Við erum svo einstaklega óheppin í þessari fjölskyldu hvað varðar eyrnabólgur. Þetta er greinilega ættgengt. Þegar ég var lítil var ég víst alltaf að fá eyrnabólgur og sitja eftir á hljóðhimnum mínum ör sem valda því að ég er ekki alveg með fullkomna heyrn þó ekki sé hún neitt slæm þannig. Þegar ég fer til læknis útaf ýmsum kvillum og skoðað er í eyrun á mér er ég iðulega spurð hvort ég hafi verið "eyrnabarn".
Ég hef sagt það og stend við það að um leið og börn fæðast og fá K-vítamín sprautuna eigi að skella rörum í eyrun á þeim. Allavega mín börn. Sonurinn var rétt rúmlega eins árs þegar nefkirtlarnir voru teknir og sett rör í hann, síðan var ekki meira vesen með það fyrr en fjarlægja þurfti rörin en þá var hann kominn á fimmta ár. Gelgjan var rosaleg, hún fékk fyrst í eyrun nokkra mánaða og bjuggum við þá í Danmörku og fórum á "eyrnalæknavaktina" þar sem stungið var á og barninu gefin sýklalyf. Þar vorum við fastagestir ca á 2ja vikna fresti í 3 mánuði því alltaf þegar skammturinn af sýklalyfinu kláraðist grasseraði eyrnabólgan upp aftur. Sérfræðingurinn úti gafst svo loks uppá barninu og setti rör í hana, það er víst regla að gera það ekki fyrr en þau eru orðin eins árs því annars er þetta meiri aðgerð, sem gera þarf á sjúkrahúsi en það varð lendingin og hún var komin með rör rúmlega 7 mánaða gömul. Reyndar fékk hún nokkrum sinnum rör og þau fóru reglulega í verstu eyrnabólgunum en það var ekki fyrr en við fluttum heim til Íslands með barnið 3ja ára gamalt að eyrnalæknirinn okkar hér heima lét taka úr henni nefkirtlana og setti enn á ný rör að eyrnabólgurnar minnkuðu.
Skottið hefur nú ekki verið svo slæm en hún er líka búin að fá rör, reyndar er hún enn með nefkirtlana. Hún var reyndar útskrifuð með glans frá eyrnalækninum síðasta sumar en núna í desember fékk hún í annað eyrað og fékk sýklalyf, svo passaði það, skammturinn kláraðist og aftur fékk hún í eyrað, nú var gefinn stærri skammtur og hann kláraðist um miðjan janúar og hún búin að vera fín síðan. Þ.e. þangað til í gærkveldi. Það er ótrúlegt að sjá glaða, káta, brosmilda barnið sitt umturnast svona og líða svona rosalega illa, þetta er alveg rosalega sárt, það er engin spurning. Jæja hún sofnaði loksins eftir 2 stíla og svo vaknaði hún sæmileg í morgun en hljóðhimnan hafði greinilega sprungið í nótt og sársaukinn því minni.
En svona er þetta, þetta legst á sumar fjölskyldur!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli