laugardagur, ágúst 30, 2008

París

Já París er yndisleg, kom heim í dag eftir mjög góða og fróðlega viku. Ráðstefnan var bara mjög góð og Íslendingarnir sem voru á henni auðvitað ennþá betri. Skemmti mér mjög vel, borðaði alltof mikið en náði að drekka nokkuð í hófi.

Strax á laugardagskvöldinu þegar komið var út fórum við fjögur saman út að borða og svo drifum við okkur þrjú á "Barra Latino" í Bastilluhverfinu en þar er mjög góður dansstaður, fyrst fannst mér ég vera svona í eldri kantinum, en strákunum þarna fannst það ekki og stóðu í röðum að fá að dansa við mig þannig að ég ákvað það að allir séu 25 ára í París hehehe......

Sunnudagurinn fór í það að horfa á leikinn! Já leikinn maður, handboltaleikinn, ég pantaði mér morgunmat uppá herbergi og horfði á strákana okkar taka silfrið. Frábært, þó auðvitað hafi maður verið svekktur í nokkrar mínútur eftir leikinn en "se la vie". Seinnipartinn var svo setning ráðstefnunnar og drykkir í boði hússins.

Svo hófst alvara lífsins og maður sat á fyrirlestrum frá 8:45 - 12:00 og svo frá 14:00 - 18:00 og á milli og eftir fór maður á þessa svakalegu sýningu þar sem allir framleiðendur og þeir sem yfir höfuð koma nálægt bransanum voru að kynna sig alls u.þ.b. 150 básar hver öðrum flottari.

Í gær semsagt á lokadegi ráðstefnunnar var nú hætt aðeins fyrr og ég var komin uppá hótel um fimmleytið, klæddi mig í strigaskó og ljósar buxur og fór í langan göngutúr, enda veðrið dásamlegt.

Komst reyndar að því í gær að maður á ekki að vera einn í París, eiginlega alveg óháð því hvað maður er hrifinn af borginni, maður á að vera ástfanginn í París. Annars verður maður bara soldið dapur. Þarna eru allir ástfangnir, haldast í hendur og kyssast á götuhornum, allur aldur allt frá jafnöldrum Unglingsins og jafnvel Gelgjunnar í eldra fólk á aldur við foreldra mína.

En svona er lífið, það er ekki á allt kosið hmmm......

Engin ummæli: