miðvikudagur, janúar 21, 2009

Heitustu málin!

Já, ég var að hugsa um að koma með einhvern svona málefnalegan pistil, eitthvað annað en dægurþras.

Nú er allt að verða vitlaust, menn mótmæla í stórum hópum fyrir utan Alþingishúsið, og vitiði ég er bara ekkert hissa, í alvöru, fyrsta mál á dagskrá var frumvarp frá "gosanum" honum Sigurði Kára um að leyfa áfengissölu í matvörubúðum. Come on "who gives a shit" ákkúrat núna þegar allt er í kalda koli. Hef svo sem alveg verið sammála þessu hjá honum en mér fannst þetta eins og að gefa Þjóðinni fingurinn, bara að detta í hug að taka þetta mál á dagskrá núna. Alþingi er búið að vera í 100 daga fríi og alþingismenn virðast vera eins og vinglar og enginn veit neitt. Ríkisstjórnin hefur svo sem verið að reyna að gera eitthvað en hvað??

Ég yrði ekkert hissa þó ríkisstjórnin springi í kvöld á fundi Samfylkingarmanna, það eru allir að fá upp í kok. Ef þeim á að takast að bjarga þessu þarf Geir að koma fram ekki seinna en í gær með aðgerðarplan. Það eru bara fullt af spurningum sem brenna á okkur, hvaða framkvæmdir er gott að fara í í þessu árferði, hvaða framkvæmdir er best að bíða með, hvernig er hægt að hagræða öðru vísi en 10% jafn niðurskurður? Hvað á að gera við þessa "bankaprinsa" sem hafa farið burt með "peningana okkar", á að fara í mál við Bretana? Hvað skuldum við mikið? Hvenær verður gengi krónunnar orðið eitthvað sem hægt er að treysta á?

Mér sýnist þessir menn sem fara fyrir þjóðinni hafa sýnt hroka og svona "besservisser" hátt, ég meina okkur lýðnum er engan vegin treystandi fyrir ýmsum upplýsingum, við þurfum ekkert að vita, þeir ætla bara að "redda" þessu. Af hverju er Davíð enn í Seðlabankanum og Jónas enn í Fjármálaeftirlitinu?

Jæja að öðrum málum, mér líst rosa vel á Bjarna Ben. Hann er flottur framtíðarkall. Ég man eftir honum á takkaskónum að spila fyrir Stjörnuna og með hor í nös þegar við félagarnir vorum heima hjá honum að fíla Zeppelin ásamt eldri bróður hans. Mér er alveg sama þó hann hafi fæðst með silfurskeið í munni og sé af frægum ættum eins og Engeyjaættinni og tilheyri Kolkrabbanum. Hann er klár, duglegur og hefur örugglega unnið fyrir sínu, ja eða allavega hluta af því.

Engin ummæli: