miðvikudagur, desember 10, 2008

jóla jóla

Jæja, jólin nálgast með ógnarhraða og maður er ekki búinn að helmingnum af því sem maður ætlaði að gera. Sem er svo sem ekkert nýtt, enda koma jólin hvort sem maður nær að gera allt sem maður vill gera eða ekki. Þannig er það bara. Og einhvern vegin nær maður alltaf að gera allt, sem skiptir máli, í tíma.

Jólakortin, eða jólabréfin eins og þau hafa nú verið í seinni tíð, bíða enn, kannski ég einhendi mér í þau um helgina.

Sá brandara á einhverju blogginu, sem ég snaraði á íslensku og læt fylgja hér með, gæti kannski gefið einhverjum hugmyndi í blankheitunum.....

Maður á Akureyri hringir í son sinn, sem býr í Reykjavík, tveimur dögum fyrir jól og segir við hann:
„Fyrirgefðu sonur minn að ég skuli eyðileggja fyrir þér daginn, en við mamma þín ætlum að skilja. Fjörtíu og fimm ár í eymd er sko meira en nóg.“
„Bíddu aðeins pabbi minn, hvað ertu að segja“ segir sonurinn æstur.
„Við þolum ekki að sjá hvort annað, ég er alveg búinn að fá nóg og nenni ekki að tala um þetta lengur, svo viltu vera svo vænn og hringa í systur þína á Egilsstöðum og segja henni frá þessu“
Alveg í sjokki hringir sonurinn í systur sína sem fær auðvitað kast í símanum.
„Það er sko ekki séns að þau fái að skilja“ hrópar hún að bróður sínum, „ég skal redda þessu“.
Hún hringir til föður síns á Akureyri og hrópar að honum:
„Þú ert sko ekki að fara að skilja við hana mömmu. Ekki gera neitt fyrr en ég kem til ykkar. Ég ætla að hringja í bróður minn aftur og við verðum bæði komin norður á morgun. Þangað til þá, ekki gera neitt, HEYRIRÐU HVAÐ ÉG SEGI?“ og svo skellti hún á.
Faðirinn leggur frá sér símann og snýr sér að konu sinni glottandi.
„Þau koma bæði heim um jólin og borga farið fyrir sig sjálf!!“

Engin ummæli: