föstudagur, júní 22, 2007

Að sofa saman

Ég veit það ekki en fyrir mér er það svolítið mikilvæg athöfn. Maður sefur nú ekki hjá hverjum sem er!! Ég hef svo sem ekki átt marga bólfélaga yfir ævina og hef því kannski ekki mikla reynslu í magni eða fjölda bólfélaga en ég hef soldið langa lífsreynslu í þessu enda orðin öldruð mjög. En allavega finnst mér þessi athöfn "að sofa hjá" vera ákveðin ástarjátning. Ég veit ekki hvort strákarnir líta það sömu augum en hjá mér og flestum konum er þetta þrungið tilfinningum.

Ég byrjaði að fikta við þetta 16 ára, og auðvitað finnst mér það vera í allra fyrsta lagi. Nú er sonurinn kominn á þennan aldur og ég kom að honum með vinkonu sinni undir sæng eitt kvöldið heima. Ekki veit ég nákvæmlega hvað þau voru að gera, en þau voru allavega að kela soldið.

Ég ábyrg móðirinn sest svo hjá drengnum mínum við tækifæri og fer að brydda upp á umræðuefninu. Þetta var pínu vandræðalegt en ég hóf þetta svona á þennan hátt.

ÉG: "Maður á ekkert að sofa hjá fyrr en báðir aðilar eru alveg tilbúnir!" (sagt með áherslu)
Hann: "Ég veit"
Ég: "Svo verður maður að nota smokkinn!"
Hann: "Ég veit"
Ég: "Ég er alltof ung til að verða amma"
Hann: "Ég veit"
Ég: "Það þýðir sko ekkert að treysta á einhverja örugga daga eða slíkt"
Hann: "Ég veit"
Ég: "Þannig varðst þú til!"

Þarna var hann farinn að skellihlæja og ég með, ég er greinilega ekki besta manneskjan í uppfræðslu um kynlíf, en hann má svo sem treysta á það að ég stend með honum hvað sem kemur fyrir.

Engin ummæli: