miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Börnin og kreppan

Eins og dyggir lesendur mínir vita á ég litla Skottu... hún er 5 ára reyndar bráðum 6 segir hún sko.

En þar sem hún er langyngst af sínum systkinum gerist það einhvern vegin að hún verður fullorðnari en árin segja til um og stundum líður manni eins og hún sé 55 en ekki 5.

Hún fylgist mikið með fréttum og það er kannski alveg ástæða til að fylgjast svolítið með því sem hún sér og heyrir því þetta er allt tekið og krufið til mergjar. Ég varð svolítið hissa þegar ein samstarfskona mín, sem á börn á svipuðum aldri og Skottið, sagði við mig um daginn: "Hvað leyfirðu henni að horfa á fréttir?" Ég hélt bara að öll börn horfðu á fréttir, enda kannski ekki annað í boði þegar foreldrarnir eru að horfa á fréttir í aðalsjónvarpstæki heimilisins. Það hefur allavega oft verið sögð sagan af mér sjálfri þegar ég var að diskutera Watergate málið við fullorðinn frænda minn þá aðeins 9 ára gömul.

Svo syngur hún ABBA, hún kann öll lögin og textana líka (svo langt sem það nær þegar maður kann hvorki að lesa né tala ensku) úr myndinni "Mama mia" og það er líka fylgst mjög vel með eurovision og þar á hún sitt uppáhaldslag og kann auðvitað alla textana.

En talandi um Skottuna, hún var í bíl hjá föður vinkonu sinnar þegar það kom í fréttunum að stjórnin væri fallin. Þá heyrist í henni svona stundarhátt "Sjúkket, þá hætta mótmælin". Um daginn við eldhúsborðið kemur svo "Mamma, ég hata kreppuna!". Samt hefur nú ekki "kreppt" mikið að hér á okkar heimili. Svo segir hún við mig áðan "mamma ég man ekki eftir fyrri kreppum". Ég fæ svona á tilfinninguna að kreppa sé eitthvað skrýmsli eða dýr.

Engin ummæli: