miðvikudagur, janúar 14, 2009
Kínversk speki í upphafi árs.
Gömul kínversk kona átti tvo stóra leirpotta sem hún sótti vatn í og hengdi á sinn endan hvorn á súlu sem hún bar yfir axlirnar.
Á öðrum leirpottinum var stór sprunga, en hinn var alheill.
Eftir hina löngu göngu heim frá vatnsbólinu, var sprungni potturinn aðeins hálffullur af vatni, en hinn var ávallt fullur.
Á hverjum degi í 2 ár kom konan heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.
Auðvitað var heili potturinn alsæll með sína frammistöðu en hinn skammaðist sín fyrir að geta aðeins skilað ætlunarverki sínu að hálfu.
Þegar hann hafði þjáðst yfir þessu í tvö ár, ákvað hann að ræða þetta við konuna.
„Ég skammast mín vegna þess að það er sprunga á mér sem veldur því að vatnið lekur úr mér alla leiðina heim.“
Gamla konan brosti og spurði svo : „Hefurðu tekið eftir öllum blómunum sem eru þín megin á veginum en ekki hinu megin?“
„Það stafar af því að ég hef alltaf vitað af galla þínum og þess vegna setti ég niður blómafræ þín megin við vegin, og á hverjum degi vökvar þú þau á leiðinni heim.“
„Í tvö ár hef ég getað tínt þessi blóm og skreytt heimili mitt með þeim, ef þú værir ekki eins og þú ert væri ekki hægt að fegra heimilið eins og gert er nú.“
Hvert okkar hefur sinn galla og ófullkomnleika ...
En það eru sprungurnar og gallarnir sem gera okkur einstök og gera líf okkar svona áhugavert og skemmtilegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli