fimmtudagur, maí 31, 2007

Samræmd próf og framhaldsskólar

Jæja þá eru komnar einkunnir úr samræmdum prófum. Sonurinn var að fá sínar, þær eru nú bara allt í lagi, en hann er soldið hræddur um að þær dugi ekki inn í Versló, en það er sko eini skólinn sem hann sér þessa dagana. Ég vona nú innilega að þetta dugi til, það eiga eftir að koma skólaeinkunnir og þær koma líka inn í þegar valið er inn í skólana, en annars verður hann bara að sætta sig við það næstbesta að hans mati þ.e. MS. Eina sem ég ráðlagði honum var að sækja um í bekkjarskóla.

Það sem er kannski mest svekkjandi fyrir mig sem foreldri er að ég veit að hann getur miklu betur og hefði auðveldlega geta fengið mun hærri einkunnir allavega í sumum fögunum, hann er bara latur. Þó ég sé bara nokkuð sátt við íslenskuna og stærðfræðina þá hefði náttúrufræðin mátt vera hærri, ekki get ég kvartað yfir málunum þau liggja bara ekkert voða vel fyrir honum og einkunnir í þeim bara í samræmi við getu tel ég.

Í fyrra þurfti yfir 8 í meðaleinkunn úr 4 hæstu samræmdu prófunum þ.e. bæði samræmd einkunn og skólaeinkunn til að komast inn í Versló, hann er með 7,75 núna og skólaeinkunnin er ekki komin. Sjáum nú bara til og málum ekki skrattann á vegginn.

Annars var versló nú ekkert voða spennandi þegar ég var í skóla, þar voru bara glamúrgellur og pabbastrákar og það var eiginlega alveg glatað ef maður átti kærasta sem var í Versló þ.e. ef maður var MR-ingur eins og ég.

Áfram MR

Hvað er ég að kvarta?

Já, þvílíkt svartsýnisblogg var þetta hjá mér í gær. Dagurinn í dag er miklu betri enda svaf ég vel í nótt. Á mbl.is sé ég að hún er dáin hún Ásta Lovísa, sem var ung kona og með 3 ung börn, ekki nóg með það heldur dóu bæði mamma hennar og systir úr arfgengri heilablæðingu. Ég þekkti hana ekki neitt eða neitt til hennar en man að það var talað við hana í Kastljósinu einhvern tíman í vetur og það birtist örugglega viðtal við hana í einhverju blaðinu, en allavega yfir hverju er ég að kvarta.

Maður ætti nú að skammast sín að vera svona sjálfhverfur þegar fullt af fólki er þarna úti að berjast við ýmislegt, bæði sjúkdóma og fleira.

Ætti maður ekki að taka síðustu "bloggorð" Ástu Lovísu og gera þau að mottói:

"Knús á ykkur og prufið að byrja daginn á því að brosa, þakka fyrir daginn í dag og opna fyrir hjartað... Er það DÍLL ???"

Það er ekkert að mér, ég á bara frábært líf, með frábæra fjölskyldu og börn og framtíðin blasir við mér. Maður þarf bara að læra að meta það sem maður hefur.

Takk fyrir mig!

miðvikudagur, maí 30, 2007

Sumir dagar!!!

Úff

Hvað sumir dagar geta verið erfiðir, ég er alveg að kikna undir sjálfri mér þessa dagana, sef lítið, vakna oft á nóttunni og þá með þvílíkan hjartslátt eftir að hafa dreymt einhverja helv. vitleysu.

Það er eitthvað stress í gangi, finnst lífið hafa verið allt of lengi stopp og í biðstöðu, vil halda áfram. Vil fá að vita hvað fyrrverandi er að hugsa! Ég spyr hann, en fæ engin svör.:-( Svo er maður alltaf að fá góð ráð, en hvað á maður að gera við góð ráð sem n.b. væru nákvæmlega sömu ráð og ég myndi gefa vinkonu minni í sömu stöðu. Málið er að það getur enginn sett sig í mín spor og svo erum við öll svo misjöfn.

Vonandi næ ég að sofa eitthvað næstu nætur og um helgina, maður verður svo orkulítill og allt verður svo erfitt þegar maður sefur illa. Svo er maður einnig "extra" viðkvæmur og finnst lífið eitthvað svo erfitt.

Púff

Hundaskóli

Já nú er ég að fara með hundinn í hundaskóla. Bráðfyndið, maður er búinn að ala upp 3 börn, jæja eða er að því og aldrei hefur maður farið í uppeldisskóla fyrir börn, en þetta er alveg bráðnauðsynlegt þegar maður er kominn með hund, ekki satt??

Annars finnst mér Íslendingar hafa afskaplega lítinn "tolerance" fyrir hundum, það þarf sérstakt leyfi til að hafa þá osfrv. Nágranninn gæti átt kolvitlausan krakka sem gargaði alla daga og það er ekkert hægt að gera í því en þú getur auðvitað klagað ef hundur í húsinu geltir alla daga!!

jæja við segjum
VOFF

þriðjudagur, maí 29, 2007

Þorgrímur Þráinsson

Svona í framhaldi af fyrri bloggfærslu fékk ég sent boð á aðalfund foreldrafélags skólans sem börnin mín eru í. Þetta er bráðskemmtilegt fundarboð og greinilegt að illa hefur verið mætt á aðalfundi hingað til og pabbana greinilega verið sárt saknað. Allavega verða á dagskrá venjuleg aðalfundarstörf og svo erindi Þorgríms Þráinssonar þar sem hann kynnir bók sína:

"Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama: skemmtilegra kynlíf, fallegri samskipti, meira sjálfsöryggi".

Jess nú á að trekkja pabbana. En virkar þetta ekki ákkúrat öfugt, mömmurnar mæta og svo tuða þær í kallinum að Toggi hafi sagt hitt eða þetta!!

Ha, ha, ha.

undirgefin - yfirgefin

Ég var að hlusta á FM957 í morgun á leiðinni í vinnuna. Þar er nú oft mikið um karlhormóna og í þeim þætti virðast karlmenn ekki kunna á börn, uppvask, þvott, ryksugu, klósettbursta og svo mætti lengi telja. Þeir eiga bara að vera skaffarar og finnst eiginlega sjálfsagt að konan sjái bara um að reka heimilið alveg óháð því hvort þær vinna úti eða ekki!! Allavega var eitt sem vakti athygli mína í morgun og er kannski eitthvað sem maður þarf að taka til sín.

Það hringdi inn maður og hann sagði:

"Annað hvort ertu undirgefin eða yfirgefin."

Það er kannski málið ég hef ekki verið nógu undirgefin......

See ya!

föstudagur, maí 25, 2007

Hvað varð um sumarið?

Ég var á leiðinni í vinnuna áðan, á hitamælinum í bílnum stóð 2°C ég er ekki að ýkja og það er 25. maí. Svo svifu nokkur snjókorn niður til að auka enn áhrifin. Ég sem hélt að sumarið væri nú að koma. Skíðasvæðin eru opin fyrir norðan og það mætti halda að það væri að koma páskahelgi en ekki hvítasunnuhelgi.

Annars erum við stelpurnar á heimilinu, að hundinum meðtöldum, á leiðinni í veiði á Snæfellsnesi um helgina. Ég veit ekki hvað verður mikil veiði, vonandi einhver, litla skottið er ákveðin í að veiða fisk! Svo verður auðvitað fjör þar sem bróðir minn kemur með sína fjölskyldu og pabbi ætlar að skella sér með líka. Mamma afrekaði það að detta út á götu og merja sig soldið þannig að hún veit ekki alveg hvort hún treystir sér, kannski kíkir hún á morgun svona fram og tilbaka.

Jæja en sumarið kemur nú vonandi eftir helgi, hann Siggi stormur var eitthvað að tala um það í veðurfréttum í gær að sumarið kæmi á þriðjudag.

kv.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Stjórnarsáttmálinn

Vorum að skoða stjórnarsáttmálann inn á kaffistofu. Þó ég sé nú frekar hlynnt þessari stjórn þá get ég ekki orða bundist. Það er ekkert í þessum stjórnasáttmála, þetta er eins og að fara til spákonu, engar tímasetningar, engar upphæðir eða aðgerðir staðfestar, bara lýst yfir áhuga á að gera "ditten og datten". Og allt svakalega loðið.

Hljómar allt voða vel en hvað svo?

miðvikudagur, maí 23, 2007

Stjórnin!!

Já hvað sagði ég, við hérna á kaffistofunni vorum með þetta bara nokkuð rétt.
Allavega rétta fólkið ef skipt er um Ágúst Ólaf og Kristján Möller.

Þorgerður hélt áfram með menntamálin. Guðlaugur tók við heilbrigðismálunum, enda vanur maður þekkir vel inná heilbrigðiskerfið þar sem hann brenndist um jólin, varla hægt að finna hæfari mann og hvað þá konu sem kæmi nálægt því að hafa sömu reynslu!
Einar K. Guðfinns fékk landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið í bónus.
Björgvin fékk viðskiptaráðuneytið. Össur fékk iðnaðarráðuneytið. Þórunn fékk umhverfisráðuneytið (frábært). Kristján Möller fékk samgönguráðuneytið og Jóhanna tók aftur við félagsmálaráðuneytið nei, vitlaust það heitir velferðarráðuneyti.

Þetta er örugglega fín stjórn. Mér finnst samt að hægt hefði verið að finna fleiri hæfar konur í embættin. Það eru margar mjög hæfar konur til í sjálfstæðisflokknum og það hefði alveg verið hægt að finna allavega eina enn í ráðherraembætti þar.

Það er alltaf hægt að finna konu í manns stað. Ef viljinn er fyrir hendi!

þriðjudagur, maí 22, 2007

Ný ríkisstjórn?

Já, það bendir allt til þess að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós næstu dagana. Við hérna á kaffistofunni erum auðvitað búin að raða í ráðherraembætti að því gefnu að ráðuneytin verði óbreytt.

Það gæti nú gerst að "Solla stirða" og "Geiri níski" myndu breyta þessu þannig að þau myndu sameina landbúnaðar og sjávarútvegs ráðuneytin og hugsanlega bæta iðnaðarráðuneytinu inn í pakkann.

En allavega við veðjum á eftirtalinn lista
sjálfstæðismegin:

Geir, forsætisráðherra
Árni Matt., fjármála
Þorgerður Katrín, heilbrigðis
Einar K. Guðfinns., landbúnaðar
Björn Bjarnason, dómsmála
Guðlaugur Þór, iðnaðar
Sturla, forseti alþingis.


Samfylkingarmegin
Ingibjörg, utanríkis
Össur, sjávarútvegs
Jóhanna/Steinunn, félagsmála
Ágúst Ólafur, umhverfis
Þórunn, menntamála
Björgvin G , samgöngu

svo er spurning hvað við erum sannspá.

mánudagur, maí 21, 2007

Skyldi einhver lesa þetta blogg?

Skiptir það nokkru máli? Ég skrifa þetta svona fyrir sjálfan mig og mínar pælingar. Setti samt að gamni mínu upp teljara, veit ekkert hvort það virkar en það má allavega prófa. Kannski er ég sú eina sem les þetta? Allavega kvitta engir sem er kannski bara allt í lagi, því þá fengi ég svokallaðan "frammistöðukvíða" og þyrfti að fara að vanda mig. Þetta er svona skrifað til að fá útrás, ég veit eiginlega ekki fyrir hvað en svona pælingar. Auðvitað er maður í misjöfnu skapi og allt það þannig að það skín kannski í gegn í blogginu.

Annars hefur mér fundist að rithöfundar og bloggarar skrifi best þegar þeir eru í einhverri tilvistarkreppu. Þannig að það er kannski best fyrir listamanninn í manni að manni líði bara illa.

bless í bili

föstudagur, maí 18, 2007

Fordómar!!

Var að kíkja á blogg um daginn, svona einhver sem ég þekki ekki neitt, bara svona datt inn á síðuna. Þetta er greinilega frekar ungur bloggari en þar stóð nokkrun vegin (er búin að laga málfarsvillur og stafsetningavillur):

"..... hefur skilið einu sinni en það er allt í lagi, hann er samt skemmtilegur og stundum rosalega fyndinn!"

Er þetta ekki málið, það eru svo miklir fordómar gagnvart fólki sem hefur skilið. Það er örugglega eitthvað ekki í lagi hjá þeim eða hvað? Eru þau ekki bara eitthvað skrítin, leiðinleg eða hvað?? Kannski blunda þessir fordómar í mér sjálfri og maður þarf endalaust að sannfæra sjálfan sig um það að maður sé nú bara allt í lagi!

Lífið er skemmtilegt!

Er ekki um að gera að vera með svona jákvæðar blogfærslur?

En allavega ég fór á tónleika í gærkveldi á NASA, sá Tómas R. Einarsson og hljómsveit spila frábæra svona "latino" tónlist, maður var bara kominn á næturklúbb í Kúbu í anda. Svo kom þessi frábæra söngdíva frá Malí. Hún var líka æðisleg, og skemmtilegur takturinn í þessari Afrísku tónlist. Ég komst reyndar að því að "latino" takturinn á betur við mig, ég bara fer að iða og ég finn taktinn bara í maganum á mér, Það stafar sennilega af þessum Frakka sem eignaðist barn með langa langa .... langömmu minni og kallast Erlendur í ættfræðibókum og skildi eftir sig þessi dökkbrúnu augu sem einkenna móðurafa ættina mína. Mamma og ég erum líka með þau auk þess sem litla skottið mitt hefur þau líka. En bræður mínir og hin börnin mín hafa þau ekki.




En þessi afríski taktur er eitthvað erfiðari fyrir mig, hann er allavega ekki í blóðinu, enda engir afrískir sjómenn í aættartölunni hehehe.

mánudagur, maí 14, 2007

Að vera eða vera ekki...

í sambandi.

Mér var kurteislega bent á það að ég og "fyrrverandi" værum í sambandi þó við værum eiginlega ekki í sambandi.

Hvað á hún eiginlega við, jú henni finnst, eins og ég veit svo sem alltof vel, að við séum í miklu meira sambandi heldur en er okkur hollt. Við erum nú einu sinni skilin eða þannig.

Við finnum okkur milljón ástæður bæði tvö til að hringa í hvort annað með því yfirskini að við séum að ræða börnin og svo kemur eitthvað allt annað, svona bara til að heyra hvort í öðru.

Reyndar er þetta ekkert sniðugt og við vitum það, um leið og það þarf að ræða eitthvað viðkvæmt þolum við ekki neitt og húmorinn fýkur út um gluggann og við verðum pirruð á hvort öðru.

Ég skil þetta bara ekki. Við getum ekki slitið okkur frá hvort öðru, hvernig á maður eiginlega að geta haldið lífinu áfram og hugsanlega geta stofnað til nýs sambands þegar þetta gamla er svona mikið í gangi enn. Við erum hvorugt tilbúin að byrja saman aftur held ég. Ég held að ég sé tilbúin þar sem mér hefur aldrei fundist þessu vera lokið en hann er ekki tilbúinn og það þýðir þá að hann elskar mig bara ekki nógu mikið, ég verð þá bara að kyngja því, en þá er svo vont að tala svona mikið saman.

Æji mér líður eitthvað svo skringilega þessa dagana. Ég er eitthvað svo þreytt og stressuð. Þetta er búið að taka svo mikið á og taka svo langan tíma, ég hlýt að kikna undan þessu einn daginn.

föstudagur, maí 11, 2007

"Júróvision"

Eru ekki allir að blogga um "júróvision" í dag. Ég horfði á keppnina og lækkaði reglulega í græjunum því að sum lögin voru frekar erfið áhlustunar. En þetta var bara gaman, fékk mat frá Ávaxtabílnum (heimilisbílnum) skemmtilegt framtak það. Kíkið á avaxtabillinn.is. Svo var horft og Eiki var bara flottur og atriðið hreinlega var að springa úr "karlmennsku", engir hommar þar á ferð. En auðvitað fór þetta svo eins og mann grunaði, þetta er auðvitað bara klíka. Mér fannst til dæmis hollenska atriðið og söngurinn flottur og hefði verið sátt við að það lag færi áfram þó að Eiki rauði hefði orðið eftir heima en þannig fór um sjóferð þá. Ég hugsa samt að maður kíki á þetta á laugardaginn, verst að ég verð sennilega ein og barnlaus það kvöldið að horfa á "júróvision" nema einhver bjóði mér í mat. Svo er kosningarnar í framhaldinu, þær eru eiginlega miklu meira spennandi og ég fer pottþétt á kosningavöku hér í bænum.

Jæja allir svo kjósa rétt á morgun.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Stjórnmál

Já, það eru að koma kosningar. Ég er mikill stuðningsmaður ákveðins flokks og trúi því að hann sé það besta fyrir þjóðfélagið og budduna mína. En þannig er það bara maður fær alls konar athugasemdir og skot á sig og þarf sífellt að verja sinn málstað.

En það er svo sem í lagi. Ég er pínu hrædd við það að ef vinstri menn komist í stjórn aö þá hækki skattarnir aftur, hátekjuskattur verði settur á og eignaskattur. Þetta er kannski ekki svo hræðilegt ef tekju- og eignarmörkin sem miðað var við þegar þetta var við lýði væru ekki svona fáránlega lág!!

Svo kemur alltaf upp hjá manni að það sé kannski best fyrir þjóðfélagið að fá vinstri stjórnir annað slagið svona til að spreða soldið og koma hlutunum í gang þó þeir reikni málið sjaldan til enda og geti sjaldnast ráðið við að fjármagna allt dótið nema með lánum en þá er kominn tími til að skipta og fá hægri menn til að redda peningamálunum.

jæja svona er víst lífið

sunnudagur, maí 06, 2007

Opið samband!

Ég var á mjög skemmtilegu grímuballi í gær, þvílíkt fjör. Ég er rétt komin inn þegar þessi líka myndarlegi Mexícani gefur sig á tal við mig.

Við spjöllum aðeins og döðrum soldið, það sem var soldið fyndið var að hann var í svuntu undir Mexícana ponsjónum sem var með mynd af Davíð hans Michelangelo, þið kannist örugglega við þessa mynd en Davíð er með rosalega lítið og krúttlegt tippi og olli þetta mikilli kátínu, en jæja svo var dansað og haldið áfram að daðra. Allt í einu kemur í honum. "Þú gerir þér grein fyrir því að ég er giftur og konan mín er hérna." Ég varð svolítið hvumsa því það er örugglega það síðasta sem ég ætla mér að gera að reyna við giftan mann svona eftir það sem á undan er gengið. En jæja svo kom hjá honum svona í léttum tóni já við erum svona í opnu sambandi!!




Já það virðist loða soldið við menn á þessum aldri þ.e. rúmlega fertugir, þessi draumur um opið samband. Ég heyrði minn mann gantast soldið með þetta hér áður fyrr. Ég held að þessir menn vilji hafa sambandið svona opið í annan endann ekki hinn. þ.e. þeir vilja geta daðrað en ég er ekki viss um að þeir yrðu svo kátir ef konurnar þeirra færu að daðra við aðra kalla. En jæja svona fór um sjóferð þá. Ég þarf allavega ekki að hugsa um það að þessi maður hringi í mig!!

miðvikudagur, maí 02, 2007

Tík

Eins og fram hefur komið hefur heimilisfólkinu fjölgað hér um einn, þ.e. um tíkina. Ekki veit ég af hverju þetta orð tík hefur fengið svona niðrandi merkingu, það stafar örugglega af áhrifum úr ensku þ.e. (bitch), en ljúfari dýr er varla hægt að finna. Mér finnst þetta eiginlega vera leiðinlegt orð og nota það aldrei eða allavega mjög sjaldan, enda er ég nú kannski þannig manneskja að ég tala yfirleitt ekki mjög illa um fólk.
Málið er að tíkur eru mjög heimakærar og yfirleitt mjög ljúfar við börn og þá sem þær greina sem minni máttar. Svo héðan í frá mun ég ekki leggja mér orðið tík í munn í niðrandi merkingu.