sunnudagur, febrúar 15, 2009

Skaparinn-bókmenntarýni.


Já, náði loks að klára eina jólabókina í morgun. Skaparinn, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þessa bók, hún byrjar afskaplega hægt og það fer ógurlegur tími og orð í alls konar nákvæmar lýsingar á útliti, tilfinningum, umhverfi og öðru. Eiginlega of mikill tími svona fyrir minn smekk. Ég var komin inn í næstum miðja bók og ekkert var farið að gerast, kannski er ég bara svona óþolinmóð af "action" kynslóðinni og vill að atburðarásin sé svolítið hraðari. En svo þegar komið er í miðja bók þá fer eitthvað að gerast, samt er flestum atvikum lýst bæði frá sjónarmiði mannsins og konunnar og mér finnst fara soldið mikið púður í það að lýsa ljótleka lífsins, kynlífsins og sálarinnar. Kannski er ég bara of jákvæð og bjartsýn til að geta samsamað mér að þessum ljótleika.

En bókin er kannski ekkert svo galin þegar maður er búin með hana og allt er búið. En samt fannst mér vanta eitthvað almennilegt uppgjör á milli mannsins og konunnar, en ég get víst ekki valið mér atburðarás í bókum sem ég les. Þarf að skrifa þær sjálf til að fá útúr þeim það sem ég helst vil.

Ég er bara soldið fegin að vera búin með hana, þá get ég byrjað að lesa einhverja bók sem er mér meira að skapi hehehe....

Engin ummæli: