laugardagur, maí 29, 2004

Hvítasunnuhelgi

Jæja, nú er komin hin margumtalaða Hvítasunnuhelgi. Frábært að fá svona langa helgi. Nú þegar maður er orðinn fullorðinn er þetta ekkert sérstök helgi en þegar ég var yngri og á kafi í skátunum var alltaf skátamót hjá Hraunbúum (skátafélaginu í Hafnarfirði) á Hvítasunnunni nema hún væri mjög snemma þá var mótið flutt aftur um eina helgi eða tvær. Þetta voru góð skátamót og alltaf gaman en nær undantekningalítið rigndi viðstöðulaust á þessum skátamótum. Ég man að fyrsta mótið sem ég fór á þá var ég sennilega 9 fór ég ásamt vinkonu minni og pabbi hennar kom og tjaldaði fyrir okkur, við vorum langfyrstar af Víflurunum (Vífill skátafélagið í Garðabæ) og svo byrjaði að rigna og loksins komu hinir, en þá var vinkonan orðin svo leið að hún lét pabba sinn sækja sig strax um kvöldið og hún átti tjaldið!! En stóru strákarnir leyfðu mér að vera með sér í tjaldi því ég vildi ekkert fara heim. Þetta var fyrsta skátamótið mitt og ég var nú ekkert á því að gefast upp!

Mín auðvitað þrjóskust! Seinna fór ég svo oft sem stór foringi með fullt af krökkum á Hraunbúamótin og einu sinni man ég að mótinu var frestað vegna rigningar!! Þá mundi ég eftir mínu fyrsta móti og við fórum öll saman í skála Vífils eina nótt svona til að allir fengju nú að klára mótið.

Hugsið ykkur þarna var ég 9 ára og með prímus og nesti, fiskbúðing til að steikja og pulsur til að sjóða! Ég leyfi ekki einu sinni krökkunum mínum í dag 10 og 13 ára að kveikja á gaseldavélinni í eldhúsinu heima! Er maður ekki alveg í lagi?

Ég held að krakkar í dag geti gert mikið meira en þau eru látin gera eða þeim hreinlega leyft. Er maður ekki að hefta þessa krakka?

Hafið það nú gott um helgina.

kv.

Engin ummæli: