miðvikudagur, janúar 16, 2008

Stjúptengsl!

Ég fór í bíó um helgina með stelpunum mínum og sáum við "Enchanted" eða "Töfraprinsessan" (skottið segir reyndar törfa....) eins og það leggst upp á íslensku. Þetta var mjög skemmtileg mynd og eins og í öllum alvöru ævintýrum var þarna vonda stjúpan.

Skottið spurði mig í gær hvað væri eiginlega stjúpmamma. Ég útskýrði fyrir henni að þegar pabbi hennar fengi sér nýja konu þá yrði hún stjúpmamma hennar og þegar ég fengi mér nýjan mann yrði hann stjúppabbi hennar. Hún horfið þá á mig íbyggin á svip með brúnu augun sín eins og undirskálar og spurði svo: "Eru þau vond?".

Sem betur fer er nokkuð um stjúptengsl í minni fjölskyldu þannig að nánasta fjölskylda er svolítið eins og bútasaumsteppi, bútar héðan og þaðan. Bróðir minn á tvö börn frá fyrri sambúð sem lauk reyndar fyrir rúmlega 10 árum síðan og konan hans núverandi á einn son frá fyrra sambandi, auk þess sem þau eiga von á barni saman nú á vordögum. Yngri bróðir minn á unnustu og hún á einn son frá fyrra sambandi þannig að næg eru dæmin. Þegar ég var búin að útskýra þetta fyrir skottinu leit hún á mig og sagði, "eignast ég þá tvær mömmur og tvo pabba" og fannst að hún yrði bara svaka rík.

Þessar íslensku fjölskyldur!

Engin ummæli: