þriðjudagur, september 30, 2008

Góðan daginn bankaeigandi!

Já það kom aldeilis í ljós í gær hvað það var sem menn voru að ræða í bakherbergjum (ekki lengur hægt að tala um reykfyllt, enda allir hættir að reykja eða þannig hmmm...). Já, til hamingju með bankann sem við vorum að eignast. Mér er svo sem sagt að svona kreppa sé nauðsynleg til að hreinsa út þau fyrirtæki sem standa á sandi og þau sem eru byggð á bjargi sitji eftir. Það sem manni sárnar kannski mest eru aumingja Jón og Gunna sem hafa trúað fjármálaráðgjöfum bankanna og keypt sér hlutabréf í t.d. Glitni fyrir lífssparnaðinn. Sumir eru svo sem ungir og fá annað tækifæri en þeir sem eru komnir á efri ár fá þau ekki.

Við hin sem ekki eigum hlutabréf neins staðar, en sjáum eignir okkar brenna upp á ógnarhraða í þeirri verðbólgu sem nú er í gangi, getum huggað okkur við það að þetta er hugsanlega eina kreppan sem við eigum eftir að upplifa og það er mjög líklegt að staðan verði miklu betri eftir 12 mánuði eða svo. Þannig að það er bara spurning um að standa af sér storminn.

mánudagur, september 29, 2008

Davíð við stýrið!


Sá mynd af ráðamönnum þjóðarinnar framan á Mogganum í morgun. Þar sat Davíð við stýrið og Geir sat hlýðinn í framsætinu við hlið hans en Árni Matt. var settur í aftursætið hehehe...

Er þetta ekki nákvæmlega svona í raunveruleikanum?

sunnudagur, september 28, 2008

Tíðinda að vænta?

Menn ræða það nú hægri og vinstri hvort þessi fundur Seðlabankastjóra með Forsætisráðherra í dag tákni eitthvað eða hvort þetta er bara venjulegt laugardagsíðdegiskaffi með Geira!! Það er spurning? Ég bloggaði einhvern tíman um það að það væri sama hvar Dabbi kóngur væri hann væri alltaf ráðamestur og það hefur svo sannarlega sýnt sig. En nóg um það, ég ætla rétt að vona að þeir séu eitthvað að spá í gengið, mín er sko að fara til Edinborgar á fimmtudag svo það er eins gott að pundið verði ekki í hæstu hæðum á meðan, líkt og Evran var um daginn.

Ég ætla líka rétt að vona það að mönnum detti ekki sú vitleysa í hug að taka upp Evru á meðan gengið er svona hrikalegt, þegar búið væri að umreikna launin manns í Evrur þá væri maður bara á lágmarkslaunum verkamanns í Póllandi eða eitthvað slíkt hmmm.....

miðvikudagur, september 24, 2008

Gúrku- og dýrtíð!

Já, það er sennilega löngu kominn tími á blogg, en svona er þetta maður er bara alveg hugmyndasnauður þessa dagana.

Var í París um helgina og það var bara yndislegt enda með yndislegu fólki. Þarna röltum við um borgina og skoðuðum allt það helsta, fengum okkur öl og samlokur á ýmsum stöðum. París er reyndar æðisleg borg og veðrið var frábært, góð framlenging á sumrinu, en mikið svakalega er hún dýr. Ég keypti nú ekki mikið og það var kannski ekkert sérstaklega dýrt ef maður lítur framhjá gengisskráningunni, en matur og þá ekki síður drykkur er óheyrilega dýr í París. Stór bjór getur á sumum stöðum verið á 15 evrur ég meina það hálfur lítri af bjór á rúmlega tvöþúsund krónur!! Kókglas á 5 evrur sem gerir á genginu í dag 700 kr!!

Já en svona er þetta maður borgar bara og borgar og hefur áhyggjur seinna!

þriðjudagur, september 16, 2008

Saumaklúbbar.

Fór í "saumaklúbb" um daginn, það er nú það sem svona samkomur eru kallaðar en það er kannski ekki réttnefni. Þessi klúbbur er búinn að vera starfræktur í rúmlega 20 ár, við höfum kannski ekkert verið rosaduglegar að hafa klúbb einu sinni í mánuði eða svo, en við hittumst nokkrum sinnum á ári. Það er örugglega gott efni í mastersritgerð í mannfræðum að spá í hvernig svona klúbbar myndast og afhverju. Við byrjuðum allavega rétt í lok menntaskóla og "inntökuskilyrði" í klúbbinn var að vera uppalin í Garðabænum og hafa verið í MR. Þessu hefur nú verið hliðrað aðeins og nokkrum stúlkum sem ekki voru í MR hefur verið hleypt inn og svo höfum við "fælt" frá okkur nokkrar sem uppfylltu fyrstu skilyrðin.

Það er ekki kannski hægt að segja að við séum allar bestu vinkonur því við höfum svona mismikið samband okkar á milli en þetta er vinkonur mína og mér þykir alltaf vænna og vænna um þær með hverju árinu sem líður.

Það sem er kannski merkilegt við þennan klúbb er menntunarstigið, þetta eru allt nokkuð mikið menntaðar konur, við erum með lækni, sjúkraþjálfara, meinatækni og iðjuþjálfa svona í heilbrigðisgeiranum við erum með tvo verkfræðinga, viðskiptafræðing, stjórnmálahagfræðing, flugstjóra, félagsráðgjafa og líffræðing.

Núna síðast fórum við svo að reyna að finna nafn á þennan klúbb, enda það löngu orðið tímabært, hugmyndirnar voru nokkrar og var nokkuð rætt um "eftirlætispíkurnar" (sem var eitthvað sem ónefndur kennari í MR gaf hluta hópsins á sínum tíma), dekurdúllurnar, GB gellurnar þar sem GB stæði þá fyrir Garðabæ osfrv. osfrv. Við föllum reyndar engan vegin undir eitthvað svona Dúllu eða Eftirlætis dæmi eitthvað en það gæti líka verið kaldhæðnin í þessu. Hafið þið einhverjar hugmyndir hehehe....

Svo er annað atriði en það er það sem rætt er á þessum "fundum" okkar og ég skal gefa ykkur nokkur stikkorð svona til að þið getið svo getið í eyðurnar : "businn", "hollensk" súpa, fullnægingar, G-blettinn, unglingaástir, tröppurnar á MR, gamla kennara, "verslóliðið" bæði núna og í gamla daga, trúarbrögð, íslenskar kjarnakonur, botox, silicon, skonsur, BSÍ, sviðakjamma ofl. ofl. Allavega var hlegið svo mikið að við vorum farnar að hafa áhyggur af grindarbotnsvöðvunum hehehe... en til að toppa það allt fórum við nokkrar á trampólínið sem var fyrir utan húsið á leiðinni út í bíl.... Frábært kvöld.

Hláturinn lengir lífið, ég er sko sannfærð um það og við komum allar heim dauðþreyttar en pottþétt mörgum árum ef ekki áratugum yngri.

mánudagur, september 15, 2008

Sú allra þrjóskasta.

Skottið mitt elskar það að fara í sund, við höfum svo sem öll mjög gaman að því að fara í sund og höfum verið dugleg við það. Þannig að ég ákvað það að skrá hana nú á sundnámskeið, hún kann eitthvað af sundtökunum en heldur sér ekki uppi á floti án kúta enn, svo mér fannst þetta tilvalið enda er stóri bróðir hennar búinn að ákveða það að hún skuli æfa sund hmmm.... Ég ræddi þetta aðeins við hana í síðustu viku, en námskeiðið byrjar í dag, og hún var alveg hörð á því að hún þyrfti ekkert sundnámskeið hún kynni sko að synda og hana nú. Ok, ákvað aðeins að hvíla þessa umræðu en hóf hana aftur í gær og sama svarið kom, ég horfði soldið á hana og sagði "já, en þér þykir svo gaman í sundi, þarna fengirðu að fara í sund alla mánudaga". Hún horfði á mig með stóru augunum sínum og sagði svo "fer maður ofan í sundlaugina á sundnámskeiði??" Já, það er nefnilega málið, ég veit ekki hvernig námskeið hún hélt hún væri að fara á hmmm...... Það þarf stundum að útskýra hlutina betur fyrir þessum krúttum.

Svo hún var alveg spennt að fara á sundnámskeið þegar ég setti hana í leikskólann í morgun hehehe....

París aftur og nýbúin.

Vá hvað tíminn líður, mér finnst ég rétt vera búin að taka uppúr töskunum og ná að þvo allan þvottinn á heimilinu sem safnaðist fyrir þessa viku sem ég var í burtu en já nú er að koma að því aftur að ég fari þ.e. ferð númer tvö og aftur til Parísar. Þyrfti að koma mér upp kærasta þar hmmm... En allavega er farin að hlakka til að fara aftur enda verður þetta skemmtiferð með yndislegu fólki. En svo er þetta svona alveg týpísk ég á leiðinni til útlanda og Evran í hæstu hæðum.

Þurrkarinn minn söng sitt síðasta, allvega í bili, á föstudag, sló bara út öllu rafmagninu í húsinu. Vonandi nær töframaður hann "fyrrverandi" tengdó að laga hann aftur í þetta sinn, hef eiginlega ekki efni á þurrkara í augnablikinu. Þvílík peningaútlát alltaf svona á haustin, það er bara eins og peningarnir velti uppúr veskinu hjá mér þessa dagana, skólarnir byrjaðir og svo þarf að greiða tónlistarskóla, fimleika, sundnámskeið, æfingaferðir, skátar ofl. ofl. Hvernig fer fólk eiginlega að sem er með lægri tekjur en ég, skil það eiginlega ekki, ég þyrfti að vera með svona 100 þús. kall í viðbót á mánuði til að þurfa ekkert að vera að hafa áhyggjur af þessu öllu saman. En já peningar þetta er endalaus barátta.

miðvikudagur, september 10, 2008

Meydómshringur hvað??

Kannski móðga ég einhvern með þessari færslu minni hérna en það verður að hafa það. Oft hef ég nú hneykslast á Bandaríkjamönnum og því sem þaðan kemur, en ég er mjög ósátt við þá stefnu sem virðist vera allsráðandi þar núna en það er þessi kynlífsmál þeirra.

Í stað þess að vera með uppbyggjandi kynlífsfræðslu og tala opinskátt um getnaðarvarnir eru notaðar 18. aldar aðferðir sem miða að því að segja að getnaðarvarnir séu aldrei alveg öruggar og því sé bara best að sleppa þessu fyrr en maður finnur þennan eina rétta og gengur upp að altarinu með honum. Svo er það líka kennt að fóstureyðingar séu aldrei réttlætanlegar. Á meðan er aldrei eins mikið fjallað opinberlega um kynlíf, tónlist, myndlist, kvikmyndir ofl. ofl. er allt meira og minna kynlífsskotið. Við hverju búast menn svo, ungar stúlkur fullyrða að þær séu hreinar meyjar en þær hafa jafnvel stundað munnmök og endaþarmsmök til að halda meydómnum hmmm..... ekki til eftirbreytni. Svo þegar þetta fólk ákveður að stunda kynlíf eins og ætlast er til að það sé gert, kann það ekkert að stunda ábyrgt kynlíf því það er kennt að smokkar séu svo óöruggir þannig að kynsjúkdómar og unglingaólétta grassera sem aldrei fyrr. Svo er þetta með fóstureyðingarnar algjört tabú líka, mér finnst að það eigi að vera hverri konu í sjálfsvald sett hvort hún vill fóstureyðingu eða ekki sama hver ástæðan er, þær eiga að vera frjálsar. Það segir sig sjálft að lífsgæði margra ungra stúlkna verða mun minni ef þær eignast börn ungar, hér heima er nú líka allt annað félagslegt kerfi en í USA þar sem barnaheimili kosta heilan helling, skólaganga er ekki frí og margar þessara stúlkna er hafnað af stórfjölskyldum sínum og enda á götunni með krógann.

Nýjasta æðið í USA er að ganga með svona meydómshring, æji þvílík hræsni.

Svo kemur toppurinn af öllu, þeir telja margir hverjir að kynlífsfræðsla og fræðsla um getnaðarvarnir hvetji til kynlífsiðkunnar come on.

Þessi tvískinnungur Bandaríkjamanna fer rosalega í taugarnar á mér.

þriðjudagur, september 09, 2008

Smá pæling, þ.e. ein af mörgum!

When a GIRL is quiet ... millions of things are running in her mind. When a GIRL is not arguing ... she is thinking deeply. When a GIRL looks at u with eyes full of questions ... she is wondering how long you will be around. When a GIRL answers " I'm fine " after a few seconds ... she is not at all fine.

When a GIRL stares at you ... she is wondering why you are lying. When a GIRL lays on your chest ... she is wishing for you to be hers forever. When a GIRL wants to see you everyday... she wants to be pampered. When a GIRL says " I love you " ... she means it. When a GIRL says " I miss you " ... no one in this world can miss you more than that.

Life only comes around once make sure u spend it with the right person .... Find a guy ... who calls you beautiful instead of hot. who calls you back when you hang up on him. who will stay awake just to watch you sleep. Wait for the guy who ... kisses your forehead. Who wants to show you off to the world when you are in your sweats. Who holds your hand in front of his friends. Who is constantly reminding you of how much he cares about you and how lucky he is to have you. Who turns to his friends and says, " That's her!! "

mánudagur, september 08, 2008

Breiðuvíkurmálið

Já, það er mikið rætt um þetta Breiðuvíkurmál og auðvitað er þetta alvarlegt mál. Hér erum við að tala um aðgerðir barnaverndarnefnda á árum áður og ég trúi því að þeir sem hafi tekið þessar ákvarðanir hafi virkilega trúað því að þeir væru að gera það besta fyrir þessi börn á þeim tíma.

Aðbúnaður þessara barna var misjafnur bæði heima við og á þessum heimilum sem hýstu þessi börn tímabundið. Nú er allt brjálað yfir þessum bótum, auðvitað er tæplega hálf milljón ekkert sem hægt er að tala um sem bætur en hver er rétta upphæðin, er einhver upphæð rétt? Þó þetta fólk fái afhent 500.000, 5 milljónir eða 50 milljónir þá breytir það engu um líðanina eða það líf sem þetta fólk hefur lifað hingað til og þær þjáningar sem það hefur upplifað, hver ætlar að meta það hver þjáðist mest, hver varð fyrir mesta eineltinu, hver hefur átt verra líf? Svo er stóra spurningin sú, hvar væri þetta fólk statt í dag ef það hefði ekki farið að Breiðuvík, væri það betur statt, meira menntað, hefði það átt betra líf?

Púff... Fegin er ég að hafa ekki verið í þessari nefnd sem fór með þetta mál.

Mosó


Eins og dyggir lesendur mínir hafa eflaust séð bý ég í Mosó. Eftir skilnaðinn, var ég mikið að spá í að flytja eitthvað langt í burtistan, mér fannst allur bærinn vita hvernig komið væri fyrir mér og allt það sem á undan var gengið. Ég átti erfitt með að fara í búðir hér og versla í matinn, annaðhvort fannst mér fólk líta á mig eða það kom og vildi ræða málin. Ég fór að versla nálægt þar sem ég vinn og forðaðist það að vera eitthvað á mannamótum í Mosó. Ég keypti mér samt íbúð í Mosó og var það fyrst og fremst barnanna vegna þar sem Unglingurinn og Gelgjan voru bæði í unglingadeild og Skottið í leikskóla þar sem þau voru alsæl. Sá að á næsta ári þ.e. árið 2009 væri smuga að flytja burt, þá myndi Gelgjan klára skólann og fara í framhaldsskóla og Skottið myndi hætta í leikskóla og fara í skóla.

Fór á Sálarballið í Hlégarði um helgina og mikið afskaplega var gaman, og þar hitti ég allt yndislega fólkið sem býr í Mosó og ég þekki og þarmeð ákvað ég það að ég ætla ekkert að flytja úr Mosó, ég ætla ekki að láta einhverjar örfáar hræður sem fara í taugarnar á mér og búa hér skemma fyrir öllu hinu frábæra fólkinu sem hér býr. Fyrir utan það að hér eru frábærir skólar, frábært barna- og unglingastarf á mörgum sviðum og stutt í fjallið, fjöruna, sveitina og borgina.

Eitt fannst mér samt soldið fyndið en þannig var mál með vexti að bróðir minn býr líka hér í Mosó og hann var með mér á ballinu, einhver sagði við okkur eitthvað á þá leið, jæja svo þið systkinin eru þá bæði Mosfellingar, bróðir minn var nú fljótur að svara nei, við erum Garðbæingar en við búum í Mosó hehehe....

En ég já, ég held að ég ætli að búa áfram í Mosó.

sunnudagur, september 07, 2008

Myyearbookphoto


Fann frábæra síðu, kannist þið eitthvað við þessa konu??

hehehehe.....

Golf og Sálin!

Já, sko verð víst að klára söguna með golfið. Þetta var bara æðislega gaman, fórum austur fyrir fjall að Kiðjabergsvelli. Veðrið var bara dásamlegt, hlýtt, sólarlaust og rigndi bara eina holu. Þetta var full rúta svona uþb. 50 manns og við vorum 4 stelpurnar hmmm... kannski ekki slæmt miðað við að við vinnum nú einu sinni í "kallageira". Okkur var skipt í lið og var okkur sagt að það yrði skipt þannig að vanur og óvanur yrðu saman í liði og svo spilað það sem kallast "Texas scramble" sem þýðir að betri boltinn er alltaf látinn ráða. Allavega ég lenti með manni í liði sem er með 36 í forgjöf eins og ég, en hann var ekki alveg byrjandi og honum gekk bara sæmilega. Mínir boltar voru bara nokkuð oft látnir ráða þó ég slægi yfirleitt mjög stutt en þá var ég alltaf glöð ef boltinn var farinn þegar högginu var lokið, sko það voru alveg vindhögg og allt þarna hehehe.... En jæja þetta var bara gaman fengum okkur nokkra koniaksjússa og nokkra bjóra í þessa 6 klukkutíma sem það tók að spila þessar 18 holur. Hehehehe.... það er nú ekki alveg í lagi vera að spila í fyrsta skipti og spila heilar 18 holur, en jæja lifði það af, var nokkuð lúin orðin þegar við komum í mark og á móti okkur tók rjómalöguð aspassúpa í forrétt og lambalæri í aðalrétt og það rann sko ljúft niður.

Í gærkveldi skellti ég mér svo á ball með Sálinni hérna í Hlégarði í Mosó, alveg meiriháttar gaman og það sem maður hitti af fólki!! Allavega, skemmtilegt ball með frábæru fólki.

Golfkveðjur......

fimmtudagur, september 04, 2008

Golf hmmm.....


Já, það sem maður lætur hafa sig útí. Er þetta ekki bara týpísk svona ég, alltaf til þó ég hafi engar forsendur til að taka þátt, bara vera með hugsjónin........

Sko, málið er þannig vaxið að í nýja stóra sameinaða fyrirtækinu mínu er alltaf haldið golfmót einu sinni á ári. Mér var sko sagt að það tækju allir þátt, alveg óháð kunnáttu, OK, ég sló til, maður verður nú að fara að kynnast þessum nýju samstarfsfélögum sínum en ég er semsagt að fara að taka þátt í golfmóti á morgun.

Sko þá er hitt málið, ég hef aldrei og þá meina ég aldrei spilað golf, ágæt í "krokket" en það gildir víst ekki í golfi. Hef labbað nokkrum sinnum með fyrrverandi svona golfhringi og verið bara svona "kylfuberi" en aldrei spilað sjálf.

Við fórum í gær tvær héðan í Bása til að prófa að koma við kylfur og slá nokkra bolta. Ok, það gekk ekkert rosalega vel og við fylltumst svona smá frammistöðukvíða, púff, erum við að fara að gera okkur að fíflum þarna á föstudag eða hvað? Svo kom í morgun hvort ég hefði hugmynd um hve margar konur ætli að taka þátt? Váá, það væri bara svo týpískt fyrir okkur ef við yrðum svo ofan á allt einu konurnar á svæðinu. Jæja, það var sko einn ljós punktur á þessu öllu saman en það voru strákarnir þarna, hver öðrum flottari og huggulegri á besta aldri hmm.... (örugglega allir fráteknir) og bílarnir maður, þvílíkt flottir, BMV, Benz, Audi, Range Rover, Volvo já bara nefndu það (örugglega allir í eigu Lýsingar hehehe...)

En allavega það má alveg skoða það að fara að stunda golfið hmmmm.....

miðvikudagur, september 03, 2008

Enginn veit hvað átt hefur..........


Þegar ég fór í gegn um fríhöfnina um daginn keypti ég mér eina bók, á það til þegar ég fer í gegn um fríhöfnina en tími svo ekki að kaupa bækur þegar ég fer í bókabúðir hér í bænum hmmm.... skrítið, stundum finnst mér eins og maður missi verðskynið þegar maður er kominn í fríhöfnina, kortið er bara straujað og straujað, kaffibolli á 500 kall allt í lagi maður er nú einu sinni á leið til útlanda. Ég held að "attitudið" hjá mér sé svo sem svipað og hjá flestum hinum allavega sér maður fólk bara missa sig þarna í fríhöfninni.

En þetta var nú ekki efni í pistil dagsins þó ég gæti örugglega skrifað heilan pistil um þennan íslenska "kúltur". Geri það kannski í byrjun okt. þegar ég verð búin að fara tvær ferðir til viðbótar í gegn um fríhöfnina. Allavega hvaða kjaftæði er þetta í mér, farðu nú að koma þér að efninu kona!

Sko bókin heitir "Marley og ég" og er sko bara yndisleg sérstaklega fyrir núverandi, fyrrverandi og tilvonandi hundaeigendur. Hún fjallar um hund og samskipti hans við fjölskylduna um leið og saga fjölskyldunnar er rakin í þau ár sem hundurinn lifði. Marley, það er sko hundurinn, er ekki það sem hægt er að kalla draumahund eða þannig. Ég veit ekki hve oft ég skellti uppúr alein á hótelherberginu, ég á nefnilega soldið svona "léttgeggjaðan" hund. Hún er yndisleg, en sjálfstæð, ákveðin, þrjósk og ofboðslegur fjörkálfur. Ég hef oft lent í vandræðalegum aðstæðum með hana þegar hún hleypur á eftir hestum og geltir og geltir, þegar hún stakk af i sumarbústaðnum hjá mömmu og pabba og dró mig yfir ánna að nokkrum kindagreyjum sem áttu sér einskis ills von og smalaði þeim saman og rak þær á sund hmmm.... Einnig er henni sérstaklega illa við hjól og hjólreiðamenn þeir fá sko aldeilis að heyra það ef þeir koma nálægt okkur, svo ég tali nú ekki um mótorhjól og flutningabíla. Hún fagnar öllum sem koma heim með því að hoppa upp á þá og svo fer hún í mikið manngreinarálit og geltir á suma en fagnar öðrum algerlega óskiljanlegur munur. En svo er hún ljúf eins og engill, Skottið má láta með hana eins og hún vill, hefur m.a. klætt hana í stuttermabol, setið á hestbaki, legið ofan á henni og svo stendur hún yfir henni og skammast og skammast segir henni að setjast, liggja, koma, fara osfrv. og tíkin hlýðir þessu öllu þegjandi og hljóðalaust.

Punkturinn minn er kannski í þessu að ég komst að því við lestur þessrar bókar að hundurinn minn er sko langt frá því að vera sá óþekkasti og það er ótrúlegt hvað maður getur tengst svona dýri sama hvernig það lætur og sama má svo sem segja um börnin manns maður elskar þau skilyrðislaust sama hvernig þau láta.

þriðjudagur, september 02, 2008

Í túninu heima


Um helgina var bæjahátíð Mosfellsbæjar, sem ber nafnið "Í túninu heima". Vegna farar minnar til Parísa missti ég af henni að mestu leyti en á sunnudagskvöldinu skellti ég mér með Skottið á tónleika á Bókasafninu. Þarna voru flutt ljóð og lög við ljóð Halldórs Laxness. Það sem skemmtilegast var við þetta var að flytjendurnir voru allt ungir krakkar, sá elsti kannski rétt að skríða í tvítugt. Það var hljómsveit og nokkrir söngvarar allt niður í 9 ára gamlar stelpur. Ég veit það ekki en ég fylltist stolti yfir öllu þessu hæfileikaríka fólki sem við eigum þarna í Mosó, greinilegt að skólakórarnir, lúðrasveitin og tónlistarskólinn er að skila frá sér frábæru fólki og greinilegt að verið er að gera góða hluti á þessu sviði. Áfram Mosó!!

Það var soldið fyndið, að þegar við fórum út sótti Skottið regnjakkann sinn, ég spurði hvað hún ætlaði að gera við hann. Jú sko, hún hafði verið á útitónleikum með pabba sínum kvöldið áður og orðið rennandi blaut og ætlaði sko ekki að láta það koma fyrir aftur. Ég útskýrði fyrir henni að þetta væru innitónleikar og ekkert víst að þeir væru eins skemmtilegir og tónleikarnir kvöldinu áður. Á miðjum tónleikum lítur hún á mig og segir "mamma þetta eru víst skemmtilegir tónleikar" sem þeir svo sannarlega voru.

mánudagur, september 01, 2008

Að sakna soldið eða mikið!!

Þegar ég kom heim á laugardag hitti ég Skottið mitt. Hún kom til mín eftir kvöldmat og svei mér þá ef hún hefur bara ekki stækkað þessa viku hmmm.....

Um kvöldið vorum við komnar uppí að kúra og ég tek utan um hana og knúsa fast og segi svo "æji ég saknaði þín soldið á meðan ég var í París". Hún leit á mig stóru augunum sínum og sagði ákveðið "ég saknaði þín mikið" (sko með áherslu á mikið) hmmmm.... Maður þarf greinilega að vanda orðavalið hehehe.....