sunnudagur, janúar 04, 2009

Annáll ársins...

Já það er víst komið nýtt ár. Mér hefur alltaf fundist sálmurinn "Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka..." pínu sorglegur, ég veit eiginlega ekki hvort það á við í þetta sinn, þetta var svona "annus horribles", allavega hjá okkur sem þjóð.

Persónulega var þetta bara mjög gott ár, eiginlega bara alveg frábært. Í fyrsta lagi var sumarið æðislegt og veðrið frábært.

Ef maður fer yfir þetta svona persónulega, þá má kannski helst nefna það hvað maður var stoltur að ganga Fimmvörðuhálsinn, það var alveg einn af hápunktum ársins, svo var Landsmót skáta á Akureyri algjört ævintýri. Utanlandsferðirnar urðu 3 og allar eiginlega í sama mánuðinum. Ég fór 2 ferðir til Parísar, fyrst á ráðstefnu og síðan í heimsókn til foreldra mína sem dvöldu þar um stund. Svo fór ég eina árshátíðarferð til Edinborgar, hafði aldrei komið þangað áður, mjög skemmtileg borg.

Ég eignaðist nýja frænku og það hefur nú bara ekki gerst síðan 1995, einnig eignaðist ég nýja vinkonu, já það er ekki á hverjum degi þegar maður er kominn á þennan aldur að maður eignast nýja vini, en jú ég eignaðist eina frábæra og við brölluðum margt eftirminnilegt á árinu.

Fyrirtækið mitt sem ég hef unnið hjá síðan 1996 tók sig til og sameinaðist öðrum fyrirtækjum, auk þess sem ég eignaðist hlut í því. Þannig að á nýju ári verða einhverjar breytingar á mínum vinnuhögum, við eigum að flytja okkur og verðum staðsett mun fjær heimahögum mínum en við erum nú auk þess sem maður fer á uþb. 150 manna vinnustað. Það verður einhver áskorun.

Fjölskyldan stækkaði þegar sonurinn eignaðist kærustu, svo maður verður bara ríkari og ríkari.

Á næsta ári verða líka þó nokkrar breytingar á högum barna minna er Skottan klárar leikskólann og fer í "alvöru" skóla og Skvísan mín klárar grunnskólann og fer í framhaldsskóla. Einnig verður sonurinn "fullorðinn" núna í febrúar þannig að tíminn líður.

En ég ætla nú að nota tækifærið og þakka fyrir allt það sem ég hef fengið að upplifa á árinu og þakka fyrir allt það sem ég hef og á. Einnig vil ég þakka samferðamönnum mínum fyrir frábæra samveru og einlæga vináttu.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.

Engin ummæli: