginn áður hafði ég eiginlega ekki hugmynd um það hvar ég hefði getað týnt helv. veskinu, svo ég endaði með að hringja í VISA og láta loka öllum kortum svona til öryggis, á svo eitt svona vara visakort hér heima sem ég stakk í vasann til að vera ekki alveg peningalaus. Á leiðinni í vinnunna fór ég aftur yfir atburðarás kvöldsins áður og þá kviknaði ljós, skottið á bílnum.... jú það passaði, ég hafði verslað í matvörubúð og sett pokana í skottið, haldið á veskinu og lagt það frá mér á gólfið á skottinu á meðan ég kom pokunum fyrir. Ok... þetta slapp fyrir horn, nema nú þurfti ég að fara í bankann að opna kortin að nýju...

Nokkrum dögum seinna var það bíllykillinn. Nú vill þannig til að ég týndi varalyklinum af bílnum fyrir tveimur árum síðan, en tímdi svo ekki að láta gera nýjan lykil, og það kom aftan að mér um daginn. Þarna stóðum við mæðgurnar löngu tilbúnar í anddyrinu og fundum enga lykla, ekki var hægt að grípa til varalykla svo við vorum bara soldið "stuck". Sem betur fer er stutt í leikskólann þannig að ég ákvað að labba bara með Skottuna í leikskólann og koma svo aftur og leita áður en ég léti skapvonsku mína og pirring bitna á saklausu barninu. Jú, jú þetta gekk, en svo hófst leitin. Ég lýg því ekki að ég leitaði í klukkutíma, fór í alla skápa, alla vasa bæði hjá mér og hjá syninum, því hann á það til að fá bílinn og stinga lyklunum í buxnavasann, gekk meira að segja svo langt að ég hringdi í hann í skólann til að spyrja að þessu og hann sór og sárt við lagið að hann hefði ekki hreyft bílinn kvöldinu áður og enn leitaði ég. En að lokum já að lokum fann ég hann í vasanum á kraftgallanum mínum, hafði farið út með hundinn kvöldinu áður og átt eitthvað erindi í bílinn í leiðinni. Allavega ég fór beint í umboðið og lét smíða nýjan lykil... sama hvað hann kostaði.

En þetta er soldið týpísk ég sko.....

sunnudagur, febrúar 15, 2009

Skaparinn-bókmenntarýni.


Já, náði loks að klára eina jólabókina í morgun. Skaparinn, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þessa bók, hún byrjar afskaplega hægt og það fer ógurlegur tími og orð í alls konar nákvæmar lýsingar á útliti, tilfinningum, umhverfi og öðru. Eiginlega of mikill tími svona fyrir minn smekk. Ég var komin inn í næstum miðja bók og ekkert var farið að gerast, kannski er ég bara svona óþolinmóð af "action" kynslóðinni og vill að atburðarásin sé svolítið hraðari. En svo þegar komið er í miðja bók þá fer eitthvað að gerast, samt er flestum atvikum lýst bæði frá sjónarmiði mannsins og konunnar og mér finnst fara soldið mikið púður í það að lýsa ljótleka lífsins, kynlífsins og sálarinnar. Kannski er ég bara of jákvæð og bjartsýn til að geta samsamað mér að þessum ljótleika.

En bókin er kannski ekkert svo galin þegar maður er búin með hana og allt er búið. En samt fannst mér vanta eitthvað almennilegt uppgjör á milli mannsins og konunnar, en ég get víst ekki valið mér atburðarás í bókum sem ég les. Þarf að skrifa þær sjálf til að fá útúr þeim það sem ég helst vil.

Ég er bara soldið fegin að vera búin með hana, þá get ég byrjað að lesa einhverja bók sem er mér meira að skapi hehehe....

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Börnin og kreppan

Eins og dyggir lesendur mínir vita á ég litla Skottu... hún er 5 ára reyndar bráðum 6 segir hún sko.

En þar sem hún er langyngst af sínum systkinum gerist það einhvern vegin að hún verður fullorðnari en árin segja til um og stundum líður manni eins og hún sé 55 en ekki 5.

Hún fylgist mikið með fréttum og það er kannski alveg ástæða til að fylgjast svolítið með því sem hún sér og heyrir því þetta er allt tekið og krufið til mergjar. Ég varð svolítið hissa þegar ein samstarfskona mín, sem á börn á svipuðum aldri og Skottið, sagði við mig um daginn: "Hvað leyfirðu henni að horfa á fréttir?" Ég hélt bara að öll börn horfðu á fréttir, enda kannski ekki annað í boði þegar foreldrarnir eru að horfa á fréttir í aðalsjónvarpstæki heimilisins. Það hefur allavega oft verið sögð sagan af mér sjálfri þegar ég var að diskutera Watergate málið við fullorðinn frænda minn þá aðeins 9 ára gömul.

Svo syngur hún ABBA, hún kann öll lögin og textana líka (svo langt sem það nær þegar maður kann hvorki að lesa né tala ensku) úr myndinni "Mama mia" og það er líka fylgst mjög vel með eurovision og þar á hún sitt uppáhaldslag og kann auðvitað alla textana.

En talandi um Skottuna, hún var í bíl hjá föður vinkonu sinnar þegar það kom í fréttunum að stjórnin væri fallin. Þá heyrist í henni svona stundarhátt "Sjúkket, þá hætta mótmælin". Um daginn við eldhúsborðið kemur svo "Mamma, ég hata kreppuna!". Samt hefur nú ekki "kreppt" mikið að hér á okkar heimili. Svo segir hún við mig áðan "mamma ég man ekki eftir fyrri kreppum". Ég fæ svona á tilfinninguna að kreppa sé eitthvað skrýmsli eða dýr.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Smá svona speki.

Sagan segir að tveir vinir hafi gengið í eyðimörk. Á leiðinni fóru þeir að rífast, og annar vinurinn gaf hinum létt á kjammann. Honum sárnaði, en án þess að segja nokkuð skrifaði hann í sandinn; ' Í DAG GAF BESTI VINUR MINN MÉR, EINN Á ´ANN!'

Þeir gengu áfram þangað til þeir komu að vatnslind og þar fóru þeir út í. Vinurinn sem hafði orðið fyrir hinum áður var nærri druknaður, en var bjargað af vini sínum. Þegar hann hafði jafnað sig , risti hann í stein; 'Í DAG BJARGAÐI BESTI VINUR MINN MÉR FRÁ DRUKNUN'.

Vinurinn sem bæði hafði veitt honum tiltal og bjargað honum spurði: 'Þegar ég sló þig, skrifaðir þú í sandinn, og núna skrifar þú í steininn. 'Af hverju?' Hann svaraði: Þegar einhver gerir þér eitthvað illt áttu að skrifa það í sandinn, þar sem vindur fyrirgefningar getur eytt því. En þegar einhver gerir þér eitthvað gott þá áttu að grafa það í stein þar sem enginn getureytt því.

'LÆRÐU AÐ SKRIFA SÁRINDI ÞÍN Í SANDINN OG GRAFA HAMINGJU ÞÍNA Í STEIN'!

mánudagur, febrúar 09, 2009

Hvað er eiginlega í gangi?

Mér er eiginlega ofboðið. Hvernig dettur Davíð í hug að segja ekki bara af sér, mér finnst þetta bara orðið "soldið" vandræðalegt. Svo rífast menn inná þingi um það hvort að lagafrumvarpinu um Seðlabankann skuli vísað til viskiptanefndar þar sem stjórnarflokkarnir eru í minnihluta og þurfa að treysta á framsókn, eða til efnahags- og skattanefndar þar sem stjóranflokkarnir þurfa ekki að treysta á stuðning framsóknar....

Vitiði það ef þetta er aðalmálið þá blæs ég nú bara á allar fullyrðingar um það að stjórnin sé að gera eitthvað fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu. Fólk er bara að rífast um einhver algjör smáatriði á meðan Róm brennur.

Fá bara menntað einræði, það er eina sem bliver í svona árferði...

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Lífshlaupið

Já nú er búið að hrinda af stað Lífshlaupinu. Mitt góða fyrirtæki er þvílíkt virkt í þessu og búið er að setja saman ein 14 lið sem i eru frá 5-10 manns hverju, þannig að þið sjáið það bara, við ætlum greinilega að "massa" þetta.

En allavega ég lét tilleiðast og skráði mig með, maður er hvort eð er alltaf á ferðinni með hundinn svo það væri ekki verra að fá einhverja punkta fyrir það hehehe... En allavega til að bregðast nú ekki mínu liði fór ég í tæplega klukkustundar göngutúr í gær uppá Lágafell m.a. í 10 stiga frosti og geri nú aðrir betur hehehe...

En allavega allir að hreyfa sig nú...

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Skrítin tík þessi pólitík !

Ný stjórn tók við á sunnudaginn. Ég hef svona blendnar tilfinningar gangvart henni, soldið hrædd um að aðhaldið verði ekki eins mikið og þyrfti af því að það eru kosningar í vor og loksins, loksins komst vinstri stjórn að hér á okkar ísa kalda landi og nú þurfa þeir kannski að afla sér vinsælda. Veit það ekki....

Mér finnst frábært að þetta er stjórn sem er samansett af jafnmörgum konum og körlum auk þess sem við höfum konu sem forsætisráðherra. Einnig finnst mér frábært að það skuli vera fengið fagfólk í 2 af ráðuneytunum, sem er nýlunda en ég er viss um að er aðeins gæfuspor, enda held ég að Gylfi og Ragna séu mjög fær á sínum sviðum.

En eins og ég sagði, fyrstu verk þessarar stjórnar eru kannski ekki alveg í takt við það sem er að gerast í þjóðfélaginu, þ.e. fyrsta verk Kolbrúnar Umhverfisráðherra var að gefa út yfirlýsingu þess efnis að ekki yrði af álveri við Bakka. Fyrsta verk Ögmundar sem heilbrigðisráðherra var að gefa út yfirlýsingu um Skt. Jósefsspítala og fella niður innlagnargjöld af sjúkrahúsum. Fyrsta verk Steingríms sem sjávarútvegsráðherra var að heimsækja sjávarútvegsráðuneytið til að skoða þetta með hvalveiðarnar og sem fjármálaráðherra var að gefa út yfirlýsingu um að hann vildi helst taka upp norska krónu. Fyrsta verk Jóhönnu var að senda Seðlabankastjórunum bréf og biðja þá um að segja af sér.... Já...hmmm..... eru þetta þau verk sem helst þyrfti að ganga í og mest liggur á?

Kannski, það var allavega krafa fólksins að skipta um stjórn í Seðlabankanum, en svo kemur allt hitt, var ekki einhver nefnd í heilbrigðisráðuneytinu búin að komast að því að þetta væri besta lausnin og er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum að fólk greiði komugjald á sjúkrahúsin?? Einnig hefði ég haldið að í slíku árferði væri tilvalið að fara í hvalveiðar, það skapar tekjur, við að veiða hvali eykst loðnustofninn og þarmeð þorskstofninn þannig að ég hefði haldið að þetta væri nú bara þjóðþrifaverk, á meðan við erum ekki að veiða einhverja hvali í útrýmingarhættu. Einnig hefði ég haldið að það væri um að gera að auka framkvæmdir auk útflutningstekna með álversbyggingu. Það vilja allir fyrir norðan þetta álver, Húsavík og Akureyri. Það er bara eitthvað 101 lið sem ekki vill álver þarna.

Jæja, ég ætla ekki að segja meira, ekki voru hinir svo sem að gera einhverja frábæra hluti, það væri synd að segja það, hverjum svo sem það er svo að kenna. En ég vona bara að þessi stjórn sem aðeins situr í 84 daga nái ekki að klúðra neitt voðalega miklu, en kannski samt nógu miklu til að ná ekki endurkjöri......

Er ég of pólitísk???

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Ný stjórn

Já það kom víst ný ríkisstjórn í dag... en vitiði ég er svo afslöppuð og slök eftir námskeiðið að ég nenni ekki að hafa skoðun á því í dag og hvað þá blogga um það.

leiter...

Sunnudagur til sælu

Þessum dásamlega sunnudegi eyddi ég á frábæru námskeiði hjá Guðjóni Bergmann. Lærði hugarró og innri frið.... ekki veitti af hmmm... er búin að vera eitthvað svo klikkuð síðustu vikur hmmmm.... Við skulum nú ekkert fara frekar útí þá sálma.

En aftur að námskeiðinu, þarna var maður tilbúinn að sitja inni í góða útivistarveðrinu á námskeiði allan daginn frá 10:00 - 16:00. En vitiði það, þessum tímum var vel varið og ég er búin að ákveða það að það sem ég lærði í dag verður notað í framtíðinni. Það er svo margt sem truflar hugsunina og þarna lærði maður aðferðir til að hreinsa hugann og slaka á, frábært.

Það eru 7 atriði sem hjálpa manni til að ná hugarró þau eru:

Leidd slökun
Breytt iðja eða umhverfi
Einföld endurtekning
Snerting (maður fær nú aldrei nóg af henni)
Hugleiðsla og þögn
Öndunaræfingar
Æðruleysi og fyrirgefning

Þarna var farið yfir þessi atriði og okkur kennd slökun og hugleiðsla auk öndunaræfinga. Ég held að þetta séu frábær verkfæri sem maður getur nýtt sér til betra lífs.

Nú er bara að lofa sér ekki um of, heldur segja já ég ætla að taka slökun 2svar í viku, bara plús ef maður gerir eitthvað meira hehehe....