fimmtudagur, júlí 12, 2007

Jarðarfarir

Já, það er eitthvað sem maður vill helst ekki hugsa um svona í blíðunni eins og hún er búin að vera en það er fullt af fólki að missa sína nánustu eða heyja dauðastríðið á hverjum degi. Þetta er eitthvað sem við hin hugsum ekki um fyrr en það skellur á okkur. Ungur maður úr sveitafélaginu mínu lést í hörmulegu slysi á sunnudag og þar á fólk um sárt að binda.

En tilefni þessarar bloggfærslu er jarðarförin sem ég var í áðan. Jarðafarir eru afskaplega fallegar athafnir og gefa vinum og ættingjum tækifæri til að kveðja ástvin sinn í fallegu umhverfi, með blómum og með fallegum söng og minningarorðum. Einnig fær fólk sem ekki hefur kannski sést í mörg ár tækifæri til að hittast og spjalla í erfðadrykkjunni.

Það er svo sem ekki hægt að hugsa sér fallegri dag til að kveðja en í dag, þvílík blíða og dásamlegt veður.

Við svona tækifæri þakkar maður Guði fyrir að eiga foreldra á lífi.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Sumarleyfi

Já nú er alveg að koma að því að ég fari í sumarfrí. Þetta sumarfrí verður með aðeins öðru sniði en venjulega þar sem ég ætla að skella mér í rigninguna til Svíþjóðar á skátamót. Já þið lásuð rétt S K Á T A M Ó T. Dóttirin er að fara með hópi frá sínu félagi og ég gerðist boðflenna.

Vonandi verður hætt að rigna þegar við förum út. En maður verður að búa sig bara eftir veðri. Versta við þetta er að við þurfum að koma öllu í einn bakpoka og ekkert meir þannig að ég sem venjulega fer með heila ferðatösku bara fyrir mig jafnvel þó að aðeins sé um helgarferðir að ræða þarf að koma mínu dóti í einn bakpoka. Þetta þýðir að maður þarf að skerða farangurinn eins mikið og hægt er.

Þetta verður eitthvað skrautlegt.

mánudagur, júlí 09, 2007

Bloggfærsla nr. 100.

Sá það þegar ég ætlaði að fara að básúnast yfir sumarleyfum og fámenni í vinnunni að þetta er bloggfærsla nr. 100 svo það er spurning hvort maður ætti bara að láta það vera að vera eitthvað að röfla hér, sá líka að teljarinn er að skríða í hundraðið, stendur í 99 ákkúrat núna.

Annars er þessi árstími ótrúlega leiðinlegur í vinnunni, maður situr og horfir útum gluggann og ímyndar sér að maður væri í sumarfríi, skottið ekkert ánægt í leikskólanum af því að nú er búið að sameina deildir vegna sumarleyfa og hún er á nýrri deild þessa dagana og mjög fáir krakkar af hennar deild í leikskólanum. Hún er líka afskaplega þreytt því nú er svo gott veður að þau eru úti meira og minna allan daginn í leikskólanum og svo er líka verið úti eftir að heim er komið. En svona er þetta. Hér á mínum vinnustað erum við 4 í vinnu en þetta er 13 manna vinnustaður.

Reyndar reddaðist þetta í hádeginu þegar yfirmaður minn kom færandi hendi með pizzu sem við skiptum 3 á milli okkar.

En svo telur maður niður dagana þangað til ég fer í frí þeir eru reyndar aðeins 4 núna og þá skellir maður sér í sund til Svíþjóðar, mér skilst að það sé allt á floti þar og búið að rigna vikum saman í þessum heimshluta á meðan við erum með bongóblíðu og þurrk hér hjá okkur.

Jæja, kannski maður fari að sýna lit og fara að vinna.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Okkar reglur!

Ég fékk í gær sent á póstinum frábært power point skjal, þar sem "reglur karlmanna" eru útskýrðar. Þar með fékk ég svo sem staðfestingu á því sem ég hef svo sem alltaf vitað, að karlmenn væru mun einfaldari gerðar en við konurnar og þá alls ekki í neikvæðri merkingu.

Við konurnar segjum hlutina aldrei hreint út, sem er frekar slæmt, þar sem skilaboðin koma oft röng og verða misskilin. Ég hlýt að vera með soldið karlhormón því ég er ekki alltaf að skilja svona tvíræð skilaboð. Einnig eru já og nei alveg gild svör við spurningum sammála þar. Sama á við að ég stekk stundum upp á nef mér og það sem ég sagði í síðustu viku, jafnvel áðan á ekki endilega við núna heldur á það við á þeirri mínútu sem þau eru sögð og síðan eru þau fyrnd nema hægt sé að sýna mér þau á prenti.

Mér finnst verslunarferðir yfirleitt leiðinlegar og versla af illri nauðsyn, nema um "græjur" sé að ræða.

Svo ég gat svo sem samsamað mig við ýmislegt í þessum reglum, en svo komu auðvitað svona "karlrembulegar" reglur eins og það að grátur sé fjárkúgun, laugardagar séu íþróttadagar og að brjóst séu til að horfa á. Það eina sem slíkar reglur gera er að sanna það fyrir okkur konunum eina ferðina enn að menn séu einfaldar lífverur sem geta ekki gert nema eitt í einu!!

Over and out