Ég hef aldrei verið mikið fyrir börn. Þið hlæjið kannski af mér þar sem ég á þrjú stykki, og fjalla iðulega um þau hérna á síðunni, en þetta er alveg satt. Ég er elst minna systkina og leit aðeins eftir yngsta bróður mínum, sem er 8 árum yngri en ég, en annars nennti ég aldrei að passa börn. Jú, jú ég var skátaforingi, en það er einhvern vegin á allt öðrum forsendum. Ég held mér hafi svo sem gengið ágætlega með uppeldið á þessum tveimur elstu hjá mér, það á eftir að koma í ljós með Skottið. Tengdamamma mín rifjar oft upp og hlær þegar ég tala um það að ég hafi blessunarlega verið laus við að gera þessi börn mín að einhverjum mömmubörnum. Enda aldrei mál að skilja þau eftir neins staðar.
Eitt hef ég samt lúmskt gaman að en það eru unglingar og þeirra pælingar. Ég hef nú verið fararstjóri í tveimur ferðum til útlanda með börnunum mínum, þ.e. í sumar fór ég sem farastjóri á skátamót í Svíþjóð og í fyrra fór ég með sundhópnum hans sonar míns í vikuferð til Frakklands. Ég held að mér hafi nú bara tekist ágætlega upp að ná sambandi við þessa krakka og börnin mín skammast sín ekki fyrir mig, allavega ekki enn.
Fyrst eftir að ég skildi og við fluttum hingað varð íbúðin mín að nokkurs konar félagsmiðstöð. Strákurinn sem þá var í 10unda bekk mætti hér með allavega 2 vini sína í hádegismat á næstum hverjum degi og þegar maður kom heim úr vinnunni voru nokkrir diskar og glös í vaskinum. Skrítið að manni hafi fundist matarreikningurinn hár enda eiga 3 16 ára gamlir drengir sem allir æfa afreksíþróttir ekki í vandræðum með að sporðrenna nokkrum lítrum af mjólk, svo sem einu brauði og skinkupakka svo ekki sé minnst á oststykkin.
Nú er strákurinn kominn í menntaskóla og vinirnir í annan skóla en þeir mæta nú samt hingað nokkur kvöld í viku og chilla. Um daginn kom einn þeirra fram úr herberginu og bað mig um að aðstoða sig með stærðfræðiheimadæmin! Hann hafði ætlað að biðja soninn um þetta en hann hafði sagt að mamma væri sko best í stærðfræði á þessu heimili. Svo sátum við þarna við eldhúsborðið á meðan félagarnir kláruðu borðið í tölvuleiknum og reiknuðum heimadæmi í stærðfræði fyrir 3ja bekk í Versló!. Fyndna var að mamma hans hringdi svo í hann til að undrast um hvar hann væri og þá kom að hann sæti hérna með mér að reikna!
Allavega veit ég það að ég er ekkert voðalega hallærisleg mamma.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli