Þessi vika er búin að vera rosaleg hjá mér. Á miðvikudaginn var aðalfundur í félagi sem ég er búinn að vera að reyna að stjórna í vetur og var þar skipt um stjórn og nýr formaður tekinn við. Líst vel á þessa krakka og hef mikla trú á þeim, skila af mér formannsstólnum með glöðu geði og alveg pollróleg. Á eftir aðalfundinum var svo saumaklúbbur og hitti ég þar allar uppáhalds stelpurnar mínar. Í gær var svo Skottið lasin, held hún hafi bara verið yfir sig þreytt og útkeyrð eftir miðvikudaginn, en hún fór í Húsdýragarðinn með leikskólanum þann dag. Ég var heima fram yfir hádegi en þá kom tengdapabbi og tók við henni, ég var nefnilega á leiðinni uppí Bifröst þar sem rjóminn af kvenfólki landsins var staddur á Tengslanetsráðsstefnu IV sem bar yfirskriftina "Völd til kvenna". Við leigðum sumarbústað í Munaðarnesi og vorum rétt komnar þangað þegar "Ingólfsfjallsskjálftinn" reið yfir, urðum aðeins varar við hann þarna en ekkert alvarlega, mér datt ekki í hug að þetta hefði verið stór skjálfti fyrr en Gelgjan hringdi alveg miður sín í mig og hafði þá rétt bjargað sjónvarpinu frá því að detta í gólfið hér heima.
Ráðstefnan hófst á göngu á Grábrók, létt upphitun var en svo lögðum við af stað 2-300 konur áleiðis að Grábrók. Eftir "fjall" gönguna fóru rútur með okkur niður að árbakka þar sem við tók smá rölt en þar var borðað, talað, drukkið og sungið til miðnættis er rúturnar sóttu okkur og keyrðu okkur fyrst í Bifröst en þar var svo safnað saman í rútur og keyrt á gististaðina, m.a. Munaðarnes. Við vorum svo sem engan veginn búnar að fá nóg og fórum auðvitað í pottinn við sumarbústaðinn. Ekki var farið að sofa fyrr en klukkan var langt gengin 4 um nóttina. Auðvitað var svo vaknað samviskusamlega klukkan kortér í átta því rútan átti að koma og sækja okkur klukkan hálfníu. Ég var fyrst tilbúin og hljóp af stað til að við myndum ekki missa af rútunni, var komin í pils og rauðan bol, settist svo niður á gatnamótunum þar sem rútan myndi koma og dró upp málningargræjurnar og þarna sat ég út í móa og setti á mig maskarann, varalitinn og augnskuggann!! Það er sko ennþá mikilvægara að punta sig upp þegar maður er að fara hitta konur en kalla hehehehehe... Ég hefði viljað eiga mynd af mér þarna að mála mig út í guðsgrænni náttúrunni. Eitt má ég nú segja ég er viss um að Herdís Þorgeirsdóttir hefur gert "díl" við annað hvort kallinn uppi eða kallinn niðri því betra veður hefði ekki verið hægt að kjósa sér. Ráðstefnan var svo í alla staði mjög skemmtileg, frábær erindi bæði frá hinum erlendu gestum og íslensku, eina sem mér fannst var að lögfræðingar voru í miklum meirihluta þeirra sem fluttu erindi. En við mættum þarna verkfræðistelpurnar og núna bíðum við eftir því að haft verði samband við okkur að ári til að vera í pallborði hehehehe.....
Ég varð því miður að fara í bæinn um kl. 14:30 því ég þurfti nauðsynlega að vera mætt í partý í tjaldi í Vatnsmýrinni rúmlega 16:00. En samruni nokkurra verkfræðistofa var loksins gerður opinber í dag og er mín stofa ein þeirra og munu höfðustöðvar þessarar stofu rísa í Tæknigörðum í Vatnsmýrinni árið 2010. Ekki nóg með að þetta hafi staðið til, heldur var ég nú í undirbúningsnefnd fyrir þetta tjaldpartý og svo var Unglingurinn að fara til Spánar með sundliðinu sínu í nótt í 2 vikur og Gelgjan er að fara í viku til Svíþjóðar í fyrramálið í svona norrænt vinarbæjardæmi. Kemur svo heim í 10 klst. og fer aftur í 2 vikur til Ítalíu og Austurríkis með lúðrasveitinni. Eins og þú sérð "brjáluð" vika
hmmm.....
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli