mánudagur, desember 31, 2007

Upp er runninn Gamlársdagur.

Já þá er komið að því, uppgjör ársins. Ég verð stundum döpur á áramótum fannst oft þegar ég var barn rosalega sorglegt að árið skuli vera liðið. Sérstaklega í sálminum "nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur tilbaka".

En ég er eiginlega hálffegin að þetta ár er liðið, þó það hafi verið mun betra en árið þar á undan (2006) og árið þar á undan (2005) þá er ég sannfærð um að árið sem kemur á morgun verður miklu miklu betra en undanfarin ár. Mér líður einhvern vegin miklu betur núna en mér hefur liðið lengi. Ég er búin að vera stopp eitthvað svo lengi, nú ætla ég að stíga skrefin og halda áfram. Vitna hér í vitran mann sem sagði: "Öll ferðalög hvort sem þau eru stutt eða löng hefjast á sama hátt, þ.e. á einu litlu skrefi"!

Stíga svo skrefið krakkar!

sunnudagur, desember 30, 2007

Íþróttamaður ársins!



Ég er mjög glöð yfir þessu vali í þetta skipti, mér finnst Margrét Lára frábær fyrirmynd fyrir ungar stúlkur og frábært að það skuli vera kona sem vinnur þetta í ár. Ekki nóg með það heldur voru 2 konur af 3 efstu í valinu í þetta sinn, mér finnst Ragna badmintonkona frábær líka og hún á eftir að vinna þetta einhvern daginn.

Stundum hefur mér fundist eins og það væru engar íþróttir aðrar en fótbolti og handbolti hjá þessum háu herrum sem íþróttafréttamenn eru, jú auðvitað er Margrét Lára fótboltakona, en samt, hún er þó kona. Stundum finnst mér eins og þegar enginn hefur virkilega skarað framúr á árinu þá sé bara farið í gömlu skúffuna og valinn einhver svona sem er búinn að standa sig ágætlega blabla.. og enda þá oft í þeim sömu, auðvitað eru Eiður Smári og Óli Stef. frábærir ég ætla ekkert að mæla á móti því, en samt....

Áfram Margrét Lára!

föstudagur, desember 28, 2007

Restin af jólasveinunum!

Ég kom með fyrir nokkrum dögum jólasveina feminista, nú kemur restin af þeim.

Sá tíundi var Gluggagægir:



Sá ellefti var Gáttaþefur:



Sá tólfti var Ketkrókur:



Og sá þrettándi og síðasti var Kertasníkir:



Þar hafiði það, mér finnst þetta mjög góðir jólasveinar enda er ég örugglega feministi innst inni.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Jólahefðir.

Talandi um jólin, málið er að fjölskyldur skapa sér miklar hefðir í kring um jólin og þegar stofnað er til sambands tveggja einstaklinga, þá byrja miklar samningaviðræður um hvernig jólin eiga að vera. Þetta er mjög mikilvægt fyrir flesta, sumir eru vanir rólegum jólum á meðan aðrir eru vanir stórum fjölskylduveislum og miklu fjöri.

Allavega þegar fólk stofnar fjölskyldu, þá skapast ákveðnar hefðir, þegar fjölskyldur tvístrast þá þarf að skapa nýjar hefðir, eða ákveða hvaða hefðir af þeim sem gamla fjölskyldan hafði á að halda í og hvaða hefðir mega missa sín.

Það er bara þannig að þegar maður er búin að vera í sambandi í 20 ár, þá eru hefðirnar mjög ríkar og maður vill að börnin manns upplifi sömu hefðir ár eftir ár. Það er bara soldið erfitt að halda í allar hefðirnar þegar maður er einn að fylgja þeim eftir á móti því þegar við vorum tvö. Ég held að þetta hafi tekist ágætlega þetta árið, en þetta var soldið mikil vinna, ekkert afslappelsi eiginlega fyrr en á annan í jólum. Svona er þetta bara að maður vill að börnin sín eigi sín æskujól sem þau minnast og geta sagt seinna meir: "svona var þetta alltaf hjá okkur"!

Jólin!

Jæja, nú eru helstu hátíðirnar liðnar hjá og byrjaðir aftur svona "venjulegir" dagar, allavega fyrir suma! Ég er reyndar í fríi þessa tvo daga milli jóla og nýjárs.
Jólin gengur ágætlega bara, Aðfangadagur var mjög erfiður en hinir dagarnir bara fínir,. Það fylltist hjá mér húsið á Jóladag. En við héldum svona "litlu jólin" þá ég og börnin mín. Borðuðum veislumat um miðjan dag og opnuðum svo pakkana til hvors annars og frá fjölskyldu minni, við vorum langt komin með pakkana þegar pabbi og mamma mættu á svæðið með enn fleiri pakka. Svo stuttu seinna mættu tengdó eða fyrrverandi tengdó ef hægt er að kalla þau það. Ég sagði nú einhvern tíman að þau yrðu tengdó þar til ég fengi nýtt sett, þá skyldi ég kalla þau fyrrverandi. Um kvöldið kíkti svo bróðir minn og konan hans á okkur þannig að þetta var bara frábær dagur ;-).

Gleðilega rest!

föstudagur, desember 21, 2007

Jólagjafir!!

Váá, var að fá þessa allra stærstu ostakörfu sem ég hef séð í jólagjöf frá fyrirtækinu mínu! Þetta er alveg hrikalega stór karfa, fullt af ostum og bæði rautt og hvítt vín, auk konfekts ofl. ofl. Hvernig á ég eiginlega að fara að því að klára þetta allt saman. Jú ég er að fá gesti á Jóladag, get auðvitað boðið uppá osta og meðí þá. En það væri nú voða kósí ef maður hefði einhvern til að deila þessu með svona um helgina. Nú þyrfti ég að setja í smáauglýsingarnar, "Sárvantar myndarlegan karlmann til að borða með mér osta og koma niður soldið af rauðu og hvítu víni, helst í kvöld!!" Nei, nei, þetta er nú ekkert svo slæmt ég hlýt að koma þessu út einhvern vegin.

Ostur er veislukostur!

Brjóst!!

Nú er ég hneyksluð ég er það svo sem ekki oft, en þvílík brjóst, er það svona sem karlmenn vilja hafa okkur konur??



OK, ef þetta er málið þá er ég hætt og sný mér bara að stelpunum eða eitthvað.

Come on!!

Feministar og jólasveinar

Fékk í dag póst þar sem maður var að hneykslast á jólasveinunum sem feministar eru að setja fram. Ég veit það ekki mér finnst þetta soldið smart. Er eitthvað þarna sem við viljum ekki. Ég ætla fyrir mig og aðra að setja þetta inn hér.

Sá Fyrsti Stekkjastaur



Annar Giljagaur



Sá þriðji Stúfur



Sá fjórði Þvörusleikir



Sá fimmti Pottasleikir



Sá sjötti Askasleikir



Sá sjöundi Hurðaskellir



Sá áttundi Skyrgámur



Sá níundi Bjúgnakrækir



Mér finnst vera mikill húmor í þessu og mikil alvara, er eitthvað hér sem við erum ekki sammála??

Ég held að ég sé að verða feministi!!

miðvikudagur, desember 19, 2007

Jóla, jóla .....

Já þau nálgast nú óðfluga blessuð jólin, margir tala um jólastress, ég veit það ekki kannski er maður orðinn þetta gamall að maður nennir ekki að stressa sig um of á þessu. Jólin koma samt og alltaf eru þau jafnhátíðleg þó ekki hafi tekist að klára allt sem maður hafði hugsað sér að gera.

Ég hef aldrei skilið þessi allsherjarþrif sem sumir fara útí, skúra loft og veggi, svona í mesta skammdeginu, maður sér ekki einu sinni drulluna í þessari birtu, eða ekki birtu, það birtir nú eiginlega ekki neitt í þessari rigningu sem nú bylur á glugganum. Ég tek bara svona venjuleg helgarþrif, tek gólfin og salernið. Svo baka ég 3 tegundir af smákökum, eina perutertu, eitt svona bóndabrauð og bý til rauðrófusalat og ekki má gleyma ömmuísnum (mér finnst miklu skemmtilegra að elda og baka en þrífa ;-))

Ég á eftir að gera ísinn og þrífa, keypti jólatré í gær, veit ekki alveg hvenær ég á að skreyta það því það hefur verið hefð fyrir því á mínu heimili að það geri það allir saman, en nú verður pabbahelgi þannig að ég verð að gera þetta í kvöld eða á Þorláksmessu seinnipart áður en við förum til mömmu og pabba í hið árlega Þorláksmessuboð.

Aðfangadagskvöld er komið á hreint verðum ég og bróðir minn og hans kona og barn hjá mömmu og pabba. Soldið erfið jól hjá henni mágkonu minni hún missti mömmu sína í sumar bráðunga úr krabbameini, þannig að það eru fyrstu mömmulausu jólin hjá henni. Ég verð barnlaus og örugglega soldið meir þess vegna, við vonum að þetta verði nú ekki einhver grátkór þarna á Aðfangadag.... ÚBS... Nei, nei, við látum það nú ekki gerast.

Jæja jólin koma, jólin koma.......

þriðjudagur, desember 18, 2007

Jólakortin!

Ef það er eitthvað sem mér leiðist við jólaundirbúninginn þá eru það jólakortin ;-). Mér finnst ótrúlega gaman að fá jólakort og þar af leiðandi tími ég ekki að sleppa þeim, en mér leiðist svakalega að skrifa á þau og finna út hver á að fá og hver ekki, fletta upp nýjum heimilisföngum finna ljósmynd sem gæti gengið osfrv. osfrv. Ég er líka vön að senda nokkur bréf til Spánar síðan ég var þar skiptinemi fyrir rúmlega 20 árum síðan og þar segi ég svona hvað á daga mína hefur drifið síðasta árið eða svo. Þetta er líka eitthvað sem vex mér í augum.

Annars er ég svona verkefnadrifin manneskja, ég bara geng í hlutina og klára, og auðvitað endar það alltaf þannig með jólakortin, maður er búinn að vinna þetta milljón sinnum í hausnum á sér en svo loksins þegar maður gerir þetta þá er þetta ekkert brjálað mál, en alltaf þarf maður að vera á síðasta skiladegi :-(. Ég byrjaði í gærkveldi og fór með þetta langleiðina, á samt enn eftir að skrifa jóla- æji við köllum það bara áramótabréfin til Spánar þetta árið.

Jóla hvað.....

sunnudagur, desember 16, 2007

Leikhúsferðir

Ég var í leikhúsgírnum þessa helgina, fór á eina sýningu á föstudaginn þar sem 13-15 ára krakkar í Mosó unnu þvílíkan leiksigur í leikritinu "Þegar Trölli stal jólunum", af öðrum ólöstuðum var hún Harpa Ellerts stórkostleg í hlutverki Trölla. Búningarnir voru litríkir og sýndu mikla útsjónasemi, krakkarnir sungu frábærlega og þetta var bara í alla staði stórkostleg sýning, vonandi sjá hana sem flestir, en það eru enn nokkrar sýningar fyrir jól.

Í dag fórum við mæðgurnar svo inn í Hafnarfjörð og sáum "Ævintýrið um Augastein" þar sem Felix Bergsson fer á kostum svo sem eins og venjulega. Hann er æði, verst hann skuli vera "gay", hann er svo fallegur, brosið svo einlægt og yndislegt, svo syngur hann eins og næturgali. Mér finnst hann alltaf flottur, hann og Hilmir Snær eru sko mínir uppáhalds leikarar, þó að mörgu leyti séu þeir ólíkir.

Drifið ykkur nú í leikhúsið.

föstudagur, desember 14, 2007

Skvísur!!

Jæja þá er saumaklúbburinn búinn, gekk bara vel, meira að segja hundurinn gat hagað sér almennilega eða nokkurn veginu, hún þurfti að heilsa gestunum einum of mikið að flestra mati en eftir það var hún nokkurn vegin til friðs.

Það voru svo sem engar djúsí sögur úr saumó í þetta skiptið, bara verið að ræða börnin og hvað þau séu að gera. Einnig komumst við að því að við hljótum að vera svaka pæjur. Ein okkar á son sem er 19 ára, hún fór niður í vinnu til hans um daginn með eitthvað sem hann hafði gleymt. Þegar hún var farinn sagði víst einn samstarfsfélagi hans, líka mjög ungur, við hann hvurslags voða skvísa þessi systir hans væri hehehe...... Sonurinn svaraði víst með snúð, hvað er eiginlega að þér þetta er mamma!!

Önnur sagðist nú vera svo hrikalega barnaleg að hún þyrfti nú að fara að gera eitthvað í þessu. Hún hafði lent í því um daginn í Þýskalandi í einhverri veislu að fólkið sem var um þrítugt sem sat við borðið þrætti við hana og vildu meina að hún væri nú ekki deginum eldri en 26, þó hún segðist hafa verið kennari í menntaskóla í 10 ár áður en hún fór útí eigin rekstur!! Henni fannst þetta 26 vera nú einum of....

Ég hitti eina um daginn sem á son sem sonur minn lék sér oft við hérna í den. Hún var eitthvað að segja mikið og segir svo, heyrðu .....mín við erum nú komnar á þann aldur og svo lét hún móðan mása en bætti svo við, ekki þannig meint, ég veit að þú ert nú þó nokkrum árum yngri, en ég og svo hélt hún áfram, þegar hún hafði lokið máli sínu samþykkti ég þetta allt saman enda mikil viska fólgin í orðum hennar en bætti svo við, fyrirgefðu en hvað ert þú eiginlega gömul? Hún svaraði keik, að hún yrði nú fertug á næsta ári og væri þá opinberlega kominn á fimmtugsaldurinn. Ég leiðrétti hana þá með þetta þó nokkrum árum yngri og hún hló og sagðist ekki trúa mér en bætti svo við, mikið rosalega líturðu vel út......


hehe....
með skvísu kveðjum.

fimmtudagur, desember 13, 2007

Jólasveinar!!!

Fékk sent alveg geðveikan link á video um daginn, verð bara að láta hann koma hérna.

"Ofurmamma"

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort þetta viðurnefni sé nógu gott. Þetta er allavega ekkert voðalega "sexý" hehehe.....

Það sem ég hugsaði þegar ég tók það upphaflega árið 2004 var að maður var í fullu starfi frekar svona krefjandi, með 3 börn sem ekki voru orðnir unglingar þá, þar af eitt innan við eins árs og svo þurfti maður að standa pligtina sem mamma alls staðar. Það voru tónleikar, fótboltamót, sundmót, leiksýningar, fara með barnið á skíðaæfingar upp í fjöll og ýmis konar uppákomur, auk þess sem við hjónin þurftum nú endalaust að vera að skutla og sækja í allar þessar tómstundir.

Stundum féllust manni bara hendur og manni fannst maður ekki vera að lifa fyrir sjálfan sig heldur börnin! (það er spurning hvort það er undirrót skilnaðarins). Nú hefur maður svo sem uppskorið ávöxt erfiðisins, enda sýnir það sig að þessir krakkar mínir eru í fremstu röð hvar sem þau koma. Var meira að segja að fá hrós frá deildastjóra leikskóladeildar yngstu stelpunnar um hvað hún væri "flott", eins og hún orðaði það, tæki þátt í öllu væri alltaf til í allt, og svaka dugleg farin að skrifa nafnið sitt og meira aðeins 4ra ára. Húrra fyrir henni! Strákurinn er að standa sig með prýði í menntaskólanum og sú í miðjunni er nú bara frábær, ég er að fara að horfa á hana á morgun leika í "Þegar Trölli stal jólunum" í Bæjarleikhúsinu og hlakka mikið til. Set hér inn mynd af þeim stóru systkinunum, sem tekin var á frumsýningunni á sunnudaginn.


miðvikudagur, desember 12, 2007

Rauðvínsdrykkja

Ég var í tölvunni seint í gærkveldi og fæ þá meldingu á MSN frá vinkonu minni í útlöndum. Ég svara og spyr hvort hún eigi ekki að vera farin að sofa fyrir löngu enda klukkan að verða miðnætti hérna hjá mér. Hún svaraði því til að jú hún væri nú orðin soldið syfjuð en það væri örugglega rauðvíninu að kenna sem hún hefði drukkið um leið og hún skrifaði jólakortin! Góð....

En þá fór ég að hugsa, ég keypti mér jólabjór frá Tuborg sem hefur verið algjörlega ómissandi á mínu heimili síðan við bjuggum í Danmörku, ég keypti svona kassa með 10 litlum dósum í. Það er örugglega 2 vikur síðan og ég er búin að klára 1 ég segi og skrifa einn bjór!! Svo safnast rauðvínið bara fyrir hérna uppí hillu, því ég á það til að grípa eina og eina flösku í ríkinu. Þetta er agalegt ástand, mér finnst ekkert gaman að drekka ein svo mig vantar sárlega félaga í þessa drykkju alla saman. Það er spurning um að setja í einkamáladálka dagblaðanna. "Óska eftir myndarlegum karlmanni til að drekka með rauðvín á síðkvöldum!" haldiði að það myndi virka hehehe.....

skál.......

Formaður í "ráði"

Ég fékk upphringingu um daginn og hver haldiði að það hafi verið jú frú Umhverfisráðherra. Hana vantaði verkfræðing og konu til að stjórna ákveðnu ráði sem er ráðgefandi fyrir ráðuneytið.
OK, ég sagðist nú ekki hafa neina þekkingu á málefninu sjálfu en það var víst ekki aðalatriðið, þar sem ákveðinn stjóri sæji um þetta allt saman. Þá kom spurningin hvað þetta væri mikil vinna og svarið var nokkrir fundir á ári. Ég tók mér nóttina til að hugsa þetta en sagði svo já og í dag er fyrsti fundur hjá þessu nýja ráði og ég er með smá kvíðahnút í maganum, þar sem hinir aðilarnir í ráðinu eru allt karlmenn og þar á meðal Borgarstjóri, Brunamálastjóri, Slökkviliðsstjóri, ofl. ofl. Alls 8 manns.

En ég hef nú verið að berjast í því alla tíð að konur fái jöfn tækifæri á við karlmenn og meta skuli menntun en ekki kyn osfrv. osfrv. Ég gat engan vegin skorist undan þessu það hefði brotið gegn öllum mínum lífsskoðunum.

Jæja frú formaður.

þriðjudagur, desember 11, 2007

"Saumaklúbbar"

Það vita það nú allir heilvita menn að "saumaklúbbar" eru sko engir sauma klúbbar heldur tilefni vinkvenna til að hittast og spjalla yfir góðum kræsingum.

Það stendur til að halda einn slíkan hér hjá mér á fimmtudagskvöldinu, sem þýðir auðvitað tiltekt og pælingar í réttum og kökum. Reyndar ber mér skylda til að hafa perutertuna mína, annars verð ég rukkuð um hana, svo er ég búin að baka nokkrar smákökur og sörur, og er svo að spá í einn brauðrétt og osta. Er það ekki bara fínt?

Það sem er aftur að angra mig er að allar þessar dömur eru giftar og það í öllum tilfellum vel giftar auk þess sem þær eru þrælmenntaðar upp til hópa (við erum með lækni, flugstjóra, verkfræðinga, heilbrigðisfulltrúa, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, viðskiptafræðing osfrv.) þannig að allar búa þær mjög vel sko ekkert minna en 200 fermetrar þar, ég hugsa að þær fái innilokunarkennd í þessari litlu íbúð minni þar sem við búum öll 5 þ.e. ég, börnin og hundurinn.

En, veitingarnar skulu allavega vera í lagi og húsið hreint þó lítið sé.

"Bon appetit"

mánudagur, desember 10, 2007

Afgreiðsludama!

Fór í Krónuna á Bíldshöfðanum áðan á leiðinni heim, þar eru komnir sjálfsafgreiðslukassar. Vááá æði, nú getur maður leikið sína eigin kassadömu og skannað allt inn, vigtað grænmetið og sett í poka. Þetta er draumaaðstaðan fyrir svona stelpur eins og mig sem alltaf hefur dreymt um að verða afgreiðslukona á afgreiðslukassa eða gjaldkeri í banka!!! Húrra fyrir Tóta frænda.

Það gera 2652 krónur!

Týndu teskeiðarnar

Ég hef svo sem talað um unglinga hér áður en ég á eina dóttur sem er 14 ára, hún er ekkert alltof áköf að taka til inni hjá sér og það geta liðið vikur án þess að það sjáist í gólfið í herberginu hennar, en sem betur fer er hurð á herberginu og ég loka henni bara. Ég fann það út fljótt að ég væri löngu búin að tapa geðheilsunni ef ég ætlaði að vera að æsa mig yfir þessu drasli inni hjá henni endalaust. Jæja ég hótaði nú um daginn að taka mynd af herberginu og setja hana hér inn, sú var fljót að láta myndavélina hverfa!!!

Ok, aftur að titli bloggfærslunnar. Ég stóð inní eldhúsi hjá mér í gær og var að taka uppúr uppþvottavélinni, þegar því var lokið voru einungis 3 teskeiðar í skúffunni, ég var soldið hissa því ég var viss um að ég ætti fleiri teskeiðar. Kallaði á krakkana og spurði hvort þau væru með einhverjar teskeiðar inni hjá sér eða hvort þau vissu til þess að hafa hent svona 10 stk. teskeiðum. En nei, nei, þau voru bæði sakleysið uppmálað. Jæja ég furða mig á þessu en tilkynni svo dótturinni að mig langi í teskeiðar í jólagjöf!!

Stuttu seinna sé ég hvar hún er að laumast með gula plastpoka úr draslinu inni hjá sér og viti menn í þessum plastpokum voru teskeiðar, ein í hverjum poka. OK, hún fer nefnilega oft með jógúrt, engjaþykkni (OK, ég veit að það er glás af sykurmolum í þessum vörum en samt) oþh. í skólann og þá þarf teskeið með til að borða þetta. Hún tók sig semsagt til að tók aðeins til í herberginu sínu og fann nokkrar teskeiðar, "nokkrar" þær voru alls 9 stk.

Skrýtið að þeim skyldi hafa fækkað í skúffunni hjá mér!

Yfirvigt

Hljómar ekki sérstaklega vel þessi titill minn, en málið er að líf mitt er í svo föstum skorðum að ég sé yfirleitt sama fólkið alla daga og fer á sömu staði. Síðastliðið föstudagskvöld fór ég ásamt vinnunni á jólahlaðborð eins og tíðkast oft í desembermánuði. Við borðuðum á fínu hóteli hér í bæ og voru þarna margir hópar samankomnir, bæði aðrir vinnustaðir og vinahópar.

Þarna var stórt hringborð með 10 manns og allir vel undir þrítugu. Mér varð svolítið starsýnt á það því allar konurnar við borðið voru mjög "stórar". Sama átti við þegar við fórum svo í bæinn að tjútta svolítið, allflestar "ungu" konurnar voru í yfirvigt og það engri smá. Mér ferst svo sem að tala með mín 15+ kíló sem mættu alveg fara. En ég get þó keypt mér föt í venjulegum búðum og ég er búin að eiga mín 3 börn sem í mjög mörgum tilfellum bæta kílóum á mæðurnar. En þessar ungu stúlkur eiga í mörgum tilfellum eftir að eiga börnin og þá bætast kannski 10-15 kíló ofan á þau 100+ sem þær eru með nú þegar.

Það var einn kostur við þetta en það var sá að ég fílaði mig bara svaka "pæja", sem er nú afskaplega gott fyrir sjálfstraustið.

Ég veit að þetta er mjög svo fordómafullt blogg. En "comon" hvert er heimurinn eiginlega að fara?

föstudagur, desember 07, 2007

Jólahlaðborð

Jæja, þá er komið að hinum árlega viðburði en það er jólahlaðborð fyrirtækisins, í morgun fengum við útborgaðan svokallaðan 13ánda mánuð, sem er svona jólabónus hjá okkur auk þess sem okkur var tilkynnt að bónusinn í ár yrði greiddur út í janúar og hann innihéldi 10% af brúttólaunum þetta árið. Ekki slæmar fréttir það.

Í viðbót við þetta var tilkynnt að á nýju ári yrði svo farið að vinna í því að fjölga hluthöfum í fyrirtækinu þ.e. völdum starfsmönnum með starfsreynslu yrði boðið að kaupa sig inn í fyrirtækið. Þetta er nú eitthvað sem er búið að tala um síðastliðin ár og mér var einu sinni boðið þetta en svo bakkað með það aftur en nú er þetta obinber stefna þannig að ég verð örugglega fyrst á listanum þar sem ég hef unnið hér lengst allra.

OK, maður þarf þá að finna leiðir til að fjármagna þetta en það kemur allt í ljós hvernig þetta verður útfært.

Maður verður kannski eigandi að verkfræðistofu einn daginn hehehe.....

fimmtudagur, desember 06, 2007

Kaffivélin

Kaffivélin bilaði hér á mínum vinnustað í dag, það þýðir eiginlega bara eitt "disaster", í ofanálagt er hið vikulega kaffi í fyrramálið, þetta verður bara neyðarástand. Enda kom í ljós að það voru allir farnir heim fyrir kl. 17:00 í dag nema við sem ekki drekkum kaffi...

mánudagur, desember 03, 2007

Sendirinn!!

Það getur verið ótrúlega gaman hérna hjá okkur í hádeginu, við erum nú ekki mörg sem vinnum hérna en kaffistofuumræðan getur verið alveg sprenghlægileg og maður hefur sko grátið úr hlátri.

Yfirleitt tekst okkur að snúa umræðunni uppá lægra plan, þ.e. svona neðanmittis en þetta getur verið alveg ótrúlega gaman. Í dag kemur frá einum samstarfsfélaga mínu að það vilji enginn halda framhjá með honum :-( svona frekar súr á svipinn og bætti við ég sendi örugglega ekki réttu bylgjurnar frá mér, tek það fram að þessi maður er mjög vel giftur svo það er ekki málið. Þetta vatt svo uppá sig og ég sagðist ekki vera búin að "tjúna" sendinn hjá mér, það hlyti að fara að koma. Samstarfskona okkar toppaði svo málið með því að segja eitthvað á þá leið að hún hlyti að vera með þennan sendi "tjúnaðann" alltaf hún væri bara alltaf að lenda í því að einhverjir væru að reyna við sig og hún harðgift manneskjan hefði sko ekkert með þessa kalla að gera!! Einn bætti líka við að hann næmi sko ekki þessar bylgjur en konan sín væri sífellt að benda á einhverjar konur sem væru að gefa honum hýrt auga, hann bara fattaði þetta ekki og þá varð niðurstaðan sú að hann væri með bilaðan móttakara!! hehehe.....

Við hlógum soldið að þessu, en svo var farið útí það að ræða jeppa sem vill oft verða frekar eldfimt efni á kaffistofunni þar sem 3 eiga Ford jeppa þar á meðal þessi sem hóf umræðuna með bylgjurnar, en Toyota jeppafólkinu finnst það nú ekki vera jeppar. Þannig segir þessi samstarfskona mín í gríni að hún skyldi bara bjóða hinum í Þórsmörk til að sanna jeppana. OK segir hann fljótur að grípa, bara við tvö??? Já ef þú endilega villt segir hún. Þá lítur hann á hana íbygginn, jæja þá nú ert þú búin að kveikja á sendinum................

Maður ætti kannski að fara að tékka á þessum sendi, hann hefur svo sem verið óvirkur í rúmlega 20 ár, þannig að kannski er hann bara ónýtur...................

Radíóamatör kveðjur!

Ef ég nenni......

Ég var kannski heldur svartsýn þarna fyrir helgi, þ.e. þetta með jólastuðið. Það er aðeins að koma, ég bakaði piparkökur með stórfjölskyldunni á föstudagskvöldið og svo var húsið skreytt að utan með seríum á laugardaginn og að lokum settum við saman aðventukrans ég og dóttirin svo þetta er kannski allt að koma. Þarf að fara að huga að jólagjöfunum. Er sko ekki byrjuð en samt eiginlega búin að afgreiða alla nema bræður mína og konur þeirra.

Titill bloggsins vitnar til eitt af uppáhaldsjólalögunum mínum en það er með Helga Björns.

Kannski koma jólin bara eftir allt saman......