miðvikudagur, apríl 30, 2008

Bullblogg

Fór á mjög svo skemmtilegan fyrirlestur í morgun, þar fjallaði Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands um ímynd verkfræðinga.

Hann tók þetta soldið almennt, skipti hlutunum upp í lög. Í neðsta laginu var svona verkfærin, efnið, ofl. ofl. sem nauðsynlegt er að hafa tök á, síðan fór hann í næsta lag fyrir ofan þar koma hugtökin og slíkt. Þá var komið að speglinum, bakvið spegilinn kom svo sköpunin, ímyndunaraflið og slíkt, eru verkfræðingar með eitthvað slíkt? Í efsta laginu var svo órarnir, og "borderline" geðveiki. Hann vildi meina að við værum öll þarna í neðstu lögunum, sumir kæmust upp í efri lögin, en það er bara miklu auðveldar að gera það undir áhrifum, áfengis eða fíkniefna hehehe....

Ég túlkaði þetta þannig að við værum afskaplega heppin því við komumst í öll lögin, það er erfiðara fyrir þá sem eru aðallega í efri lögunum að komast í þau neðri.

Jæja nú er ég búin að týna ykkur öllum semsagt bara bullblogg.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Sitt lítið að hverju.

Sko, ég skil nú ekki þennan klikkaða kall þarna í Austurríki. Vá maður, raunveruleikinn kemur manni sífellt á óvart og í ljós kemur að hann er oft miklu verri heldur en nokkur skáldsaga eða sjónvarpsefni Púff....

Nú er allt vitlaust í Bolungarvík, gaman að svona fjöri í pólitíkinni. Sjálfstæðismenn mjög svo ánægðir með nýja meirihlutann þó að A-listinn sé upphaflega klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum og manni skilst að "hnífasettin" hafi fengið að fjúka þarna á milli. Svo fengu þeir smá bakþanka, því nú þurfa þeir að segja Grími Atlasyni upp starfinu sem bæjarstjóra og eru þá kannski að hrekja hann í landsmálin en hann er svo flottur fulltrúi Samfylkingarinnar þarna á Vestfjörðum og með mjög mikinn "kjörþokka". En Sjálfstæðismenn vantar einhvern flotttan til að leiða sinn flokk þarna. Allavega verður þetta fróðlegt allt saman og gaman að fylgjast með framhaldinu.

föstudagur, apríl 25, 2008

Tækniframfarir

Fór á mjög svo skemmtilegan fyrirlestur á síðasta vetrardag, þar hélt Ólafur Andri Ragnarsson aðjúnkt við HR erindi um internetið og tækniframfarir. Meginatriðið var semsagt það að við erum rétt að byrja í tækniþróunarbrautinni og framfarirnar eiga eftir að verða gífurlegar í framtíðinni. Hann sýndi skemmtileg myndbönd um ýmsa hluti og benti okkur á síðu sem heitir TED.com þar sem hægt er að nálgast ýmsa fyrirlestra um framtíðina í tæknimálum. Allavega fór maður út og hugsaði með sér að það ætti þvílíkt eftir að gerast í þessum heimi á næstunni að tækning í bíómyndum eins og Matrix, Minority Report, Starwars og Star Trek urðu allt í einu ekkert svo fjarstæðukenndar.

Háspennumöstur




Fór á mjög svo skemmtilega móttöku hjá Landsneti á síðasta vetrardegi.

Þeir efndu til samkeppni um nýtt útlit á háspennumöstrum meðal almennings og arkitekta. Menn vissu nú kannski ekki hvað þeir væru að fara útí en fengu um 100 tillögur alls staðar að úr heiminum. Hugmyndirnar voru margar mjög góðar, skemmtilegar og athyglisverðar. Sumar virka reyndar ekki í raunveruleikanum en það er kannski ekki aðalatriði, sumt af þessu væri hugsanlega framkvæmanlegt eftir nokkur ár með nýrri tækni og slíku.

Mér fannst þetta mjög klókt hjá þeim í Landsneti að gera "óvininn meðsekan" þar sem megnið af arkitektum og slíku eru umhverfissinnar og viðurkenndi nú einn gamall samstúdent fyrir mér að margir arkitektarnir væru það og hann sjálfur væri nú meðlimur í "Framtíðarlandinu".

Klókir hmm.....

Gleðilegt sumar!

Jæja, þá segir dagatalið okkur að sumarið sé komið. Hef reyndar fulla trú á að það sé á næsta leyti, það liggur í loftinu.

Var hugsað til sonar míns þegar ég sá að 17 ára gamall piltur hefði verið tekinn á alltof miklum hraða á Suðurlandinu, minn er nefnilega með "hraðakstursgenið". Hvorki ég né pabbi hans getum keyrt á löglegum hraða, þurfum alltaf að vera aðeins yfir. Pabbi hans hefur reyndar lent nokkrum sinnum í því að vera sektaður fyrir vikið en ég hef sloppið hingað til. Var reyndar stoppuð í fyrra en þeir höfðu ekki náð mér á filmu þannig að ég slapp sem betur fer, ók soldið hratt hmmmm.....

heyrumst

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Evróvisionmyndbandið

Nú er allt að verða vitlaust yfir nýja myndbandinu með Eurobandinu. Ég verð nú að viðurkenna það að ég hló og hló þegar ég sá það fyrst en það er kannski bara ég, ég er með svo skrítin húmor hehehe...

Auðvitað er það hommalegt, og það er auðvitað ákveðin áhætta í þvi að hafa hlutina hommalega því það eru svo margir með "hommafóbíu". En ég meina það, hvar er húmorinn? Lagið er ágætt en ég geri mér svo sem engar vonir um einhvern frábæran árangur í þetta sinn frekar en áður, enda skiptir það ekki máli, bara hafa gaman að þessu. Mér hefur reyndar alltaf fundist Regína frábær söngkona, en það er spurning hvort hún fær almennilega að njóta sín í þessu lagi og verði ekki kaffærð af hommunum. hehehe....

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Helgin í stórum dráttum

Menntskælingurinn og Gelgjan fóru með Pabba sínum til London um helgina. Þessi ferð var ákveðin fyrir löngu en krakkarnir fengu hana í jólagjöf. Þarna var farið á fótboltaleik og allt. Mér skilst að þetta hafi allt verið mjög gaman og mjög svo velheppnuð ferð í alla staði.

Ég aftur á móti fór vestur til Ólafsvíkur á "vetrargleði" eins og það er kallað. Þetta var mjög fínt, matur og allt auk heimagerðrar skemmtunar sem samanstóð af ABBA lögum og búningum. Skemmtunin hefði mátt vera aðeins styttri og frekar að leyfa fólki að dilla sér við ABBA tónlistina. Þetta var mjög gaman, ekki skemmdi fyrir að ég þekki þó nokkra þarna og stafar það af því að fyrrverandi er frá Ólafsvík þannig að þarna var maður auðvitað undir ströngu eftirliti hehehe....

Ég gæti nú ekki hugsað mér að búa þarna en Snæfellsnesið er nú samt alveg dásamlegt á vorin, sumrin og haustin.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Börn og skyldur!

Það gerist nokkuð oft núna að Skottið er að leika sér í skotinu sínu með dúkkur, þær eru háttaðar á hverju kvöldi ofan í rúm með snuddur. Hún situr með þær í fanginu og talar við þær ósköp ljúfmælt. Segist ekki nenna að gefa þeim brjóst svo þær verði bara að fá pela osfrv. Við hin eldri sem heyrum þessar samræður eigum oft soldið bágt með okkur og um daginn var hún hjá afa sínum og leit hún á hann þegar hann gat ekki haldið niður í sér hlátrinum lengur og spurði sposk af hverju hann væri að hlæja, hann var nú fljótur til og sagði að það hefði verið eitthvað svo fyndið í sjónvarpinu, hún keypti það og hann slapp í það skiptið. Það sem nefnilega gerist ef hún uppgötvar það að það er einhver að hlusta á hana er að hún fer öll í kerfi og hættir leiknum.

Fyrir mig, mömmuna, getur þetta stundum verið soldið óþægilegt, sérstaklega þegar hún er að siða dúkkurnar eða skamma þær þá eru sko notaðar nákvæmlega orðrétt sömu skammarræðurnar og hún fær eða systkini hennar þegar þau haga sér ekki nákvæmlega eins og mamma vill.

Gærdagurinn var soldið svoleiðis, ég er hálftuskulega þessa dagana, með hálsbólgu og höfuðverk og pottþétt með einhverjar kommur í hita en hef ekki gefið mér tíma til að mæla mig og er alls ekki nógu veik til að liggja bara heima undir sæng. En það sem gerist er að þráðurinn verður afskaplega stuttur og maður getur æst sig yfir hlutum sem maður annars tæki nokkuð létt. Skottið fékk að fara með vinkonu sinni heim úr leikskólanum og svo kom ég að sækja hana um hálfsjöleytið, búin að útbúa matinn og hann beið bara eftir okkur, kartöflurnar og grænmetið soðið og fiskibollurnar tilbúnar í ofninum. En þá gerðist það að þær vinkonurnar stungu af á meðan ég spjallaði við foreldrana og fóru á róluvöllinn og það kostaði alveg hálftíma að koma Skottinu heim þaðan.

Unglingurinn hringdi í mig rúmlega hádegi og sagðist vera kominn heim og spurði hvenær ég kæmi heim, ég sagðist ekkert koma fyrr en rúmlega 5 og þá dæsti hann. Hann nennti nefnilega ekki að taka strætó á æfingu svo hann bara sleppti henni. Ég sagði honum nú að fara og viðra hundinn í góða veðrinu en minn maður var steinsofandi þegar ég kom heim og var ekki búinn að fara með hundinn og ekki búinn að taka úr uppþvottavélinni sem þó er eina skylduverk þeirra systkinana.

Auðvitað röflar maður í svona tilfellum, hann fór ekki með hundinn fyrr en að ganga tíu. Gelgjan var að vinna eitthvað verkefni fyrir skólann og byrjaði auðvitað ekki á því fyrr en um tíuleytið í gærkveldi, á sama tíma og ég var að reyna að sannfæra Skottið um að nú væri sko löngu komin nótt og hún þyrfti að fara að sofa til að vakna í leikskólann. En á meðan ég var að þessu var Gelgjan sífellt að spyrja mig hvað hitt og þetta þýddi á ensku en hún var að nota einhverja enska vefsíðu sem heimild. Ég bara fékk nóg, ég á alltaf að vera tilbúin að aðstoða, fæ skammir ef ekki er búið að þvo þær buxur eða bol sem á að nota á þeirri stundu og ef ég hef ekki keypt "rétt" inn þ.e. vantar eitthvað sem þeim þykir gott, ég fékk líka að heyra það að ég gleymdi tónleikum sem Gelgjan var að spila á, ég held að það séu fyrstu tónleikarnir sem hún spilar á sem ég mæti ekki á síðan hún hóf tónlistarnám sitt níu ára gömul! En þær litlu skyldur sem lagðar eru á þeirra herðar eru vanræktar út í eitt og svo er bara rifið kjaft. Ég á stundum ekki til orð og hugleiði það mjög þessa dagana að segja upp starfinu sem mamma!!

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Olíuhreinsunarstöð?

Mér líst eitthvað voðalega illa á olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Olía er eitthvað svo óumhverfisvæn og mér finnst bara hættan á slysi vera of mikil. Þarna yrðu hundruð skipa árlega að flytja olíu til og frá landinu í gegnum einhver gjöfulustu fiskimið okkar Íslendinga. Ef eitthvað kemur fyrir eru helstu fuglabjörg Evrópu í hættu auk fiskveiðanna.

Ekki skánaði tilhugsunin þegar ég horfði á Kompás í gærkveldi, þarna er eignahaldið sennilega í höndum á rússneskum viðskiptajöfrum sem kalla nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum og hafa allt annað siðgæði í viðskiptum en þau sem við þekkjum.

Ef við viljum halda byggð þarna á Vestfjörðum verður auðvitað eitthvað að koma í staðinn. En það er líka spurning um að gera Vestfirði bara að þjóðgarði, friða bara svæðið eins og það leggur sig. Umhverfissinnarnir yrðu nú ánægðir með þá tillögu ekki satt??

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Nýfædd


Verð að segja ykkur frá því að ég eignaðist litla frænku í gærkveldi. Hún er soddan prímadonna að hún lét bíða eftir sér í 10 daga en svo kom hún bara einn, tveir og þrír þegar hún var loksins tilbúin hehehe....

Hún er rosa heppin, á tvær frábærar stóru systur sem eru 12 og 15 ára og yndislegan stóra bróðir sem er 14 ára og fermdist í vor, aðalmálið var hvort prímadonnan myndi láta sjá sig áður, en það gerðist ekki, sem betur fer. Svo á hún yndislegan hund og mjög svo sérvitra kisu..... Svo ekki sé talað um æðislega foreldra.

Innilega til hamingju elskurnar mínar.

mánudagur, apríl 14, 2008

Berlusconi!



"Uppáhalds" stjórnmálamaðurinn minn er hinn ítalski Berlusconi, hann er alveg stórkostlegur, það sem honum dettur í hug að láta út úr sér.

Hann er náttúrulega karlremba dauðans og sagði um daginn að: "Eigir þú í fjárhagsvandræðum skaltu giftast milljónamæringi"
Svo sagði hann að hægrisinnaðar konur væru fallegri en þær vinstri sinnuðu.
Hann líkti þýskum evrópuþingsmanni við nazistaforingja.
Fullyrðir að ítalskur matur sé betri en finnskur.
Svo á hann fótboltalið auðvitað ekki hvaða fótboltalið sem er, heldur AC Milan.
Hann hefur fullyrt að ítalskir dómarar séu allir geðveikir og "mannfræðilega" öðruvísi.
Hann hefur verið kærður fyrir mútur og fjársvik, kallaður mafíósi osfrv.
Hann er ríkasti maður Ítalíu og á flesta fjölmiðla þar í landi sem hann stýrir og ritskoðar.

En samt já samt sýnist mér Ítalir vera búnir að kjósa hann og hans flokk aftur til að stjórna Ítalíu.

Það er nú ekki í lagi með þetta lið.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Vor í lofti!

Já, nú er ég nokkuð viss á því að vorið sé rétt handan við hornið, samt sjóaði í nótt og allt hvítt í morgun en ilmurinn af vorinu liggur í loftinu. Þegar vorið kemur þá lifna ég líka, hmmm hef kannski verið blóm í fyrra lífi....

Allavega er með sól í hjarta og söng á vörum núna þegar birtir. Fékk frábæran póst frá frábærri frænku minni og verð bara að setja hann hérna.


Vissir þú.....

.... að ef gínur í búðum væru raunverulegar konur væru þær of grannar til þess að fá blæðingar?

.... að af 3 milljörðum kvenna í heiminum eru aðeins u.þ.b. 10 súpermódel?

.... að Marlyn Monroe notaði stærð 14 (ameríska, sem er sama og 44 í evrópu) og hafði alla karlmenn í vasanum án þess að nokkur kvartaði yfir kílóunum á henni?

....að ef Barbie væri alvöru kona væri hún svo vansköpuð að hún yrði að ganga á fjórum fótum?

.... að konur eru að meðaltali 65 kíló (ekki hávaxnar) og nota stærðir 12 til 14 (amerískar = 42-44 í evrópu)?

.... að ein af hverjum 4 konum á háskólaaldri þjáist af einhverskonar átröskun?

.... að fyrirsæturnar í glanstímaritum og sjónvarpi eru lagaðar til í tölvu eða fiffaðar með lýsingu og ljósmyndatrikkum?

.... að rannsóknir hafa sýnt að fimm mínútna lestur glanstímarita veldur þungu skapi, skömm og sektarkennd hjá um 70%kvenna

.... að fyrirsætur fyrir 20 árum voru 8% léttari en konur almennt?

.... að fyrirsætur í dag eru 23% léttari en konur almennt?


Fegurð konunnar er ekki hægt að smækka niður í mælieiningar heldur felst hún í þeirri útgeislun sem ástin á sjálfri sér veitir hverri og einni.

-Fegurð felst í þroska og góðri sjálfsímynd og fer einungis batnandi með árunum.

-Spurningin er ekki um fatastærðir, kílóafjölda, hæð eða háralit, heldur er hún spurning um að læra að elska sjálfa sig frá toppi til táar.

-Hjálpumst að við að ýta undir góða sjálfsímynd hvorrar annarar. Við erum allar æði...........og ekki gleyma því!

Jæja elskið nú hvort annað og þið konur, elskið spegilmynd ykkar.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Smá pirringur!

Mér finnst það hálfgerð móðgun við okkur hin þegar Geir skammast í vörubílstjórum og kallar þá ofbeldismenn þegar þeir loka bílinn hans inni. Við hin höfum þurft að þola það og gert það með jafnaðargeði að bíða bara þar til mótmælunum linnir, en forsætisráðherra landsins æsir sig uppúr öllu valdi.

Svo þetta einkaþotumál, ég meina er það ekki bara í góðu lagi að nýta sér þá þjónustu sem býðst, ef það sparar manni tíma og þá um leið pening. Ég held að þetta sé bara öfund þegar fólk er að bölsótast útí þetta. Skil það bara ekki.

Svo eru það allir þessir læknar í mikilvægum stöðum. Bæði núverandi og fyrrverandi borgarstjóri eru læknar, við erum með dýralækni sem fjármálaráðherra til að passa (sauð)fé ríkisins.

Nenni ekki að æsa mig meira.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Kreppa?

Er að koma kreppa? Veit það ekki, en mér finnst fólk samt soldið farið að hugsa um hvað það gerir við peningana sína.

Ein samstarfskona mín tilkynnti það í hádeginu að hún hefði tekið sig til í gærkveldi og sagt upp öllum áskriftum af öllum blöðum og tímaritum á sínu heimili. Gott hjá henni, ég er einnig með áskrift af einhverjum blöðum og tímaritum maður ætti kannski að skoða þetta, reyndar er ég með svo stóra krakka að þau eru með skoðanir á öllu þannig að það er ekki víst að ég fengi að segja öllu upp. En OK, það má skoða þetta.

Hér er ekki mötuneyti þannig að hver kemur með sitt nesti til að snæða í hádeginu og þar má glöggt sjá samdráttinn, fólk er greinilega búið að skipta út Búlluborgaranum, Nings núðlunum og Sómasamlokunum fyrir ódýrar súpunúðlur úr Bónus og bollasúpur frá Knorr snætt með þurru brauði.

Já það er svona með okkur almenninginn sem ekki getum tekið okkur til og selt jeppana eða hætt að snæða á Holtinu í hádeginu. Hmm.... ein pæling ef ég ætti jeppa sem ég vildi selja í sparnaðarskyni, vill eða getur einhver keypt jeppa í dag?