þriðjudagur, desember 30, 2008
Flugeldar og jólatré.
Ég hef örugglega sett inn svipaðar færslur síðustu jól og jólin þar áður. En ég er nú soldið þannig sinnuð að allan svona "óþarfa" eins og jólatré og flugelda, sem eru nú samt ómissandi, eigi fólk að kaupa af einhverjum samtökum, ekki af kaupmanninum á horninu eða einhverjum aðilum sem aðeins eru að þessu í gróðaskyni fyrir sjálfan sig.
Ég hef yfirleitt keypt jólatré af samtökum sem heita Landakot sem styrkja veik börn, en þetta árið var það hjálparsveit skáta í Garðabæ sem nutu góðs af þessum kaupum mínum og flugeldana kaupi ég að sjálfsögðu hjá björgunarsveitunum, dettur ekki annað í hug enda gömul björgunarsveitakona sjálf.
Þannig að ég hvet ykkur til að kaupa ykkar flugelda af Landsbjörgu.
mánudagur, desember 29, 2008
Milli jóla og nýárs.
Hér í hjá mér er nú frekar fámennt, en maður reynir svona að einbeita sér að vinnunni og koma þá enn meiru í verk en ella. Seinnipartinn í dag er svo jólatrésskemmtun hjá okkur hér í vinnunni og ætla ég að mæta þar með Skottuna mína. Hún fer svo með ömmu sinni og afa í sumarbústað í kvöld og verður alveg í næstum viku. Pínu svona sorglegt fyrir mig, vill bara hafa hana alltaf hjá mér, hún er eitthvað svo yndisleg. En svona er víst lífið, það er ekki á allt kosið og æðislegt fyrir hana að fá að fara í sumarbústað frekar en vera heima og mamma ekki einu sinni heima heldur í vinnunni.
Auðvitað er maður búinn að borða á sig gat þessa daga og ég held að mér hafi tekist á eigin spýtur að klára heilan konfektkassa yfir jólin.... Púff... ég ætla ekki að stíga á vigt fyrr en vel er komið inn í nýtt ár.
Annars hafa þessir dagar auðvitað liðið allt of hratt eins og venjulega og sem betur fer eru bara tveir vinnudagar og svo kemur aftur frí.
þriðjudagur, desember 23, 2008
Gleðileg jól.
Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið eigið eftir að hafa það gott um hátíðirnar.
Gott að vita:
Þegar maður blandar mjöl og vatn verður lím.
Þegar maður bætir við eggjum og sykur verður úr kaka.
En HVAÐ VERÐUR ÞÁ UM LÍMIÐ?
Það skal ég segja ykkur. Það límist við mjaðmir og maga!
Jólaknús.
föstudagur, desember 19, 2008
Ég kemst í jólafíling...
Já, ég er sennilega að komast í jólafílinginn. Á eftir að gera alveg fullt, en jólin koma samt alveg sama hvað maður nær að gera og hvað ekki. Ég er búin að lofa Skottunni því að við förum á morgun og kaupum jólatré og svo munum við skreyta allt um helgina. Þannig að nú vitiði hvað ég ætla að gera um helgina hehehe....
Er búin að kaupa flestallar jólagjafirnar, á eftir að kaupa handa nýjustu frænku minni, en aðrir eru búnir. Hef ekkert spáð í það hvort þær eru eitthvað ódýrari þetta árið en undanfarið, en kannski, hef oft keypt eitthvað fyrir heimilið svona græjulega séð en hef ekki gert það þetta árið, nema hvað, sonurinn keypti sér Playstation 3 tölvu sem mamma lagði nú út fyrir og mun örugglega taka einhvern þátt í en ekki ætla ég að kaupa hana alla sjálf.
Þetta er nú allt að koma, ég er svo sem ekki vön að missa mig neitt í jólaundirbúningi, en það er ýmislegt sem þarf að útbúa og þá helst matarkyns. Verst að aukaísskápurinn minn sem ég hafði í geymslunni dó um daginn svo nú verður litli ísskápurinn minn frekar troðinn af dóti, þarf reyndar að taka hann í gegn áður en ég fer að setja í hann meiri mat.
Seinnipartinn í dag er svo jólamatur í vinnunni, það verður örugglega frábært.
Ég er búin að vera frekar svona þung í þessum mánuði, veit ekki, þetta er ekki uppáhaldstíminn minn eftir að ég skildi, finnst vanta eitthvað í þetta allt saman og minningarnar hellast yfir, en þetta hafa samt verið bara alveg ágæt jól undanfarið þannig að þetta reddast allt á endanum.
Hlusta hér á jólatónlist og er að komast í fílinginn.....
miðvikudagur, desember 17, 2008
Jólakort
Hef oft hugsað um það hver í ósköpunum hefði komið þessum sið á. Stundum hugsa ég mjög ljótar hugsanir til þess aðila, það er sko þegar ég er að fara yfir listann og sjá hve rosalega langur hann er. Ég meina þekki ég svona mikið af fólki eða hvað?
En svo kemur hitt að ég veit ekkert yndislegra en á jólanótt, þegar komin er ró yfir. Þá sest ég uppí sófa með ungana allt í kring um mig, allir komnir í náttfötin, enn er konfekt í skálum og jólablandið (appelsín og malt) í glösum og svo opnum við kortin, lesum á þau og skoðum myndir. Þá er fyrirhöfnin þess virði.
mánudagur, desember 15, 2008
Skemmtanalífið í Reykjavík
Í haust fór ég eitthvað að hugsa þetta og komst að því að ég hafði bara ekki farið í bæinn á föstudags- eða laugardagskvöldi síðan einhvern tíman í fyrravetur. En svo rann upp nóvember og desember og mér líður eins og ég sé að verða sérfræðingur í Reykvísku næturlífi, það hefur verið farið í bæinn um hverja einustu helgi hva, fjórar helgar í röð.
En allavega kíkti ég aðeins á Reykvískt næturlíf á föstudagskvöldinu og manni líst svona vægt sagt misvel á þetta "líf". Hvar er fólkið svona eins og ég, bara venjulegt fólk á besta aldri? Veit það ekki, sennilega að leita að hinum svipað og ég. Gullkorn dagsins, eða kvöldsins var nú samt að vinkona mín heimtaði að við byrjuðum á Vínbarnum. Hmmm.. ég hef svo sem komið nokkrum sinnum á Vínbarinn og það er ágætt að vera þar svona framundir miðnætti en þá fyllist staðurinn af "eldra fólki", (lesist mun eldra en ég hehehe). Já en það var semsagt "trikkið", fara inn á Vínbarinn og ganga einn hring fara svo út aftur og þá liði okkur svo vel því við værum sko pottþétt yngstar á barnum.....
fimmtudagur, desember 11, 2008
Smá Skottusögur
En meira af Skottunni, í gær var jólaball í leikskólanum og áttu elstu börnin að leika helgileik. Það eru búnar að vera stífar æfingar og svo hefur lagið "Þá nýfæddi Jesú..." verið sungið hástöfum í nokkra daga, en Skottan átti að leika einn vitringanna. Ég spurði nú hvort ég mætti ekki koma og horfa á, en það var sko ekki hægt, þetta var bara fyrir fóstrur, enga foreldra, nú sagði ég og þá bætti hún við, sko hún Þuríður ræður (en hún er leikskólastjórinn). Hún fór semsagt í fína 10 ára gamla rauða silkikjólnum, nýpressuðum úr hreinsuninni, sem systir hennar átti, en það er víst einkaréttur afa og ömmu að gefa svo fína kjóla að ekki megi þvo þá og þeir valda því foreldrunum þvílíkum vandræðum hehehe.... En þegar hún kom heim í gær, var kjóllinn orðinn frekar krumpaður og þó nokkrir blettir á honum, þannig að þetta þýðir auðvitað aðra ferð í hreinsunina fyrir jól.
Svo hjálpaði hún mömmu sinni að setja krem á sörurnar í gærkveldi, hún tók við þeim þegar kremið var komið á og raðaði þeim á bakka......
Þegar því var lokið fór mamma aðeins í símann, á meðan vaskaði hún upp hrærivélaskálina, dró semsagt "tripp trapp" stólinn sinn að vaskinum og þvoði skálina með rennandi vatni og sápu. Þetta tók reyndar óratíma og næst þegar ég kíkti var hún orðin ber að ofan, semsagt farin úr peysunni og nærbolnum (henni er frekar illa við blaut föt), en var þó enn í sokkabuxunum, svo leið smá stund og aftur kíki ég á hana og þá var búið að láta sokkabuxurnar líka fjúka og þarna stóð hún einbeitt yfir vasknum að vaska upp á nærbuxunum einum fata....
Þegar símtalinu lauk, fór ég til hennar og sagði við hana hve rosalega hún væri dugleg að vaska upp. Þá leit hún á mig með glottinu sínu æðislega og sagði, mamma ég var ekki að vaska upp, ég var bara að sulla.......
miðvikudagur, desember 10, 2008
jóla jóla
Jólakortin, eða jólabréfin eins og þau hafa nú verið í seinni tíð, bíða enn, kannski ég einhendi mér í þau um helgina.
Sá brandara á einhverju blogginu, sem ég snaraði á íslensku og læt fylgja hér með, gæti kannski gefið einhverjum hugmyndi í blankheitunum.....
Maður á Akureyri hringir í son sinn, sem býr í Reykjavík, tveimur dögum fyrir jól og segir við hann:
„Fyrirgefðu sonur minn að ég skuli eyðileggja fyrir þér daginn, en við mamma þín ætlum að skilja. Fjörtíu og fimm ár í eymd er sko meira en nóg.“
„Bíddu aðeins pabbi minn, hvað ertu að segja“ segir sonurinn æstur.
„Við þolum ekki að sjá hvort annað, ég er alveg búinn að fá nóg og nenni ekki að tala um þetta lengur, svo viltu vera svo vænn og hringa í systur þína á Egilsstöðum og segja henni frá þessu“
Alveg í sjokki hringir sonurinn í systur sína sem fær auðvitað kast í símanum.
„Það er sko ekki séns að þau fái að skilja“ hrópar hún að bróður sínum, „ég skal redda þessu“.
Hún hringir til föður síns á Akureyri og hrópar að honum:
„Þú ert sko ekki að fara að skilja við hana mömmu. Ekki gera neitt fyrr en ég kem til ykkar. Ég ætla að hringja í bróður minn aftur og við verðum bæði komin norður á morgun. Þangað til þá, ekki gera neitt, HEYRIRÐU HVAÐ ÉG SEGI?“ og svo skellti hún á.
Faðirinn leggur frá sér símann og snýr sér að konu sinni glottandi.
„Þau koma bæði heim um jólin og borga farið fyrir sig sjálf!!“
þriðjudagur, desember 09, 2008
Bankarnir.....
"Sigurður Jónsson, forstjóri KPMG endurskoðunar, er faðir Jóns Sigurðssonar forstjóra Stoða/FL-Group. KPMG er endurskoðandi Baugs og Stoða/FL-Group og hefur skrifað upp á reikninga fyrir hinn þrönga hóp manna sem stendur að þessum fyrirtækjum. Þessi þröngi hópur var líka aðaleigandi Glitnis. Það eru uppi áleitnar grunsemdir um að þessir menn hafi misnotað bankann í stórum stíl. Samt telur Sigurður Jónsson, forstjóri KPMG, að fyrirtæki hans sé hæft til að rannsaka atburði í Glitni síðustu mánuðina fyrir bankahrunið."
Svo er Birna bankastjóri saklaus, skv. FME. Bakkabræður ætla að eignast Exista, er ekki þessi aðgerð að láta banka í Líbýu kaupa Kaupþing Lúx. ekki bara leppur fyrir Sigurð Einarsson og félaga? osfrv. osfrv.
Ég á eiginlega ekki til orð og í gærkveldi sat ég og hugsaði hvað ég og þú getum gert. Ríkisstjórnin sýnir ekki stjórnmálalega ábyrgð, verið er að rétta sömu peningamönnunum allt í hendurnar aftur nema nú er búið að losa skuldirnar, þær eigum við hin að greiða. Það er eins og stjórnvöld, embættismannakerfið og stjórnendur bankanna ætli að sjá til þess að ekkert breytist.
Ég hugsaði með mér að nú yrði ég að skrifa Geir Haarde bréf, ég gæti kannski hótað honum að segja mig úr flokknum, þessi flokkur hefur brugðist algerlega á ögurstundu. En ég hætti svo sem ekki að vera sjálfstæðismanneskja þannig, þau grunngildi sem flokkurinn stendur fyrir er góð og enn fullgild en hann er bara sokkinn í svo mikla vitleysu að það hálfa væri nóg.
Haldiði að það myndi virka, haldiði ekki að Geiri myndi bara hlæja að mér, ég er nú einu sinni bara einstæð móðir í Mosfellsbæ........
föstudagur, desember 05, 2008
Atvinnuleysi.
Það er soldið sem truflar mig í þessu, en það er það hvort konur séu að koma verr útúr þessu en karlar, frétti af einum verkfræðingi sem var sagt upp núna um mánaðarmótin, þar var fjölda manns sagt upp, en hún var eini íslenski verkfræðingurinn sem var með masterspróf sem fékk uppsagnarbréfið. Hitt voru allt útlendingar eða verkfræðingar sem aðeins höfðu lokið BS prófi. Þarna kom upp ónotatilfinning, er henni sagt upp af því hún er kona, er litið svo á að karlarnir séu fyrirvinnur og því sé verra að segja þeim upp eða... reyndar má svo sem bæta því við að þessi kona er einstæð móðir með eitt barn og eina fyrirvinnan á sínu heimili.
Annað er það sem ég fór að spá í líka, en það er hvort konur séu þannig gerðar að þær eigi auðveldara með að takast á við atvinnuleysi en karlar, þær hafa svo sem oft fjölskylduna og heimilið að hugsa um og geta þá einhent sér í það að sinna því að meiri elju en áður. Einnig getur verið að uppsagnir séu ennþá meira skipbrot fyrir karlmenn og álitshnekkir en konur. Bara pæling.
Sem dæmi var ég á fundi í gær. Atvinnuleysi barst í tal og ein af okkar eldri konum fór að rifja upp þegar síðast var nokkuð atvinnuleysi hjá verkfræðingum en það var árið 1992. Hún ræddi það að þá hefðu þau oft hist svona til að ræða málin í atvinnuleysinu og svo lýsti hún því hvernig þessir ungu, flottu, huggulegu menn, sem höfðu verið í fínum stöðum en misst þær og jeppana í leiðinni, voru algjörlega niðurbrotnir, en samt áttu þeir framtíðina fyrir sér eins og hún orðaði það, en sjálf var hún um fimmtugt á þessum árum. Svona til gamans þá sagði ein okkar þetta í framhaldinu:"Það er alltaf eins og það sé skorið undan þessum elskum þegar þeir missa jeppana".
Önnur kona í hópnum, sagði okkur frá kunningjakonu okkar sem nýlega hefði misst vinnunna og hefði sent henni póst þar sem hún sagði frá því að hún ætlaði að safna saman hóp af atvinnulausum konum og mynda svona stuðningshóp og bætti svo við að hún hefði prjónahúfur til sölu og tæki að sér að baka smákökur fyrir jólin fyrir önnum kafnar húsmæður....
Sú þriðja sagðist hafa fengið uppsagnarbréf núna um mánaðarmótin og væri að spá í að skella sér í doktorsnám.
Enn og aftur sannaði þetta fyrir mér hvað konur geta verið flottar og frábærar þegar þær vilja, við björgum okkur og höfum alltaf gert.
Verður "Nýja Ísland" byggt upp af konum?
fimmtudagur, desember 04, 2008
Snillingarnir hjá Baggalúti.
ÞAÐ KOMA VONANDI JÓL
Allflestar útgönguspár
eru á eina lund;
þetta var skelfilegt ár.
Hér út við heimskautsins baug
hnípin þjóð – þráðbeint á höfuðið flaug.
Allt þetta útrásarpakk
át á sig gat
svo loftbólan sprakk.
Nú eru lífskjörin skert, mannorðið svert,
Hvað hafið þið gert?
Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við skellum könnu upp á stól
og Sollu í kjól.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir verðbólguskot
– þjóðargjaldþrot.
Við áttum íbúð og bens
og orlofshús.
Allt meikaði sens.
Góðgerðir gáfum og blóð
greiddum í – dulítinn séreignasjóð.
En nú er allt þetta breytt og eftir er
nákvæmlega ekki neitt.
Já nú er útlitið dökkt
ljósið er slökkt
og við erum fökkt.
Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Þó vanti möndlu í graut
og amerískt skraut.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir háðung og smán
– myntkörfulán.
Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat
af innlendan mat.
Og þrátt fyrir allt
misnotum sykur og salt.
Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við krössum afmælið hans
– heimslausnarans.
Því að þrátt fyrir allt
drekkum við mysu í malt.
Hægt er að sækja lagið hér... http://baggalutur.is/jol/2008.php
Davíð... eina ferðin enn...
Vitiði mér finnst Davíð "æðislegur" í þeirri merkingu sem þið viljið hafa það. Það er spurning hvort hann sé ekki bara "æðislegur" í þeirri merkingu að hann sé hreinlega "óður" og á hann sé runnið "æði". Mér finnst að þessi þjóð ætti nú að setja hann af og hætta að hlusta á hann. Á meðan öll þjóðin stendur á öndinni í hvert sinn sem maðurinn opnar munninn er tilgangi hans náð. Hann vill að öll þjóðin standi á öndinni, hann vill að allir hlusti á sig, hann vill vera á annarri hverri bloggsíðu og hverri einustu forsíðu. Hann vill vera í öllum fréttatímum og hann vill athygli sama hvort hún er jákvæð eða neikvæð. Það er bara Davíð.
Eigum við ekki bara að setja hann af og nota það bragð á hann sem virkar best á óþekka krakka, hætta bara að hlusta. Semsagt algjörlega láta það inn um annað og út um hitt sem hann segir.
Samtaka nú.
mánudagur, desember 01, 2008
Smá umhugsunarefni.
Svo er nú líka annað, en á þessum árstíma eru jólahlaðborðin og skemmtanir yfirhöfuð mjög algengar svo ekki veitir manni af smá áminningu...
Síðasta dag fyrir jól flýtti ég mér í stórmarkaðinn til að kaupa
gjafirnar sem ég komst ekki yfir að kaupa fyrr.
Þegar ég sá allt fólkið þar, byrjaði ég að kvarta í hljóði 'Þetta
á eftirað taka heila eilífð og ég á enn eftir að fara á svo marga staði'.
Jólin eru alltaf að verða meira og meira pirrandi með hverju
árinu. Ég vildi að ég gæti bara lagst niður og farið að sofa og vaknað svo
eftir jólin.
Allavegana, ég kom mér í leikfangadeildina og þar fór ég að skoða
verðin, hugsandi hvort að börn leiki sér eitthvað með svona dýr leikföng.
Eftir smá tíma af leikfangaskoði þá tók ég eftir litlum strák um 5 ára, sem
hélt á dúkku upp við brjóstið sitt.
Hann strauk hárið á dúkkunni og virtist svo sorgmæddur.
Svo snéri litli strákurinn sér að eldri konu sem var við hliðina
á honum 'amma, ertu viss um að ég hafi ekki nógu mikla peninga?' Gamla konan
svaraði 'þú veist að þú átt ekki nóg til að kaupa dúkkuna elskan
mín' Svo bað hún hann um að bíða í 5 mínútur eftir sér á meðan hún skoðaði
sig um. Hún fór fljótlega.
Litli strákurinn hélt ennþá á dúkkunni í hendinni. Ég labbaði til
hans og spurði hann hverjum hann ætlaði að gefa dúkkuna. 'Þetta er dúkkan
sem systir mín elskaði mest og langaði svo mikið í fyrir jólin.
Hún var svo viss um að jólasveinninn myndi gefa sér hana.
Ég sagði honum að kannski eigi jólasveinninn eftir að koma með
dúkkuna til hennar, og að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur. En hann sagði
við mig sorgmæddur 'Nei jólasveinninn getur ekki gefið henni dúkkuna þar
sem hún en núna. Ég verð að gefa mömmu dúkkuna svo að hún geti gefið henni
hana þegar hún fer þangað'. Augun hans voru svo sorgmædd meðan hann sagði
þetta.
'Systir mín er farin til þess að vera með Guð. Pabbi segir að
mamma sé líka að fara til Guðs mjög fljótlega, og ég hélt að hún gæti farið með
dúkkuna fyrir mig og gefið systur minni hana'.
Hjartað mitt stoppaði næstum því. Litli strákurinn leit upp til
mín og sagði 'Ég sagði pabba að segja mömmu að fara ekki alveg strax.
Ég bað hann um að bíða þangað til að ég kæmi heim úr búðinni' Svo
sýndi hann mér fallega mynd af honum þar sem hann var hlægjandi. 'Ég
vil líka að mamma taki þessa mynd með sér svo að hún gleymi mér aldrei'
'Ég elska mömmu mína og ég vildi óska að hún þyrfti ekki að fara,
en pabbi segir að hún verði að fara til að vera hjá litlu systur minni'.
Svo leit hann aftur á dúkkuna með sorgmæddum augum, mjög
hljóðlátur. Ég teygði mig hljóðlega í veskið mitt og tók smá pening upp og sagði
við strákinn 'en ef við athugum aftur í vasann til að tékka hvort að
þú eigir nógan pening?' Allt í lagi sagði strákurinn 'ég vona að ég eigi nóg'
Ég bætti smá af mínum peningum við án þess að hann tæki eftir því
og við byrjuðum að telja. Það var nógur peningur fyrir dúkkunni, og
meira að segja smá afgangur.
Litli strákurinn sagði 'Takk Guð fyrir að gefa mér nógan pening.
Svo leit hann á mig og sagði ' Í gær áður en ég fór að sofa þá bað ég Guð
um að vera viss um að ég hafi nógan pening til þess að geta keypt dúkkuna
handa systur minni. Hann heyrði til mín'
'Mig langaði líka að eiga nógan pening til að kaupa hvíta rós
handa mömmu, en ég þorði ekki að biðja Guð um of mikið, en hann gaf mér nóg
til að kaupa rósina líka'. Sko mamma elskar hvíta rós'.
Nokkrum mínútum seinna kom gamla konan og sótti strákinn. Ég
kláraði að versla með allt öðru hugarfari ég gat ekki hætt að hugsa um litla
strákinn.
Svo mundi ég eftir frétt í blaðinu fyrir 2 dögum síðan 'maður keyrði
drukkinn og klessti á bíl þar sem ung kona og lítil stelpa voru
í. Litla stelpan dó samstundis en mamman var í dái' Fjölskyldan varð að
ákveða hvort það ætti að setja hana í öndunarvél eða ekki, af því að unga
konan myndi ekki vakna úr dáinu.
Var þetta fjölskylda litla stráksins?
Tveim dögum eftir að ég hitti litla strákinn, las ég í blaðinu að
unga konan hafi dáið. Ég gat ekki hamið mig og fór út í blómabúð og
keypti búnt af hvítum rósum og fór upp í líkhús þar sem fólk gat séð konuna
og óskað sér í seinasta skipti áður en hún væri jörðuð.
Hún var í kjól, hélt á fallegri hvítri rós með myndinni
af litla stráknum og dúkkuna á brjóstinu.
Ég fór grátandi og fannst líf mitt hafa breyst til eilífðar.
Ástin sem þessi itli strákur hafði til mömmu sinnar og systur, er enn þann
dag í dag, erfitt að ímynda sér. Og í einni svipan tekur drukkinn maður
þetta allt frá honum.
Eigið góðar stundir..