mánudagur, júní 26, 2006

Börnin

Jæja eins og hjá flestum foreldrum sem eiga börn á grunnskólaaldri er oft búið að skipuleggja helgarnar fyrir mann. Þ.e. ef börnin eru í einhverjum íþróttum eða tómstundum. Þannig fór það um þessa helgi. Sonurinn var að keppa á Aldursmeistarmóti íslands í sundi (AMÍ) í Reykjanesbæ um helgina. Þetta eru skemmtilegustu sundmót ársins og fer allur veturinn í það að ná lágmörkum til að fá að keppa á mótinu. Allavega var ég þarna alla helgina að dást að mínum dreng og hinum börnunum og unglingunum sem sýndu þarna listir sínar.

Þetta er ótrúleg elja að synda og synda, minn æfir 6 sinnum í viku og tekur hver æfing ef maður tekur tímann sem fer í sturtu, heita pottinn og í það að koma sér á æfingu og heim aftur u.þ.b. 3 tíma!! það gera 18 tímar á viku sem er næstum hálf vinnuvika. Það er von að þessir krakkar eigi kannski ekki mikið líf eftir skóla og æfingar. Það eru syntir nokkrir kílómetrar á æfingu þannig að næg er brennslan. Allavega er ekki til gramm af fitu á syni mínum og oft er orkan alveg búin líka, það er svolítið erfitt að vera að stækka og þroskast fyrir utan orkuna sem fer í íþróttina.

En það er líka gaman þegar farið er á svona stórt sundmót og þau uppskera eftir allt erfiðið. Það er ef það verða bætingar. Þær voru nú ekki miklar hjá okkar liði og viðurkenndi þjálfarinn að hann hefði sennilega misreiknað sig eitthvað aðeins og þau yrðu örugglega frábær um næstu helgi þegar keppt verður á bikar.

Ég held nú að minn hafi samt verið bara nokkuð ánægður með helgina.

með klórkveðjum

fimmtudagur, júní 15, 2006

Þungir þankar

Jæja

Þá er runninn upp "stóri dagurinn" við göngum frá skilnaði að borði og sæng í dag. Mér líður ekkert vel með þetta, það er loksins að settlast inn að ég sé að missa manninn minn! Ég verð auðvitað ekkert laus við hann við eigum þessi börn saman og við komum til með að vera í miklum samskiptum við hvort annað í framtíðinni. Er það ekki bara verra??

Maður spyr sig, þegar hann verður kominn með viðhaldið upp á arminn sem sína konu og fer að birtast með hana á opinberum vettvangi. Mér hryllir við tilhugsuninni, á maður ekki bara að flytja til útlanda til að losna við þetta lið. En nei, nei, ég kem örugglega til með að kaupa íbúð í sama hverfi og þau barnanna vegna. Rekast á þau í Bónus og sundlauginni!!

Æji, mér liður illa.

fimmtudagur, júní 08, 2006

Ferlið

Jæja, næg verkefni svona í þessu ferli sem við erum í.

Fengum fasteignasala í heimsókn í fyrradag, ágætis kunningi okkar og hann sagði að skilnaðir héldu hjólum efnahagslífsins gangandi. OK. Það er nefnileg þannig ef hjón skilja kemur yfirleitt út úr því, ein sala hjá fasteingasalanum og tvö kaup, reyndar í þessum skilnaði eru það tvær sölur og fjögur kaup en það er nú önnur saga!! Jæja svo kostaði það uþb. 30% meira að reka 2 heimili heldur en eitt þannig að þetta skilaði sér sko út í þjóðfélagið.

Niðurstaðan er sú að ég er að skilja til að halda hjólum efnahagslífsins gangandi. Flott hjá mér.

Svo fórum við til prestsins í gær, presturinn er fínn. Það er örugglega próf í því í guðfræði hvað menn eru góðir í mannlegum samskiptum, þeir eru ótrúlegir þessir menn og ekki gleyma konur sem eru í þessu starfi. Enda deila þeir gleði- og sorgarstundum með fólki daglega.

Jæja en við fengum vottorðið sem þarf að sýna hjá sýslumanni í næstu viku þegar við förum þangað.

Life goes on!

föstudagur, júní 02, 2006

20 ára stúdent og enn ung!

Já, það er víst,

Ég fór um daginn á svona 20 ára stúdent "reunion" alveg ótrúlega gaman. Nú var minn bekkur soldið spes við vorum mjög samhent en soldið mikið bara fyrir okkur vorum ekkert að mingla allt of mikið við restina af árgangnum, áttum bara nóg með okkur. En það var svo gaman að hitta bekkinn og ég segi ykkur það að það var 83% mæting í okkar bekk!! En það var líka svo gaman á endurfundunum, að það kjaftaði af manni hver tuska. Maturinn kom 2 tímum of seint og var kaldur en það skipti ekki máli við drukkum bara meira rauðvín í staðinn. Svo var dansað við gömlu diskólöginn, því eins og aldurinn segir til um þá vorum við í menntó á diskótímabilinu, dansinn dunaði svo fram á nótt ég held að klukkan hafi verið rúmlega fjögur þegar slökkt var á græjunum og ljósin kveikt. Það sem kom manni kannski mest á óvart var hvað stelpurnar eru enn miklar skvísur og strákarnir töffarar, liðið hafði breyst ótrúlega lítið. Strákarnir flottir ekki með bumbu og skalla, og þeir sem voru með það, báru það bara ótrúlega vel. Stelpurnar voru sko bara flottar!!

jæja, lífið heldur áfram