föstudagur, desember 05, 2008

Atvinnuleysi.

Ég frétti nú daglega af nýjum kunningjum og vinum sem misst hafa vinnuna.

Það er soldið sem truflar mig í þessu, en það er það hvort konur séu að koma verr útúr þessu en karlar, frétti af einum verkfræðingi sem var sagt upp núna um mánaðarmótin, þar var fjölda manns sagt upp, en hún var eini íslenski verkfræðingurinn sem var með masterspróf sem fékk uppsagnarbréfið. Hitt voru allt útlendingar eða verkfræðingar sem aðeins höfðu lokið BS prófi. Þarna kom upp ónotatilfinning, er henni sagt upp af því hún er kona, er litið svo á að karlarnir séu fyrirvinnur og því sé verra að segja þeim upp eða... reyndar má svo sem bæta því við að þessi kona er einstæð móðir með eitt barn og eina fyrirvinnan á sínu heimili.

Annað er það sem ég fór að spá í líka, en það er hvort konur séu þannig gerðar að þær eigi auðveldara með að takast á við atvinnuleysi en karlar, þær hafa svo sem oft fjölskylduna og heimilið að hugsa um og geta þá einhent sér í það að sinna því að meiri elju en áður. Einnig getur verið að uppsagnir séu ennþá meira skipbrot fyrir karlmenn og álitshnekkir en konur. Bara pæling.

Sem dæmi var ég á fundi í gær. Atvinnuleysi barst í tal og ein af okkar eldri konum fór að rifja upp þegar síðast var nokkuð atvinnuleysi hjá verkfræðingum en það var árið 1992. Hún ræddi það að þá hefðu þau oft hist svona til að ræða málin í atvinnuleysinu og svo lýsti hún því hvernig þessir ungu, flottu, huggulegu menn, sem höfðu verið í fínum stöðum en misst þær og jeppana í leiðinni, voru algjörlega niðurbrotnir, en samt áttu þeir framtíðina fyrir sér eins og hún orðaði það, en sjálf var hún um fimmtugt á þessum árum. Svona til gamans þá sagði ein okkar þetta í framhaldinu:"Það er alltaf eins og það sé skorið undan þessum elskum þegar þeir missa jeppana".
Önnur kona í hópnum, sagði okkur frá kunningjakonu okkar sem nýlega hefði misst vinnunna og hefði sent henni póst þar sem hún sagði frá því að hún ætlaði að safna saman hóp af atvinnulausum konum og mynda svona stuðningshóp og bætti svo við að hún hefði prjónahúfur til sölu og tæki að sér að baka smákökur fyrir jólin fyrir önnum kafnar húsmæður....
Sú þriðja sagðist hafa fengið uppsagnarbréf núna um mánaðarmótin og væri að spá í að skella sér í doktorsnám.
Enn og aftur sannaði þetta fyrir mér hvað konur geta verið flottar og frábærar þegar þær vilja, við björgum okkur og höfum alltaf gert.

Verður "Nýja Ísland" byggt upp af konum?

Engin ummæli: