föstudagur, janúar 09, 2009

Uppeldisfræðingurinn Ólafur Stefánsson


Ég fór á soldið sérstakan fyrirlestur í gærkveldi. Skólaskrifstofan hér í bæ stóð fyrir þessum fyrirlestri og fyrirlesarinn var Ólafur Stefánsson, handboltamaður, íþróttamaður ársins, heimspekingur ofl. ofl.

Í heildina litið var þetta mjög skemmtilegt og skildi mann eftir með fullt af pælingum, hann er að hvetja til þess að börn séu hvött til að tjá tilfinningar og pælingar með myndum en ekki bara orðum. Talaði þarna um heftandi vef tungumálsins og var að benda okkur á vefi eins og TED.com, kennsla.is ofl.

Í framhaldi af þessu fór ég að líta á eigin börn, sú stutta er í dag algjör framleiðandi af teikningum, það koma mörg blöð heim á dag og á hverri teikningu er alveg fullt að gerast og heilu ævintýrin í gangi. Það sem mér finnst svo þegar ég lít á stóru krakkana er að þau kunna þetta ekki lengur, þau bara lesa og skrifa. Óli var þarna einmitt að hvetja unglinga til að nota þetta myndræna þegar þau lesa bækur eða undir próf. Hann sýndi okkur m.a. teikningu sem hann gerði á meðan hann las Brekkukotsannál. Stóra spurningin er hvort skólakerfið hér valdi þessu að börnin tapa þessum hæfileika að teikna ævintýri í stað þess að skrifa þau. Svo má auðvitað benda á það að þetta myndræna er alþjóðlegt, þú þarft ekki að skilja eitthvað tungumál til að geta skilið teikningu eða listaverk.

Auðvitað liggur þetta misvel fyrir fólki, en þetta myndræna er oft ríkara í krökkum sem eiga erfitt með að læra að lesa og er mikið notað við að þjálfa lesblind börn. Einnig fór maður að spá í þessa "graffara", þeir hafa oft orðið undir í skólakerfinu og eiga við einhverja leserfiðleika eða námserfiðleika að stríða og nota þetta þá til að tjá tilfinningar og annað.

Það var fullt af góðum pælingum þarna hjá honum, en hann var alltaf kominn á flug og maður átti það til að týna honum. Hann talaði um að orðið skóli þýddi á latnesku "næði" og vildi að krakkar gætu mætt í skólann og aðeins fengið næði til að slappa af áður en tíminn byrjaði og jafnvel aðeins á eftir líka til að hugsa um það sem hafði verið kennt í tímanum. Einnig talaði hann um það að oft væri fókuserað á mistökin, sem ylli því að það endaði með því að enginn þorði neinu af hræðslu við að gera mistök. Svo talaði hann um að kennarar og foreldrar ættu að nota orð sem ekki heftu hugsunina semsagt ekki segja bíll heldur farartæki sem dæmi.

Í heildina var ég bara mjög ánægð með það að hafa drifið mig af stað.
Takk Óli

1 ummæli:

Armin sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.