föstudagur, janúar 16, 2009

Stríð í Palestínu


Stríðsátök eru eitt það alversta sem kemur fyrir þennan heim. Náttúruhamfarir eru auðvitað hræðilegar en hitt er miklu verra, þar eru menn að drepa menn. Auðvitað hefur það fylgt manninum frá upphafi að hann taki upp vopn til að verja sig, sitt og sína og kristilega hugarfarið að rétta hinn vangan brýtur svolítið gegn mannlegu eðli. Það sem Gyðingarnir segja og Víkingarnir sögðu forðum þ.e. "tönn fyrir tönn" eða að hefna bróður síns er mun nær því sem er í eðli okkar, en það heldur einmitt þessu ástandi gangandi. Reyndar finnst mér að Ísraelar séu ekki að hlusta á sjálfan sig í þessu máli því þeir eru að taka heilu tanngarðana fyrir eina tönn ef marka má hlutfallið í mannfalli í hvoru liði fyrir sig.

Það er eitt ljóð sem fær mig alltaf til að tárast og mér finnst lýsa þessu ástandi sem nú ríkir í Palestínu en það er ljóðið "Slysaskot í Palestínu (Í víngarðinum)" eftir sómaskáldið Kristján frá Djúpalæk og er eftirfarandi


Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Annað ljóð fann ég á síðunni sem Félagið Ísland-Palestína heldur úti.

SVAR FRÁ ÍSRAEL

Arabarnir klaga og kveina
og krakkar þeirra elta okkur með steina
Við getum ekki svarað þeim sí svona
við sendum flugvélar með sprengjur, góða kona.

Að ég hafi myrt arabadreng
eins og um var kvartað.
Ég gerði honum ekkert
sendi bara kúlu gegnum hjartað.

Gunnar Valdimarsson 2000


Getum við ekki gert eitthvað til að stoppa þetta óþarfa blóðbað?

Engin ummæli: