Ég á æðislega 5 ára Skottu, hún er bara "megaháttar" eins og þeir myndu segja í Madagaskar, en við fórum einmitt á myndina um helgina, sem er í fyrsta skipti í mörg ár þar sem ég fer með öll börnin mín í bíó í einu. Það skemmtu sér allir vel og ekki síst Skottan sem hló og hló, Unglingurinn 17 ára sagði svo í lok myndarinnar að þetta væri nú eiginlega mynd sem maður yrði að eiga.
En meira af Skottunni, í gær var jólaball í leikskólanum og áttu elstu börnin að leika helgileik. Það eru búnar að vera stífar æfingar og svo hefur lagið "Þá nýfæddi Jesú..." verið sungið hástöfum í nokkra daga, en Skottan átti að leika einn vitringanna. Ég spurði nú hvort ég mætti ekki koma og horfa á, en það var sko ekki hægt, þetta var bara fyrir fóstrur, enga foreldra, nú sagði ég og þá bætti hún við, sko hún Þuríður ræður (en hún er leikskólastjórinn). Hún fór semsagt í fína 10 ára gamla rauða silkikjólnum, nýpressuðum úr hreinsuninni, sem systir hennar átti, en það er víst einkaréttur afa og ömmu að gefa svo fína kjóla að ekki megi þvo þá og þeir valda því foreldrunum þvílíkum vandræðum hehehe.... En þegar hún kom heim í gær, var kjóllinn orðinn frekar krumpaður og þó nokkrir blettir á honum, þannig að þetta þýðir auðvitað aðra ferð í hreinsunina fyrir jól.
Svo hjálpaði hún mömmu sinni að setja krem á sörurnar í gærkveldi, hún tók við þeim þegar kremið var komið á og raðaði þeim á bakka......
Þegar því var lokið fór mamma aðeins í símann, á meðan vaskaði hún upp hrærivélaskálina, dró semsagt "tripp trapp" stólinn sinn að vaskinum og þvoði skálina með rennandi vatni og sápu. Þetta tók reyndar óratíma og næst þegar ég kíkti var hún orðin ber að ofan, semsagt farin úr peysunni og nærbolnum (henni er frekar illa við blaut föt), en var þó enn í sokkabuxunum, svo leið smá stund og aftur kíki ég á hana og þá var búið að láta sokkabuxurnar líka fjúka og þarna stóð hún einbeitt yfir vasknum að vaska upp á nærbuxunum einum fata....
Þegar símtalinu lauk, fór ég til hennar og sagði við hana hve rosalega hún væri dugleg að vaska upp. Þá leit hún á mig með glottinu sínu æðislega og sagði, mamma ég var ekki að vaska upp, ég var bara að sulla.......
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
haha já hún er sko megaháttar ;0) hún skotta litla lík mömmu sinni greinilega alveg eins og mamma sín ;0) mæli með að fara með hana á Ævintýrið um augastein ef hún er ekki búin að sjá það. Kv Madda
Takk fyrir þetta Madda mín, já við fórum á Augastein í fyrra, alveg frábært, óhætt að mæla með því.
Skrifa ummæli