þriðjudagur, september 16, 2008

Saumaklúbbar.

Fór í "saumaklúbb" um daginn, það er nú það sem svona samkomur eru kallaðar en það er kannski ekki réttnefni. Þessi klúbbur er búinn að vera starfræktur í rúmlega 20 ár, við höfum kannski ekkert verið rosaduglegar að hafa klúbb einu sinni í mánuði eða svo, en við hittumst nokkrum sinnum á ári. Það er örugglega gott efni í mastersritgerð í mannfræðum að spá í hvernig svona klúbbar myndast og afhverju. Við byrjuðum allavega rétt í lok menntaskóla og "inntökuskilyrði" í klúbbinn var að vera uppalin í Garðabænum og hafa verið í MR. Þessu hefur nú verið hliðrað aðeins og nokkrum stúlkum sem ekki voru í MR hefur verið hleypt inn og svo höfum við "fælt" frá okkur nokkrar sem uppfylltu fyrstu skilyrðin.

Það er ekki kannski hægt að segja að við séum allar bestu vinkonur því við höfum svona mismikið samband okkar á milli en þetta er vinkonur mína og mér þykir alltaf vænna og vænna um þær með hverju árinu sem líður.

Það sem er kannski merkilegt við þennan klúbb er menntunarstigið, þetta eru allt nokkuð mikið menntaðar konur, við erum með lækni, sjúkraþjálfara, meinatækni og iðjuþjálfa svona í heilbrigðisgeiranum við erum með tvo verkfræðinga, viðskiptafræðing, stjórnmálahagfræðing, flugstjóra, félagsráðgjafa og líffræðing.

Núna síðast fórum við svo að reyna að finna nafn á þennan klúbb, enda það löngu orðið tímabært, hugmyndirnar voru nokkrar og var nokkuð rætt um "eftirlætispíkurnar" (sem var eitthvað sem ónefndur kennari í MR gaf hluta hópsins á sínum tíma), dekurdúllurnar, GB gellurnar þar sem GB stæði þá fyrir Garðabæ osfrv. osfrv. Við föllum reyndar engan vegin undir eitthvað svona Dúllu eða Eftirlætis dæmi eitthvað en það gæti líka verið kaldhæðnin í þessu. Hafið þið einhverjar hugmyndir hehehe....

Svo er annað atriði en það er það sem rætt er á þessum "fundum" okkar og ég skal gefa ykkur nokkur stikkorð svona til að þið getið svo getið í eyðurnar : "businn", "hollensk" súpa, fullnægingar, G-blettinn, unglingaástir, tröppurnar á MR, gamla kennara, "verslóliðið" bæði núna og í gamla daga, trúarbrögð, íslenskar kjarnakonur, botox, silicon, skonsur, BSÍ, sviðakjamma ofl. ofl. Allavega var hlegið svo mikið að við vorum farnar að hafa áhyggur af grindarbotnsvöðvunum hehehe... en til að toppa það allt fórum við nokkrar á trampólínið sem var fyrir utan húsið á leiðinni út í bíl.... Frábært kvöld.

Hláturinn lengir lífið, ég er sko sannfærð um það og við komum allar heim dauðþreyttar en pottþétt mörgum árum ef ekki áratugum yngri.

Engin ummæli: