Já París er yndisleg, kom heim í dag eftir mjög góða og fróðlega viku. Ráðstefnan var bara mjög góð og Íslendingarnir sem voru á henni auðvitað ennþá betri. Skemmti mér mjög vel, borðaði alltof mikið en náði að drekka nokkuð í hófi.
Strax á laugardagskvöldinu þegar komið var út fórum við fjögur saman út að borða og svo drifum við okkur þrjú á "Barra Latino" í Bastilluhverfinu en þar er mjög góður dansstaður, fyrst fannst mér ég vera svona í eldri kantinum, en strákunum þarna fannst það ekki og stóðu í röðum að fá að dansa við mig þannig að ég ákvað það að allir séu 25 ára í París hehehe......
Sunnudagurinn fór í það að horfa á leikinn! Já leikinn maður, handboltaleikinn, ég pantaði mér morgunmat uppá herbergi og horfði á strákana okkar taka silfrið. Frábært, þó auðvitað hafi maður verið svekktur í nokkrar mínútur eftir leikinn en "se la vie". Seinnipartinn var svo setning ráðstefnunnar og drykkir í boði hússins.
Svo hófst alvara lífsins og maður sat á fyrirlestrum frá 8:45 - 12:00 og svo frá 14:00 - 18:00 og á milli og eftir fór maður á þessa svakalegu sýningu þar sem allir framleiðendur og þeir sem yfir höfuð koma nálægt bransanum voru að kynna sig alls u.þ.b. 150 básar hver öðrum flottari.
Í gær semsagt á lokadegi ráðstefnunnar var nú hætt aðeins fyrr og ég var komin uppá hótel um fimmleytið, klæddi mig í strigaskó og ljósar buxur og fór í langan göngutúr, enda veðrið dásamlegt.
Komst reyndar að því í gær að maður á ekki að vera einn í París, eiginlega alveg óháð því hvað maður er hrifinn af borginni, maður á að vera ástfanginn í París. Annars verður maður bara soldið dapur. Þarna eru allir ástfangnir, haldast í hendur og kyssast á götuhornum, allur aldur allt frá jafnöldrum Unglingsins og jafnvel Gelgjunnar í eldra fólk á aldur við foreldra mína.
En svona er lífið, það er ekki á allt kosið hmmm......
laugardagur, ágúst 30, 2008
föstudagur, ágúst 22, 2008
Ísland-Frakkland
Jæja, þá er það ljóst! Vááá.....
Við erum að koma heim með 16 verðlaunapeninga frá OL í Peking.
Hver hefði eiginlega trúað því þegar þessir leikar hófust að við myndum spila um verðlaun? Jú strákarnir og Óli trúðu því svo sannarlega og hafa sýnt okkur það.
Ég verð stödd á hótelherbergi í París þegar leikurinn fer fram púff..... Verð að fá mér stóran fána til að setja á bringuna til að hafa með mér þegar við vinnum Frakkana.
Áfram Ísland, við erum bestir!!
Er strax komið haust?
Haustverkin eru hafin hér, þetta eru nú ekki svona hefðbundin haustverk eins og menn eiga að venjast úr sveitum landsins heldur endalausir fundir og fundarsetur í þeim ráðum, nefndum og stjórnum sem maður hefur "asnast" til að láta plata sig í. Þessar vikur, semsagt síðasta vikan í ágúst og fyrsta vikan í september, eru þéttsetnar af fundum. Ég var m.a. á tveimur í gær hmmm....
Já ég verð að fara að læra að segja nei!
Já ég verð að fara að læra að segja nei!
miðvikudagur, ágúst 20, 2008
París here I come!
Jæja, það kom upp núna seinnipartinn sú staða að ég var spurð að því hvort ég kæmist til Parísar á laugardag til að sitja ráðstefnu alla næstu viku. WHAT! Auðvitað, ég meina það, París er nú einu sinni ein af mínum uppáhaldsborgun og ég hef farið á þessa ráðstefnu áður og hún er bara nokkuð skemmtileg þannig að það var engin spurning. Missi reyndar af Menningarnótt í Reykjavík og af Túninu heima, en það verður nú bara að hafa það, ekki getur maður verið alls staðar.
Þannig að ég er semsagt að fara til Parísar á laugardag og verð þar í viku, kem næsta laugardag heim. Ekki slæmt, það eru nokkrir að fara frá Íslandi þannig að maður ætti nú að geta fengið einhvern góðan félagsskap í rauðvínið og röltið.
Ég er reyndar á leiðinni aftur til Parísar þann 18. sept., en so, maður á nú ekki erfitt með að finna sér eitthvað að gera í París.
Þannig að á morgun þarf ég að finna mér flugfar og panta mér hótel einhvers staðar í nálægð við ráðstefnuhöllina, það verður nú bara gaman.
Þannig að ég er semsagt að fara til Parísar á laugardag og verð þar í viku, kem næsta laugardag heim. Ekki slæmt, það eru nokkrir að fara frá Íslandi þannig að maður ætti nú að geta fengið einhvern góðan félagsskap í rauðvínið og röltið.
Ég er reyndar á leiðinni aftur til Parísar þann 18. sept., en so, maður á nú ekki erfitt með að finna sér eitthvað að gera í París.
Þannig að á morgun þarf ég að finna mér flugfar og panta mér hótel einhvers staðar í nálægð við ráðstefnuhöllina, það verður nú bara gaman.
"Strákarnir okkar!"
Þeir voru sko bara frábærir strákarnir okkar í morgun í handboltanum. Þeir spiluðu svo sannarlega með hjartanu og áttu sigurinn fyllilega skilið enda einum færri í örugglega kortér af leiknum.
Ég var búin að stilla klukkuna á 7:00 ætlaði bara að sjá seinni hálfleikinn. Vakna svo eldsnemma og hreinlega gat ekki sofnað aftur og kíkti á klukkuna hún var 6:30 þannig að ég þeyttist fram í stofu og kom í leikinn þegar u.þ.b. 15 mínútur voru liðnar af leiknum.
Ég sat svo bara límd, mér finnst reyndar mun betra að horfa þegar við erum undir því þá höfum við allt að vinna og engu að tapa. Þegar við leiðum leikinn þá finnst mér alltaf svo mikið eftir af leiknum að ég á erfitt með að horfa á það, enda var ég sko bara kominn í það að leysa "SUDOKU" þrautina í Mogganum og horfði á lokamínúturnar með öðru auganu púff......
Ég er ekki frá því að það hafi svo runnið gleðitár niður kinnina þegar tekin voru svo viðtöl við "Strákana okkar" sem svo sannarlega gerðu sitt besta og aðeins meira......
ÁFRAM ÍSLAND!!
mánudagur, ágúst 18, 2008
Í berjamó.
Já, við fórum í berjamó í gær ég og Skottið ásamt tíkinni. Ég var búin að heyra að það væri mjög góð berjaspretta, en varð svo bara fyrir smá vonbrigðum. Nóg var af krækiberjunum en bláberin voru bæði lítil og óþroskuð, fór nefnilega á sama stað í fyrra á svipuðum tíma og þá var allt morandi í flottum bláberjum hmmm...... kannski fer þurrkurinn svona illa í bláberin.
En jæja, þegar við vorum búnar að tína ber í rúmlega hálftíma var Skottið eiginlega búin að fá nóg vildi bara fá nesti og labba svo uppí skóginn eins og við gerðum í fyrra!! Skrítið hvað þessar elskur vilja gera allt eins og síðast hehehe....
En aðalmálið í þessu var auðvitað samveran, vera úti í móa og borða nesti.
Bara frábært!
En jæja, þegar við vorum búnar að tína ber í rúmlega hálftíma var Skottið eiginlega búin að fá nóg vildi bara fá nesti og labba svo uppí skóginn eins og við gerðum í fyrra!! Skrítið hvað þessar elskur vilja gera allt eins og síðast hehehe....
En aðalmálið í þessu var auðvitað samveran, vera úti í móa og borða nesti.
Bara frábært!
föstudagur, ágúst 15, 2008
Göngutúrar í Mosó!
Fór í gönguferð í fyrrakvöld með flottum stelpum, erum að spá í að gera þetta að vikulegum ferðum, ekki satt stelpur? Töluðum mikið og mér varð á orði á miðri leið að við þyrftum aðeins að hægja á okkur, það væri erfiðara að tala og labba í einu en bara labba hehehehe.... Sko það kom ekki til greina að minnka masið!! En allavega tókum góðan hring í kring um Helgafellið, í gegnum Skammadalinn og meðfram Varmánni.
Tíkin fór á kostum og gelti frá sér allt vit þegar við mætttum hestamönnum, alveg ferlegt, þarf að taka á þessu einhvern veginn. Dauðskammast mín fyrir hana þó að þessir hestamenn hafi nú bara gert grín að henni þá eru nú ekki allir svona umburðalyndir, púfff.........
Frábær gönguferð í frábæru veðri og frábærum félagsskap.
Borgin okkar allra
Já, það er sjaldan logn í pólitík og svo má líka segja að nokkrir klukkutímar séu langur tími í pólitík hehehe.....
Óskar segir fyrir hádegi að þetta hafi ekkert verið rætt við sig og hann er kominn í stjórn um kvöldið. Gaman að þessu. Við vorum eitthvað að spá í það í hádeginu í gær hvenær Hanna Birna ætti að taka við sem borgarstjóri og ég slæ því fram svona í fíflagangi að það verði nú bara seinnipartinn hehehe....
Bæ, bæ Óli, maður hittir hann kannski bara á Vínbarnum, manni skilst að hann sé soldið svona út á lífinu hmmm......
Vonum að þessi meirihluti haldi nú.
fimmtudagur, ágúst 14, 2008
Ólympíuleikar
Já nú standa ólympíuleikarnir í Peking sem hæst. Fylgist auðvitað með "strákunum okkar" í handboltanum og vaknaði í morgun, reyndar ekki fyrr en í seinni hálfleik. Þeir eru flottir.
Er soldið spennt yfir sundfólkinu okkar líka, þar sem sonurinn æfir sund og ég þekki tvo af ólympíuförunum okkar í sundi finnst mér þetta mjög gaman. Það er reyndar ótrúlegt hvað bætingarnar geta verið miklar hjá þessu fólki, hvar endar þetta eiginlega, endalaus heimsmet. Flottur hann Phelps þó ég myndi örugglega ekki þekkja hann útá götu í fötum hehehehe........
Já Ragga setti íslandsmet og Hjörtur var að bæta sinn tíma. Jibbý, flottir krakkar.
miðvikudagur, ágúst 13, 2008
MSN og broskallar
Fór að spá í hvernig sumir eru alltaf með svona rosa broskalla og slíkt á MSN-inu sínu. Fann útúr þessu og nú er ég í því að skoða svona kalla
það er ótrúlegt það sem maður getur fundið út úr þessu og nú verða bloggin mín full af alls konar vitleysu héreftir .
það er ótrúlegt það sem maður getur fundið út úr þessu og nú verða bloggin mín full af alls konar vitleysu héreftir .
þriðjudagur, ágúst 12, 2008
Haustverkin
Var að byrja að vinna í gær eftir mjög gott sumarfrí, það er að renna upp fyrir manni að nú tekur við sama gamla rútínan. Það er ekkert nýtt að gerast hjá krökkunum þetta haustið þau fara bara öll á sína staði, í skóla sem þau þekkja vel þannig að einhvern vegin er stressið minna núna en oft áður svona að hausti.
Tók mig til á sunnudaginn og olíubar allan skjólveggin hjá mér í kringum pallinn, var afskaplega stolt af mér og ósköp fegin að þessu er lokið. Nú á bara eftir að bera á húsgögnin, en þau eru svona gömul furuhúsgögn keypt í DK á sínum tíma orðin semsagt 14 ára gömul, en standa enn fyrir sínu.
Langar að fara í berjamó og komast einhvers staðar í rifsber, hef oft soðið rifsberjahlaup og sultur á haustin. Já, sko maður getur alveg verið soldið húsmóðurleg ef maður vill svo vera láta hehehe..... Langar líka soldið að skreppa uppá Esjuna við tækifæri, tek einhvern frídaginn í það.
Annars bíður maður bara spenntur eftir september en þá er ég að fara til Parísar og svo er það Edinborg í október og svo koma jólin ( sko það eru bara 134 dagar til jóla......! ).
Vááá hvað tíminn er fljótur að líða.
Tók mig til á sunnudaginn og olíubar allan skjólveggin hjá mér í kringum pallinn, var afskaplega stolt af mér og ósköp fegin að þessu er lokið. Nú á bara eftir að bera á húsgögnin, en þau eru svona gömul furuhúsgögn keypt í DK á sínum tíma orðin semsagt 14 ára gömul, en standa enn fyrir sínu.
Langar að fara í berjamó og komast einhvers staðar í rifsber, hef oft soðið rifsberjahlaup og sultur á haustin. Já, sko maður getur alveg verið soldið húsmóðurleg ef maður vill svo vera láta hehehe..... Langar líka soldið að skreppa uppá Esjuna við tækifæri, tek einhvern frídaginn í það.
Annars bíður maður bara spenntur eftir september en þá er ég að fara til Parísar og svo er það Edinborg í október og svo koma jólin ( sko það eru bara 134 dagar til jóla......! ).
Vááá hvað tíminn er fljótur að líða.
sunnudagur, ágúst 10, 2008
Gay pride!
Tók, Gay pride daginn með stæl, er sko ekkert að koma úr skápnum eða þannig sko, en ákváð að mála bæinn rauðan á þessum degi, semsagt góð ástæða til að detta í'ða eins og einhver myndi orða þetta. Allavega fórum við í bæinn með strætó (veitir ekki af að styrkja þá greyin allt á hausnum) og viti menn það var bara fullur strætó af ungu fólki (eins og okkur) á leiðinni í bæinn.
Gangan var flott og skemmtileg að vanda, en samt þótti mér svona ekki nógu mikið stuð á Laugarveginum sjálfum þ.e. hjá þeim sem voru að horfa á, oft hefur verið klappað og stappað í takt við atriðin en það var ekki þannig í gær. Jæja nóg var af fólkinu og var Arnarhóllinn fullur af fólki þegar göngunni lauk. Við skelltum okkur inn á Hressó og fengum okkur bjór og nachos, þaðan fórum við svo í Ríkið og keyptum okkur smá hvítvínsflöskur svona minni gerðina og stormuðum svo upp að gamla skólanum okkar MR, settumst á tröppurnar og fengum okkur smá hvítvín hehehe..... orðaði það seinna um kvöldið þannig að ég hefði ekki drukkið á þessum tröppum síðan á "Dimmision" 1986!
Þaðan strunsuðum við síðan upp Laugarveginn og fundum okkur geggjaðan mexíkanskan stað og borðuðum þar. Ok, okkur varð litið á klukkuna og hún var ennþá alltof lítið til að fara á eitthvert pöbbarölt svo við skelltum okkur á Mamma Mía í bíó svona til að fá smá fíling!
Þegar myndinni var lokið hófst svo hin hefðbundna ganga á milli pöbba að kíkja á lífið.
Mjög góður dagur!
laugardagur, ágúst 09, 2008
Bíó og GSM símar
Fór í bíó áðan með Gelgjunni, sáum Batmanmyndina margumtöluðu. Hún var reyndar mjög góð og fannst mér sérstaklega "Jókerinn" vera alveg frábær. Það sem mér finnst aftur á móti fyndnast við bíóferðir eru GSM símarnir, sumir eru svo illa haldnir að þeir eru að senda SMS í miðri mynd og svo eru stafirnir varla farnir að rúlla þegar allir taka upp símana sína og stilla þá aftur á hringingu, bara fyndið. Jafnvel í hléi eru menn búnir að taka upp símann og tékka á "missed calls" og sms unum. Ótrúlegt hvað fólk er orðið háð þessu hmmmm..... ég er kannski ekkert skárri en ég man þó GSM lausa veröld hehehe.....
mánudagur, ágúst 04, 2008
Landsmót skáta!
Eins og þeir fáu sem hingað kíkja hafa tekið eftir er ég búin að vera í sumarfríi og er enn. Það sem ég gerði í fríinu er eitt það gáfulegasta sem ég hef gert lengi, ég brunaði norður að Hömrum á Akureyri og skellti mér á Landsmót skáta!
Ég kíkti ekki bara heldur ákvað það að ég og Skottið yrðum þarna í heila viku og tækjum þátt í öllum pakkanum. Frábær ákvörðun. Gelgjan var þátttakandi þannig að hún var bara með sínum skátum á sínu svæði, við hinar vorum aftur á móti í fjölskyldubúðum. Þar var ásamt okkur nokkuð góður hópur af foreldrum frá okkar félagi. Meðal annarra var þarna vinkona mín sem einnig er ein með sitt Skott.
Við mættum þarna á þriðjudegi tjölduðum og tókum svo þátt í setningu mótsins þar sem Páll Óskar mætti af sinni alkunnu snilld og fékk þarna nokkur þúsund unglinga, bláedrú, til að tjútta frá sér allt vit. Á miðvikudeginum áttum við eldhúsvakt hjá okkar félagi og fór sá dagur að mestu leyti fram í eldhústjaldinu nema Skottin okkar þurftu að vera nokkurn vegin á eigin vegum, þær voru reyndar í góðum höndum hjá okkar fólki, en undir kvöldmat var ég farin að sakna Skottsins míns og fór að leita og svo endaði það með því að allar fjölskyldubúðirnar voru farnar að leita og engin mundi hvenær þeir höfðu séð hana síðast. Púff.... þarna var gengin fram og til baka leiðin frá eldhústjaldinu og að fjölskyldubúðunum, þeir sem verið hafa að Hömrum vita að þarna er allt fullt af litlum tjörnum og lækjum þar sem 5 ára Skott geta auðveldlega gleymt sér og hreinlega farið sér að voða. Ég var að því komin að blása til allsherjar leitar og kalla til öryggisverði svæðisins þegar hún fannst og vitið þið hvar? Hehe.... sofandi inni í tjaldi, búin að renna upp rennilásnum og allt þannig að engan grunaði neitt. Púff..... erfiður fyrsti dagur. Dagana þar á eftir vorum við lausar við allar skyldur og skruppum í sund, tókum þátt í dagskrá þar sem það átti við, fórum í bæinn osfrv. osfrv.
Frábærir dagar í frábæru veðri, held að hitastigið hafi varla farið niður fyrir 15°C og sólin lét sjá sig alla dagana, og það kom einn rigningarskúr! Frábært!
Einu sinni skáti ávallt skáti!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)