sunnudagur, mars 30, 2008

Sinfóníutónleikar á laugardegi.

Fór á mjög skemmtilega sinfóníutónleika í gær með Skottinu, sáum og hlustuðum á tónleika sem voru sérstaklega fyrir börn og heita "Maxímús músíkrús". Stórkostlega gaman. Skottið skellihló og skemmti sér mjög vel.

Frábært framtak hjá Sinfóníunni.

Miðborgin á sunnudegi!

Ég átti leið niður í Ráðhús í dag, þar er bæði mjög skemmtileg ljósmyndasýning á vegum Fókus og mjög falleg málverkasýning með málverkum eftir Ólöfu Pétursdóttir.

Ég hringsólaði í a.m.k. 20 mínútur um miðbæinn að leita að bílastæði! Þarna keyrði ég fram hjá nokkrum svæðum með tómum stæðum sem eru greinilega í einkaeigu því þau voru lokuð með stórum slám. Bílastæðahúsið í Ráðhúsinu var lokað og bílastæðahúsið við Vesturgötu var eitthvað bilað og opnaðist ekki. Loksins fékk ég stæði á bílastæðinu við Bæjarins bestu pylsur. Þarna voru tugir ef ekki hundruðir bíla að leita að stæði á sama rólinu og ég og annað eins lagt ólöglega upp á gangstéttum.

Svo eru menn hissa á því að "buisness" í miðbænum gangi illa, það er bara ekkert skrítið að eini reksturinn í miðbænum sem gengur vel séu öldurhús bæjarins þar sem allir sem koma þangað koma og fara í leigubíl og þurfa ekki að hafa áhyggjur af bílastæðum.

Svo kemur þetta hefðbundna, afhverju tekur fólk ekki bara strætó. Strætó?? Hann gengur aðeins einu sinni á klukkutíma allavega í mínu hverfi á sunnudögum og það þýðir að ferðin í bæinn eða heim getur tekið óratíma ef maður þarf að skipta um strætó á leiðinni og allir vagnarnir ganga á klukkustunda fresti, come on.

Ég átti nú líka erindi í miðbæinn um miðjan virkan dag um daginn og það var alveg sama sagan, engin stæði. Það þýðir nú bara að einu viðskiptavinirnir sem nýta sér þjónustu í miðbænum séu þeir sem búa eða vinna í mibænum!

Bjargið miðbænum áður en það er of seint!

fimmtudagur, mars 27, 2008

Hætti vorið við?

Ég var komin í voðalegan vorfíling um daginn, loftið var eitthvað svo milt og vorlegt, maður fann alveg lyktina af vorinu. En æji það hætti við, eða hvað? Kannski soldið bjartsýnt að halda að það sé að koma, ekki nema endaður mars en samt, tíminn flýgur áfram. Kannski maður ætti að hætta að bíða eftir vorinu og skella sér bara á skíði um helgina?

Ekki spurning eða hvað?

þriðjudagur, mars 25, 2008

Líf á öðrum hnöttum?

Hverjum hugsandi manni dettur í hug að það sé ekki líf á öðrum hnöttum?
Út í geimnum erum milljarðar stjörnubrauta sem innihalda milljarða stjarna! Dettur einhverjum í hug að við séum svo einstök hér á þessum hnetti að hér hafi skapast svo einstakar aðstæður til að skapa líf að það þekkist ekki neins staðar annars staðar? Come on...

Rakst á mjög svo áhugaverða grein í Mogganum í morgun sem hét Líf á öðrum stjörnum?. Þarna er talað um að fundist hafi merki um efnið metan á stjörnu sem ber heitið HD 189733b og er í sólkerfinu Vulpecula og er aðeins í 63 ljósára fjarlægð! Alheimurinn er sko margar milljónir eða milljarðar ljósára frá einum enda til annars eða óendanlega stór og við erum strax búin að finna merki um líf á stjörnu sem er aðeins í 63 ljósára fjarlæð, ég meina 63 er tala sem allir skilja!

En þarna eru menn líka að tala um líf eins og við þekkjum það með sömu efnasamböndum og hér þekkjast. Hver segir að ekki geti verið til líf sem samanstendur af allt öðruvísi efnasamböndum og þrífst við allt annað hitastig en við þekkjum þ.e. miklu heitara eða miklu kaldara.

Ég ætla að vitna í einn mesta speking á þessu sviði hann Carl Sagan en hann sagði:
"The universe is a pretty big space. It's bigger than anything anyone has ever dreamed of before. So, if it's just us, seems like an awful waste of space, right?"

Einnig sagði hann:
"Absence of evidence is not evidence of absence."

Algjör snilli ekki spurning!

mánudagur, mars 24, 2008

Hátíðir og hefðir.


Við mannfólkið erum uppfull af hefðum, endurtekningum og reglum. Einhvern vegin kemur þetta eðli okkar best í ljós þegar stórhátíðir eru í gangi. Hvort sem það eru Jól eða Páskar þá eru t.d. börnin vön einhverju ákveðnu og það má alls ekki breyta útaf. Hér áður fyrr fórum við stórfjölskyldan nokkur ár í röð í sumarbústað yfir Páskana, stóru krakkarnir mínir muna mjög vel eftir þessu og þetta varð ómissandi hluti af Páskunum. Þegar svo aðstæður breyttust og fjölskyldan stækkaði var þessi möguleiki ekki lengur fyrir hendi, en í staðin hittumst við öll einn dag í sumarbústaðnum hjá foreldrum mínum borðum kalkún sem pabbi eldar af einskærri snilld og felum páskaeggin. Þetta er orðin órjúfanleg hefð á Páskum núna og Skottið talar um þetta hálft árið.

Svona er þetta bara, við erum ekkert skárri fullorðna fólkið, við viljum hafa hlutina svona en ekki hinsegin, sérstaklega þegar kemur að svona hátíðum. Lítið bara í eigin barm.

miðvikudagur, mars 19, 2008

Eigum við ekki bara að jarðsetja Krónuna?

Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða ástand efnahagsmála hér á þessu blessaða landi okkar þessa dagana.

En ég get nú ekki staðist mátið, sumir segja að bankarnir stjórni þessu alfarið, þeir vilji sjá krónuna svona lága þannig að uppgjör þeirra komi vel út á næsta ársfjórðungi, því þeir eiga svo mikinn gjaldeyri, hmmm.... við hin blæðum bara á meðan. Það er líka spurning hvort Þeir séu að knýja fram myntbreytingu hér heima.

Við ákváðum eiginlega að jarðsetja Krónuna hér í hádeginu áðan, ég held að við séum nú ekki ein um þá skoðun, það er spurning af því að það eru páskar hvort hún nær að rísa upp á 3ja degi hehehehehe....

mánudagur, mars 17, 2008

Afmæli



Það var enn ein afmælisveislan hér um helgina, nú voru það krakkarnir úr leikskólanum sem komu í heimsókn. Þau komu hérna 7 stykki 5 ára gömul ofsalega prúð og góð og virkilega gaman að hafa þau. Skynsamir krakkar.
Greinilega er mikið vor í krökkunum og ástin blómstrar, kortin frá strákunum sýndu merki þess full af blómum og hjörtum. Soldið fyndið þegar 5 ára dóttirinn fullyrðir að hún eigi kærasta þ.e. einn af þessum prúðu drengjum er semsagt kærastinn hennar. OK, sagði ég hvað þýðir það? Jú við kyssumst og svona. Jahá það er greinilega mikið fjör að vera 5 ára í dag ;)

fimmtudagur, mars 13, 2008

Aumingja Atli Gísla!

Heyrði í morgun viðtalið við Atla Gísla í Íslandi í býtið. Mér finnst þetta vera léleg blaðamennska að slá því svo upp að hann vilji fyrr sjá lögreglumann skotinn en sjá lögregluna vopnaða skotvopnum. Málið er bara að ofbeldi er svarað með ofbeldi, bófarnir sitja hugsanlega á sér að skjóta á lögregluna ef þeir vita að hún er óvopnuð, þannig að ég er sammála honum um það að það eigi að draga það sem lengst að vopna lögregluna.

áfram Atli.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Vor í lofti!

Mér finnst vera komið soldið vor í loftið, það er að hlýna og snjóinn farið að taka upp allavega á götunum í mínu bæjarfélagi. Vona reyndar að hann haldi í fjöllunum yfir páskana.

Skottið á afmæli í næstu viku og einhver snillinn (þ.e. ég) sagði við hana einhvern tímann að hún ætti afmæli þegar vorið væri komið. Mér fannst reyndar í síðustu viku að þetta væri ansi bjartsýnt hjá mér, sérstaklega af því hún var sífellt að minna mig á það að hún ætti bráðum afmæli og þá væri komið vor, en úti var frost og snjór. Í dag aftur á móti stend ég í þeirri trú að ég hafi ekki verið að ljúga að barninu þegar ég sagði að hún ætti afmæli á vorin!

Bráðum kemur blessað vorið......

þriðjudagur, mars 11, 2008

Bílpróf!

Jæja, stóri strákurinn minn fékk bílprófið í gær! Hann er búinn að bíða eftir þessum degi lengi. Til hamingju með það elsku kallinn minn!

Ég sé reyndar fram á mikla sæludaga, nú þarf hann aldeilis að dekra við mömmu sína til að fá bílinn lánaðann. Hann má ekki lengur setja upp svip þegar ég bið hann að viðra hundinn eða gera eitthvað annað viðvik hérna heima. Hehehehe....

Við erum nú buin að vera í æfingaakstri vikum og mánuðum saman og ég held að hann sé ágætisbílstjóri, varð vör við það í gær þegar ég sat í bílnum hjá honum að um leið og æfingaaksturs skiltið fer aftan af bílnum þá hætta hinir bílarnir að taka tillit til hans, þannig að í raun ætti að vera annað skilti sem þau gætu notað fyrstu vikurnar eða mánuðina sem segði "Nýr ökumaður". Er búin að koma þessu að hjá forvarnarfulltrúa tryggingafélags og hann var innilega sammála mér, vonandi gerist eitthvað í þessum málum í framhaldinu! ;-).

Frændi hans fékk bílpróf um daginn og var 8 daga slysalaus, stóri bróðir hans var alveg 4 daga slysalaus! Það er spurning hvað minn nær að halda þessu lengi!

Eini gallinn við þetta er að hér á heimilinu er bara einn bíll, og mér finnst ofboðslega óþægilegt að hafa engann bíl svona heimavið þannig að þetta verður sennilega soldið púsluspil þegar allt verður á botninn hvolft. Verð að vera komin með aukabíl þegar dóttirin fær bílprófið eftir 2,5 ár það er alveg á tæru.

Takið nú tillit til hvors annars í umferðinni!

mánudagur, mars 10, 2008

Húrra Stefanía!


Eins og ég hef sagt frá hér áður þá virkar þetta heimili mitt stundum eins og félagsmiðstöð, vinir sonarins eiga hér athvarf og er oft fjölmennt hér. Einn af þessum vinum sonar míns er yndið hún Stefanía. Hún er reyndar kærasta eins vinarins, en er og sérstaklega var mjög oft hér inni bara að chilla með syninum eða þeim félögunum.

Hún er bara yndisleg, sá hana fyrst syngja fyrir tveimur árum og söng hún þá m.a. "My name is Tallullah" í uppsetningu Lágafellsskóla á "Bugsy Malone" sem gekk hér vikum saman í bæjarfélaginu. Hún var bara frábær þar! Svo er hún í hljómsveit sem heitir "Bob Gillan og strandverðirnir" og hafa þau verið að gera það ágætt á böllum í bænum og á útihátíðum. Í sumar sá ég hana á hátíðinni "Í túninu heima" ásamt einum hljómsveitarmeðlima og voru þau svona eins og götusöngvarar, hún heillaði alla þar.

Um helgina vann hún Samfés! Ég sá hana áðan í sjónvarpinu þar sem hún söng lagið "Fever" og ég fékk gæsahúð. Hún er bara frábær! Vonandi nær hún eins langt og hún hefur áhuga á, í þessum bransa.

Gangi henni vel!

Helgin og rör

Helgin var nokkuð strembin, þær verða það stundum þegar maður ákveður á halda svona fjölskylduafmæli. Málið er að tvö af börnunum mínum eru í stjörnumerkinu "fiskar" sem þýðir að þau eiga afmæli þessa dagana, ég hef verið vön að bjóða fjölskyldunni til þeirra svona í sameiginlegt afmæli. Þannig að í stað þess að fara á skíði í Skálafelli í blíðunni eins og ég gerði í síðustu viku, fór laugardagurinn í að undirbúa afmælið og á sunnudeginum var svo afmælið haldið og fór næstum allur dagurinn í það.

Í dag vorum við Skottið svo heima, hún fékk nefnilega rör í eyrun í morgun. Ég vona að eyrnaverkurinn verði nú ekki eins slæmur og helst ekki til staðar næst þegar eyrnabólgudraugurinn lætur sjá sig.

Ég man vel þegar elsta barnið mitt var svæft í fyrsta sinn, ég fór bara fram á gang og grét, mér fannst eins og hann myndi aldrei vakna aftur, þetta var frekar óhugnanlega lífsreynsla. Nú er maður orðinn svo sjóaður í þessu að ein svæfing til eða frá skiptir ekki máli.

Skottið vaknaði brosandi, hvernig er hægt að vakna brosandi af svæfingu?? Veit það ekki! Hún er bara svo lífsglöð, hún leit á mig, brosti og sagði, "ég hélt ég væri heima", svo bætti hún við: "læknirinn sagði að það kæmi lakkríslykt, þetta var ekki"lakkríslykt heldur tyggjólykt", bara yndisleg.

föstudagur, mars 07, 2008

Mömmugildra!

Já það hafa verið miklar umræður í bloggheimum og víðar um þetta nýja útspil borgarstjórnarinnar í Reykjavík að greiða foreldrum sem eru að bíða eftir plássi hjá dagmömmu eða leikskóla bætur fyrir. Svona einhvers konar heimgreiðslur.

Væri ekki nær að nota þessa peninga í það að byggja fleiri leikskóla? Ég bara spyr. Reynslan frá nágrannalöndunum sýnir það að það eru yfirleitt mæðurnar sem eru þá heima með börnin en mennirnir fara á vinnumarkaðinn.

Yrði þetta ekki stórt skref afturábak í jafnréttisbaráttunni? Það segir sig sjálft að þegar foreldrar standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að annað þeirra þurfi að vera heima til að passa börnin af því ekki fæst dagvistunarúrræði fyrir þau, að þá yrði það tekjulægri einstaklingurinn sem tæki það að sér. Hér á þessu landi eru launakjörin því miður þannig að í langflestum tilfellum væri það móðirin sem yrði heima.

Þannig að þetta er svona "mömmugildra".

miðvikudagur, mars 05, 2008

Kvennaslóðir

Til er vefur sem....., OK, vitna bara í hvernig þetta er orðað á heimasíðunni þeirra:

Kvennaslóðir

Um Kvennaslóðir

Kvennagagnabankinn kvennaslóðir inniheldur upplýsingar um kvensérfræðinga á ýmsum sviðum. Markmið kvennaslóða er að gera þekkingu og hæfni kvenna sýnilega og aðgengilega.

Kvennaslóðir er vettvangur fjölmiðla, fyrirtækja og stjórnvalda til þess að finna hæfar konur til margvíslegra starfa með skjótvirkum hætti.


En þessi síða getur alveg verið stórsniðug held ég. Ég er ásamt mörgum allavega búin að vera á lista þarna í mörg ár, en það vantar kannski markaðssetninguna á þetta. Ég hef aldrei séð neitt á þennan vef minnst neins staðar, ég veit bara af honum því við vorum svona tilraunadýr í þessu. En allavega þið sem lesið þetta rugl mitt, veit eiginlega ekki hverjir það eru, en allavega einhverjir því teljarinn mjakast nú uppávið, látið vita af þessu, held að þetta geti verið soldið sniðugt.

Stelpur koma nú skrá sig inn.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Dear penis

OK, fullyrti í gær að ég ætlaði að tileinka þessa vikuna konum, en ég get bara ekki staðist mátið.





hehehe.....

Einstæðar mæður

Sá í Mogganum í gær að talað var um að einstæð móðir hefði unnið lottóvinninginn! En gott, hugsa flestir þetta kom þá á góðan stað. Ég efast ekkert um það og óska þessari heppnu konu innilega til hamingju, það er bara hitt. Þessi stimpill sem einstæðar mæður hafa á sér, þær eiga varla til hnífs og skeiðar og búa í félagslegu húsnæði, geta hvorki leyft sér né börnunum sínum neitt. Þvílíkt kjaftæði.

Auðvitað eru þær margar í þessari stöðu og alls ekki öfundsverðar af því, en það eru margar sem hafa það bara alveg ágætt, eru með góða menntun í góðri vinnu og lifa bara fínu lífi.

Engann aumingjaskap hér!

mánudagur, mars 03, 2008

Lukkunar pamfíll!

Ég held ég tileinki þessa síðu konum, þessa vikuna allavega.
Var að horfa á fréttir, þar var talað um lukkunar pamfíl. Ég held að ég sé svoleiðis!

Mér var ekki eytt sem fóstri af því ég var stelpa, ég fékk að upplifa æsku án þess að vera misnotuð, ég var ekki gefin eða seld, ég fékk að læra að lesa, ég fékk meira að segja að ganga í menntaskóla og síðar háskóla. Ég hef aldrei upplifað dag þar sem ég er svöng af því það var ekkert til að borða heima, ég hef ávallt haft óheftan aðgang að vatni, og ekki bara vatni heldur hreinu vatni. Ég hef ekki upplifað stríðsátök, ég hef alltaf átt skó á fæturna, hrein föt og heil. Mér hefur meira að segja verið gefin ný leikföng. Ég hef aldrei orðið fyrir ofbeldi, enginn sem ég þekki hefur verið myrtur í klíkuátökum, ég er heilbrigð, ég á heilbrigð börn og ég á foreldra á lífi.

Ég er lukkunar pamfíll, það er engin spurning!

sunnudagur, mars 02, 2008

Konur vantar!

Konur flytja í stórum stíl frá Landsbyggðinni á mölina hér á Höfuðborgarsvæðinu. Það er skortur á konum út á landi. Dofri Hermannsson var að tala um þetta í hádegisfréttunum og benti svo mönnum á að aðeins karlar sæktu fundi um skipulagsmál og á meðan þeir sætu hér á þessum fundi, sem var á Vestfjörðum, væru konur þeirra, dætur og systur að pakka niður í tösku til að flytja suður.

Það er mjög áhugavert að spá í þetta. Sá iðnaður sem allir eru að berjast við að fá í sína heimabyggð þ.e. álver og olíuhreinsistöð höfðar ekki til kvenna, allavega flestra kvenna sem vilja helst vera í þjónustustörfum allavega fullyrti hann það.

Blogg Dofra

Auðvitað eru fullt af konum sem eru tæknimenntaðar og gætu fengið vinnu við þennan iðnað en það er spurning hvort þær ná að draga eiginmenn og fjölskyldur út á land til að sækja vinnu. Það hefur þótt eðlilegasti hlutur, ef eiginmaðurinn fær gott starf út á landi þá fylgir auðvitað kona og fjölskylda með til að hann geti sinnt sínum metnaði og öðlast frama í starfi. Þá kemur spurningin er það jafn eðlilegt í huga fólks að konur geti dregið mann og fjölskyldu út á land til að sinna sínum frama?

Kynbundið ofbeldi


Þegar ég fletti Mogganum í morgun, tók ég eftir þessum fiðrildum. Þetta er greinilega herferð gegn kynbundnu ofbledi, sem er alveg frábært. Hugsið ykkur að sums staðar á stríðssvæðum er konum nauðgað þannig að þær eignist börn af röngum kynþætti og þarmeð verði þeim útskúfað úr sínu eigin samfélagi. Þetta þekktist í fyrrum Júgóslavíu þegar Serbar nauðguðu Bosnískum stúlkum og konum og þetta er að gerast víða í Afríku þar sem mismunandi þjóðflokkar stríða.

Tenging á síðu UNIFEM

Púff þetta er bara rosalegt. Vildi bara vekja ykkur til umhugsunar.