mánudagur, ágúst 04, 2008
Landsmót skáta!
Eins og þeir fáu sem hingað kíkja hafa tekið eftir er ég búin að vera í sumarfríi og er enn. Það sem ég gerði í fríinu er eitt það gáfulegasta sem ég hef gert lengi, ég brunaði norður að Hömrum á Akureyri og skellti mér á Landsmót skáta!
Ég kíkti ekki bara heldur ákvað það að ég og Skottið yrðum þarna í heila viku og tækjum þátt í öllum pakkanum. Frábær ákvörðun. Gelgjan var þátttakandi þannig að hún var bara með sínum skátum á sínu svæði, við hinar vorum aftur á móti í fjölskyldubúðum. Þar var ásamt okkur nokkuð góður hópur af foreldrum frá okkar félagi. Meðal annarra var þarna vinkona mín sem einnig er ein með sitt Skott.
Við mættum þarna á þriðjudegi tjölduðum og tókum svo þátt í setningu mótsins þar sem Páll Óskar mætti af sinni alkunnu snilld og fékk þarna nokkur þúsund unglinga, bláedrú, til að tjútta frá sér allt vit. Á miðvikudeginum áttum við eldhúsvakt hjá okkar félagi og fór sá dagur að mestu leyti fram í eldhústjaldinu nema Skottin okkar þurftu að vera nokkurn vegin á eigin vegum, þær voru reyndar í góðum höndum hjá okkar fólki, en undir kvöldmat var ég farin að sakna Skottsins míns og fór að leita og svo endaði það með því að allar fjölskyldubúðirnar voru farnar að leita og engin mundi hvenær þeir höfðu séð hana síðast. Púff.... þarna var gengin fram og til baka leiðin frá eldhústjaldinu og að fjölskyldubúðunum, þeir sem verið hafa að Hömrum vita að þarna er allt fullt af litlum tjörnum og lækjum þar sem 5 ára Skott geta auðveldlega gleymt sér og hreinlega farið sér að voða. Ég var að því komin að blása til allsherjar leitar og kalla til öryggisverði svæðisins þegar hún fannst og vitið þið hvar? Hehe.... sofandi inni í tjaldi, búin að renna upp rennilásnum og allt þannig að engan grunaði neitt. Púff..... erfiður fyrsti dagur. Dagana þar á eftir vorum við lausar við allar skyldur og skruppum í sund, tókum þátt í dagskrá þar sem það átti við, fórum í bæinn osfrv. osfrv.
Frábærir dagar í frábæru veðri, held að hitastigið hafi varla farið niður fyrir 15°C og sólin lét sjá sig alla dagana, og það kom einn rigningarskúr! Frábært!
Einu sinni skáti ávallt skáti!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli