fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Eyrnabólga!

Við erum svo einstaklega óheppin í þessari fjölskyldu hvað varðar eyrnabólgur. Þetta er greinilega ættgengt. Þegar ég var lítil var ég víst alltaf að fá eyrnabólgur og sitja eftir á hljóðhimnum mínum ör sem valda því að ég er ekki alveg með fullkomna heyrn þó ekki sé hún neitt slæm þannig. Þegar ég fer til læknis útaf ýmsum kvillum og skoðað er í eyrun á mér er ég iðulega spurð hvort ég hafi verið "eyrnabarn".

Ég hef sagt það og stend við það að um leið og börn fæðast og fá K-vítamín sprautuna eigi að skella rörum í eyrun á þeim. Allavega mín börn. Sonurinn var rétt rúmlega eins árs þegar nefkirtlarnir voru teknir og sett rör í hann, síðan var ekki meira vesen með það fyrr en fjarlægja þurfti rörin en þá var hann kominn á fimmta ár. Gelgjan var rosaleg, hún fékk fyrst í eyrun nokkra mánaða og bjuggum við þá í Danmörku og fórum á "eyrnalæknavaktina" þar sem stungið var á og barninu gefin sýklalyf. Þar vorum við fastagestir ca á 2ja vikna fresti í 3 mánuði því alltaf þegar skammturinn af sýklalyfinu kláraðist grasseraði eyrnabólgan upp aftur. Sérfræðingurinn úti gafst svo loks uppá barninu og setti rör í hana, það er víst regla að gera það ekki fyrr en þau eru orðin eins árs því annars er þetta meiri aðgerð, sem gera þarf á sjúkrahúsi en það varð lendingin og hún var komin með rör rúmlega 7 mánaða gömul. Reyndar fékk hún nokkrum sinnum rör og þau fóru reglulega í verstu eyrnabólgunum en það var ekki fyrr en við fluttum heim til Íslands með barnið 3ja ára gamalt að eyrnalæknirinn okkar hér heima lét taka úr henni nefkirtlana og setti enn á ný rör að eyrnabólgurnar minnkuðu.

Skottið hefur nú ekki verið svo slæm en hún er líka búin að fá rör, reyndar er hún enn með nefkirtlana. Hún var reyndar útskrifuð með glans frá eyrnalækninum síðasta sumar en núna í desember fékk hún í annað eyrað og fékk sýklalyf, svo passaði það, skammturinn kláraðist og aftur fékk hún í eyrað, nú var gefinn stærri skammtur og hann kláraðist um miðjan janúar og hún búin að vera fín síðan. Þ.e. þangað til í gærkveldi. Það er ótrúlegt að sjá glaða, káta, brosmilda barnið sitt umturnast svona og líða svona rosalega illa, þetta er alveg rosalega sárt, það er engin spurning. Jæja hún sofnaði loksins eftir 2 stíla og svo vaknaði hún sæmileg í morgun en hljóðhimnan hafði greinilega sprungið í nótt og sársaukinn því minni.

En svona er þetta, þetta legst á sumar fjölskyldur!

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Lúxus!

Góð vinkona mín sem býr í Ameríku lét mig lofa því síðast þegar hún hringdi að ég myndi nú fá mér konu til að þrífa hjá mér. Mér fannst það soldið fáránleg hugmynd að borga konu til að koma og þrífa alla mína rúmlega 100 fermetra, og hugsaði málið. Ég er einstök móðir með 3 börn og hund, í fullri vinnu, starfa í félagsmálum og þarf auðvitað eitthvað félagaslíf líka. Ok, það er ekki oft sem maður fer í það að þrífa allt húsið í einu þ.e. maður grípur í það að þurrka af hillunum og sjónvarpinu. Þrífur klósettið þegar það er skítugt og tekur vaskinn á baðinu þegar hann er orðinn mjög svo slæmur. Sama með gólfin, maður ryksugar svona miðjuna tvisvar í viku og svo annað slagið ryksugar maður rest bak við húsgögn og slíkt og svo skúrar maður bara ef gólfið er klístrað.

Konan kom í gær og ég kom heim úr vinnunni, það voru allar hillur, baðið, gólfið og meira að segja borðið í eldhúsinu hreint. Váá, hún kemur aftur eftir 2 vikur, hvað ætli sé langt í að ég biðji hana að koma vikulega? ;-)

Frábært!

mánudagur, febrúar 25, 2008

Stjórnmál og stjórnmálamenn!

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á stjórnmálum og stjórnmálamönnum, maður hefur dáðst í fjarlægð að þessum mönnum og konum sem fórna sér svona fyrir heildina. Vinna mikið hugsjónastarf og allt meira og minna í sjálfboðasvinnu. Látið mig vita það, hef aðeins komið nálægt þessu, þetta er botnlaus vinna en engin laun nema stundum klapp á bakið.

En ég veit ekki lengur, þetta virðist ekki snúast lengur um að vinna fyrir heildina, finna góðar lausnir, koma með hugmyndir osfrv. heldur um völd og meiri völd. Allir vilja verða Borgarstjórar t.d. Málefnin skipta ekki lengur öllu máli heldur völdin. Ég er svo sem ósköp fegin að ég bý ekki í Reykjavík þessa dagana.

Þetta þref þjónar engum tilgangi, eina sem þetta afkastar er að fólk missir trúnna á stjórnmál og stjórnmálamenn og ungt fólk verður fráhverft stjórnmálum. En hver á þá að sjá um þessi mál fyrir okkur seinna meir.

Það er spurning um setja bara á "menntað einræði"!

Tannlæknaferð

Fór með Skottið til tannlæknis í morgun, kveið þessu soldið, síðast þegar við fórum þá neitaði hún að opna munninn og við urðum að fara heim og koma nokkrum vikum seinna. Reyndar er afleysingatannlæknir að vinna fyrir okkar tannlækni þar sem hún er í fæðingarorlofi, en hann náði þvílíkt að heilla Skottið strax og ekki nóg með að hún opnaði munninn, hann fékk að taka myndir, skafa tannstein og setja bæði spegil og skröpu uppí hana! Alveg frábært, endar er hann alveg yndislegur.

Engin hola!

Óskarinn



Fylgdist nú ekki með Óskarsverðlaunahátíðinni í gær frekar en fyrri daginn. Ég nenni ekki svona verðalaunaafhendingum. En mér þykir rosa gaman í bíó og gæti sko alveg hugsað mér að fara í bíó a.m.k. einu sinni í viku. Það sem svona hátíðir gera reyndar er að benda manni á myndir sem gaman væri að sjá. Ég er alveg með lista núna yfir myndir sem mig langar að sjá:

"No Country for old men."
"Into the Wild"
"Atonement"
"Death at a funeral"
"There will be blood"
ofl. ofl. þetta eru bara þær sem eru í bíó ákkúrat núna.

Verða að fara að drífa mig í bíó!

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Gull í grjótinu!

Ég fer nú ekki mikið "í bæinn" eða út á djammið eins og það er líka kallað. Fór um síðustu helgi og hafði þá bara ekki farið síðan í byrjun desember. Þessi ferð mín var nú reyndar ágæt og komst ég að því að MOJO-ið er alveg í lagi ennþá;-).

Þarna er öll flóran af fólki og mér hefur ekki þótt það vænlegt til árangurs að hitta einhverja menn í bænum og þótt það frekar svona óspennandi leið og þykir reyndar enn. Þetta er spurning um að hitta einhvern, vita ekki á honum nein deili, hægt er að komast að ýmsu ef maður gefur sér góðan tíma til að ræða málin, en það er líka auðvelt að ljúga til um bakgrunn sinn ef maður vill. Þarna er fullt af fólki sem fer helgi eftir helgi út á lífið og fullt af frekar óspennandi pappírum. Ég er nú svoddan verkfræðingur að ég þarf að hafa "background" tékkið í lagi áður en ég aðhefst nokkuð.

En ég er sannfærð um að þarna er hægt að finna þessa fínu gullmola innan um grjótið, t.d. ég sjálf, ef einhver nær nú í mig útá lífinu þá hefur hann náð í gullmola. ;-)) Það er bara spurning hvort hann áttar sig á því! hehehe...

Júróvision og afmæli!

Var hér í gærkveldi með rúmlega 20 sundkrakka í afmælisveislu, frumbruðurinn varð 17 ára! Til hamingju elsku kallinn minn!! Allavega afmælið gekk vel.

Á meðan á afmælinu stóð var júróvision undankeppnin í sjónvarpinu. Sat með Skottinu og Gelgjunni inn í herbergi og horfði á hluta þáttarins. Ég hafði nú ekki séð öll þessi lög fyrr en þetta gekk ágætlega þó mér þætti algjör óþarfi að vera eitthvað að lengja þáttinn með viðtölum við mæðurnar, hvenær byrjaði hann eða hún að syngja var alveg klassísk spurning, ég á tvær dætur og þær byrjuðu nú bara að syngja um leið og þær byrjuðu að tala en ég býst nú ekki við því að þær verði einhverjar júróvisionstjörnur!

Lagið með Júróbandinu "This is my life" var svoleiðis langbesta lagið þetta kvöldið. Ég er rosa fegin að lag eins og Mercedes club eða Dr. Spoock voru ekki send til Serbíu, við megum ekki við meiri fíflaskap í bili eftir að Silvía Nótt fór um árið. Mér fannst lagið hennar Fabúlu reyndar mjög gott en ekkert júrósvision lag, svo hef ég oft heyrt betri lög eftir Gumma Jóns heldur en þetta lag. Ég hefði viljað sjá þarna lagið hennar Svölu Björgvins "The little wi.... song", það var líka alvöru júrósvisionlag.

Ég ætla nú ekki að dæma um hverjir möguleikar okkar verða þarna í Serbíu, en ég trúi því að Regína Ósk og Friðrik Ómar verði landi og þjóð til mikils sóma.

Áfram Ísland!

föstudagur, febrúar 22, 2008

Sérðu hafið???



Ég veit ekki hvernig þær virka þessar felumyndir og þrívíddarmyndir!! Í fyrsta lagi sé ég ekki í þrívídd (augun vinna ekki nógu vel saman) og þar af leiðandi ekki dýpt heldur. En vinkonan sem sendi mér þetta í pósti sagði mér að ef ég horfði nógu lengi á myndina myndi ég sjá hafið. Ég reyndi og reyndi en ég sé ekkert haf!!!

Bara smá föstudagsfílingur!! hehehe....

Flugdrekahlauparinn!



Bókin um flugdrekahlauparann er ein af þeim bókum sem ég á uppí hillu en hef ekki gefið mér tíma til að lesa, þarf að drífa í því. Ég fór á bíó í gærkveldi á forsýningu á Flugdrekahlauparanum. Mér fannst myndin svakalega góð, en oft finnst mér þegar gerðar eru bíómyndir eftir bókum að þær bæti litlu sem engu við bækurnar og oft ná þær ekki þeim hughrifum sem bækur geta gert.
Vinkona mín fór með mér og hún sagði að bókin hefði heltekið sig og lýsingarnar í henni hefðu verið mjög svo ógeðslegar og þar hefði líka betur verið gert grein fyrir því hvernig aðalpersónunni leið innra með sér í gegn um allt ferlið.
Myndin náði þessu svo sem ágætlega en samt ekki, maður gat ekki lesið í huga hans þar en það er hægt í bókum.

Þannig nú er að drífa sig að lesa bókin og fara svo í bíó eða öfugt!

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Framhaldsskóli í Mosó!

Frábært! Ég hef gælt við þessa hugmynd og reynt að berjast fyrir henni síðan ég flutti í Mosó. Ég tel að þetta lyfti upp bæjarlífinu og skipti miklu máli fyrir bæjarfélagið.
Fréttin

Er ekki soldið til í þessu?

Það er sagt að það taki mann eina mínútu að hitta sérstaka manneskju, einn tíma að kunna að meta hana, einn dag að elska hana, en heila ævi að gleyma henni.

Ég er ekki frá því að þessi gamla speki eigi fullan rétt á sér.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Náttúruval.

Heyrði einhvern tíman um daginn að karlmenn með mikla karlhormóna eignuðust frekar stelpur, ef þetta væri ekki svona þá myndum við sennilega enda sem einhvers konar villimenn. Ég er nú ekki há í loftinu en það er svo skrýtið að ég sé bara hávaxna karlmenn, "allir" þeir sem ég hef verið með hafa verið frekar hávaxnir, fyrrverandi er 188cm. Ég geng inn á skemmtistaðina og ég sé bara hausana sem standa uppúr hópnum, ótrúlega skrítið. Mamma hefur sagt að þegar ég var lítil í dansskóla og það var dömufrí þá var ég sko langfyrst að hlaupa til og bjóða hæsta og myndarlegasta stráknum upp.

En auðvitað er skýring á þessu eins og öllu öðru, þetta er bara náttúruval, ómeðvitað, maður er alltaf að leita að einhverjum til undaneldis þó að maður sé hættur að eiga börn og þar sem ég er lágvaxin, leita ég hávaxinna karlmanna til að ungarnir mínir verði hávaxnari. Enda sýnir það sig, Unglingurinn er orðinn 186cm er að ná pabba sínum og Gelgjan er 172cm tæpir. Þannig að ef ég hefði ekki Skottið væri ég sú lægsta í fjölskyldunni.

Svona er náttúran skrítin.

föstudagur, febrúar 15, 2008

Alltaf í boltanum!



Það virðist sem sumir menn þurfi bara ekkert að fylgja þeim reglum sem við hin þurfum að fylgja. Þarf ekki að auglýsa stöðu forstöðumanns Þjóðmenningarhúss? Ég bara spyr, ég hélt að það þyrfti að auglýsa svona stöður og svo væri hæfasti maður í djobbið ráðinn.
Reyndar í framhaldi af þeim gagnrýndu opinberu ráðningum sem hafa verið undanfarið er líklegt að þetta hafi kannski verið auglýst í Lögbritingablaðinu, með smáu letri, enda les engin Lögbirting lengur.

Sumir virðast bara geta hoppað úr einu feita djobbinu í annað án þess að þurfa sýna fram á neina hæfileika yfirhöfuð. Ég er ekki að segja að Markús Örn sé ekki hæfur í starfið, veit bara ekkert um það.

Greinilegt á síðustu bloggum mínum að maður þarf að vera miðaldra karlmaður og sjálfstæðismaður til að einhver nenni að blogga um mann!

Dabbi kóngur!



Hef pælt soldið í því, þegar Davíð var forsætisráðherra var alltaf verið að vitna í hann og hann lét óspart í sér heyra ef hann var óánægður með Seðlabankann eða aðra og gaf eiginlega bara skít í það sem hinir voru að gera til að reyna að halda verðbólgu og öðru slíku í horfinu. Þá biðu allir með öndina i hálsinum yfir því hvað hann myndi gera, en hann gerði nú yfirleitt bara það sem honum sýndist.
Nú er hann orðinn Seðlabankastjóri sjálfur og enn bíða allir með öndina í hálsinum yfir því hvað hann gerir, og nú virðist allt velta á því hvaða stýrivexti hann ákveður. Ég man ekki eftir að hinir Seðlabankastjórarnir hafi fengið þessa athygli þegar þeir voru að tilkynna stýrivexti í stjórnartíð Davíðs. Enda gerir Davíð bara enn það sem honum sýnist.

Skiptir ekki máli hvar hann er, hann virðist stjórna öllu samt!

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Kvenmannsveski!

Ég, í viðleitni minni til að vera meiri dama, fékk mér svona konutuðru í sumar. Þetta er svört leðurtaska með fullt af hólfum og tvö svona stærri.

Svo er það þannig að það fer eitthvað ofan í hana og ég finn aldrei neitt þar. Ég skoðaði hana í gær og hvað haldiði að ég hafi fundið?

Eina hanska, eina vettlinga, úlnliðshlífar, Sódavatnsflösku (óátekin), aukalykil af húsinu mínu, trefil, Dagbókaráfyllingu í "skipuleggjarann" minn, gamlan bíómiða, reikning frá tannlækninum, dömubindi, varasalva, spreybrúsa til að hreinsa gleraugun, fjóra penna, sárakrem, gömul útprentun af tölvupósti, ipod, hlíf utan um ipod (auðvitað allt annars staðar í veskinu), kassi utan af rakakremi í andlit (ætlaði að biðja tengdó að kaupa eins), varalit, varalitablýant, síma, veski og húslykla.

Mér líður soldið eins og þetta sé tuðran hennar Hermione úr Harry Potter!!

Gæðaúttekt!

Fyrritækið mitt fékk svona gæðavottun í sumar, núna í vikunni var komið að endurúttekt, því það er víst ekki nóg að fá vottunina, maður verður víst að standa undir henni og það er tékkað á því 1-2 á ári.

Við vorum nú að grínast með það að það væri kannski best að við stelpurnar myndum nú mæta í stuttum pilsum og með varalit svona til að reyna að heilla úttektaraðilan.

Ég var tekin í gegn í gær, hefði betur verið í pilsinu!!

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Valentínusardagurinn á morgun.



Ég hef svo sem aldrei verið neitt uppveðruð af Valentínusardeginum, hefur fundist Konudagurinn skemmtilegri en sá þetta á einhverjum vefnum, ágætis ráð fyrir okkur hin.

"1. Vorkenndu sjálfri þér, en bara mátulega. Notaðu hámark korter í sjálfsmeðaumkvun, og snúðu þér svo að einhverju skemmtilegu.
2. Horfðu á kvikmyndina ”Love Actually”. Hún fjallar nefnilega um allar tegundir af ást.
3. Farðu út úr bænum og í góðan göngutúr í náttúrunni. Þá skella minna á þér auglýsingar um ást, blóm, súkkulaði og skartgripi.
4. Ef þig langar í sálufélaga taktu þá fyrsta skrefið. Svaraðu gömlum tölvupóstum sem þú fékkst þegar þú skráðir þig á date-vefinn forðum.
5. Bjóddu einhverjum út. Það þýðir ekkert að hanga heima í fýlu. Fáðu góðan einhleypan vin/vinkonu með þér út að borða.
6. Gældu extra við gæludýrið. Ef þú átt ekki gæludýr geturðu keypt þér mjúkan bangsa til að kúra hjá undir teppi.
7. Borðaðu dökkt súkkulaði. Það er ekkert fitandi að ráði og kemur þér í gott skap.
8. Mundu að veröldin er EKKI full af hamingjusömum pörum. Hugsaðu um þá sem eru einhleypir og njóta lífsins í botn.
9. Vertu fegin að Valentínusar-vesenið stendur ekki nema einn dag, einu sinni á ári. Það gæti verið verra."

Hafið góðan dag!

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Villi borgó!



Sko, þó og jafnvel af því að ég er sjálfstæðiskona þá finnst mér að Villi hefði bara átt að segja bless og takk fyrir mig.

Það heyrast alls konar sögur að flokkurinn sé tvískiptur og Geir og Gulli styðji Villa, en Hanna og Þorgerður vilji hann út. Skil þær vel, hann mætti allavega leggja kollunni!!

bæbæ

mánudagur, febrúar 11, 2008

Konur.

Það var maður sem að skrifaði þetta og mér finnst hann hitta alveg í mark.

"Ég er að leita að konu sem ég heillast af, þannig að ég sé ekki aðrar, sem ég elska hvernig sem hún lætur, sem þykir vænt um mig eins og ég er, en ekki eins og ég á að vera."

Hún verður heppin þessi kona.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Ljósmyndasýning

Ég vil hérmeð auglýsa þessa ljósmyndasýningu, mamma mín á mynd þarna og á henni er mynd af mér og Skottinu ásamt fleirum, reyndar sést bara í bakið á okkur en prófílinn á Skottinu.



Endilega kíkið á sýninguna.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Skapofsi!

Við í þessari fjölskyldu eigum það til að vera svolítið skapmikil og vil ég kenna franska sjómanninum um sem skolaði upp á strendur landsins fyrir nokkuð mörgum árum og er nefndur Erlendur í ættartölum. Hann skildi eftir brún augu og skap.

Sonur minn sem er nú yfirleitt þessi rólyndismaður missti stjórn á sér í gærkveldi og kýldi vegginn í stofunni. Hann er handarbrotinn, svokallað boxarabrot, og þarf að vera í gipsi í 2 vikur, það fer lítið fyrir sundæfingum á meðan og bílprófið sem hann ætlaði að taka nú í lok mánaðarins verður að bíða líka. Mamman hló bara að honum, kvikindið.

Hann náði samt einhvern veginn að kenna okkur foreldrunum um þetta!! Algjör snilli.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum

Mér finnst Hillary og Obama flott par, þau ættu að fara saman í framboð, þ.e. hún sem forseti, hann sem varaforseti, ja eða öfugt þó ég hallist nú frekar að hinu. Þau gætu breytt ímynd heimsins á Bandaríkjunum.

Þetta yrðu algjör tímamót, ég held að aldrei fyrr hafi verið kona eða blökkumaður forseti eða varaforseti í Bandaríkjunum.

Það versta er að ég held að Bandaríkjamenn séu ekki tilbúnir í svo róttækar breytingar, þeir eru nú þeir allra afturhaldssömu þannig að repúblikanar eiga örugglega eftir að vinna þetta þrátt fyrir Bush.

Þeir eru líka með föðurlegan eldri mann sem forsetaefni, sem hefur nú verið vænlegt til sigurs hingað til.

Brúðguminn

Fór á bíó í gær, sá "Brúðgumann". Mjög góð mynd, mæli með henni. Það var svolítið áhugaverð heimspeki í myndinni, sem byggir annars á leikritinu Ívanov eftir Chekhov. Þarna er eiginmaður með fársjúka eiginkonu heima við, sem hann er hættur að elska eða ekki, kemur ekki alveg í ljós. Hann heldur svo fram hjá henni með mjög ungri stúlku og til að réttlæta gjörninginn finnst honum að hann verði að giftast ungu konunni þegar hin er látin. Er það einhver réttlæting á rangri gjörð, er nokkurn tímann hægt að réttlæta framhjáhald? Ekki finnst mér það.

mánudagur, febrúar 04, 2008

Unglingar

Ég hef aldrei verið mikið fyrir börn. Þið hlæjið kannski af mér þar sem ég á þrjú stykki, og fjalla iðulega um þau hérna á síðunni, en þetta er alveg satt. Ég er elst minna systkina og leit aðeins eftir yngsta bróður mínum, sem er 8 árum yngri en ég, en annars nennti ég aldrei að passa börn. Jú, jú ég var skátaforingi, en það er einhvern vegin á allt öðrum forsendum. Ég held mér hafi svo sem gengið ágætlega með uppeldið á þessum tveimur elstu hjá mér, það á eftir að koma í ljós með Skottið. Tengdamamma mín rifjar oft upp og hlær þegar ég tala um það að ég hafi blessunarlega verið laus við að gera þessi börn mín að einhverjum mömmubörnum. Enda aldrei mál að skilja þau eftir neins staðar.

Eitt hef ég samt lúmskt gaman að en það eru unglingar og þeirra pælingar. Ég hef nú verið fararstjóri í tveimur ferðum til útlanda með börnunum mínum, þ.e. í sumar fór ég sem farastjóri á skátamót í Svíþjóð og í fyrra fór ég með sundhópnum hans sonar míns í vikuferð til Frakklands. Ég held að mér hafi nú bara tekist ágætlega upp að ná sambandi við þessa krakka og börnin mín skammast sín ekki fyrir mig, allavega ekki enn.

Fyrst eftir að ég skildi og við fluttum hingað varð íbúðin mín að nokkurs konar félagsmiðstöð. Strákurinn sem þá var í 10unda bekk mætti hér með allavega 2 vini sína í hádegismat á næstum hverjum degi og þegar maður kom heim úr vinnunni voru nokkrir diskar og glös í vaskinum. Skrítið að manni hafi fundist matarreikningurinn hár enda eiga 3 16 ára gamlir drengir sem allir æfa afreksíþróttir ekki í vandræðum með að sporðrenna nokkrum lítrum af mjólk, svo sem einu brauði og skinkupakka svo ekki sé minnst á oststykkin.

Nú er strákurinn kominn í menntaskóla og vinirnir í annan skóla en þeir mæta nú samt hingað nokkur kvöld í viku og chilla. Um daginn kom einn þeirra fram úr herberginu og bað mig um að aðstoða sig með stærðfræðiheimadæmin! Hann hafði ætlað að biðja soninn um þetta en hann hafði sagt að mamma væri sko best í stærðfræði á þessu heimili. Svo sátum við þarna við eldhúsborðið á meðan félagarnir kláruðu borðið í tölvuleiknum og reiknuðum heimadæmi í stærðfræði fyrir 3ja bekk í Versló!. Fyndna var að mamma hans hringdi svo í hann til að undrast um hvar hann væri og þá kom að hann sæti hérna með mér að reikna!

Allavega veit ég það að ég er ekkert voðalega hallærisleg mamma.

Helgin í stórum dráttum

Ég fór á árshátíð Verkfræðingafélags Íslands um helgina, hef alla tíð starfað eitthvað fyrir félagið, en aðeins farið á árshátíð einu sinni áður. Þá fannst mér meðalaldurinn helst til hár en núna var greinilegt að "unga" fólkið hafði safnað saman liði og var ég einmitt í einum slíkum hópi þ.e. árgangar '91-'95 úr Háskólanum, semsagt fullt af "ungu" fólki á besta aldri. Þetta var mjög skemmtilegt, þarna stóð veislustjórinn hún Fjóla sig eins og hetja og svo fóru "Hundur í óskilum" á kostum og ekki voru þeir síðri Milljónamæringarnir með Bogomil Font og Ragga Bjarna. Bara nokkuð gott kvöld.

Í gærkveldi fór ég svo á leikhúsið, tók mig til að keypti ársmiða hjá Borgarleikhúsinu í haust alls 4 sýningar þ.e. 3 fastar og ein valsýning. Mér finnst svo rosalega gaman í leikhúsinu. En allavega fórum við dóttirin á "Hetjur" í gærkveldi. Þetta var nokkuð skemmtilegt leikrit, helst til langdregið og svo hefði ég viljað fá að vita meira um bakgrunn og lífsreynslu þessara manna, en annars mjög góð kvöldskemmtun. Reyndar eru sunnudagskvöldin búin að vera nokkuð heilög undanfarnar vikur því þá eru sýndir í sjónvarpinu einu tveir þættirnir sem ég fylgist með. þ.e. "Pressa" sem kláraðist reynar í gær og "Forbrydelsen" sem er auðvitað algjört möst enda danskur spennuþáttur og ég missi ekki af þeim. Enda frábærir þættir mætti bara nefna Örninn og "Rejseholdet" sem voru líka algjört möst.