fimmtudagur, október 30, 2008

Einar Már og reiðin í samfélaginu.

Einar Már er mjög góður rithöfundur og ég hef lesið nokkrar bækurnar hans og haft gaman að. Ljóðin hans er líka góð. Las greinina sem hann skrifaði í Moggann, á þriðjudag held ég að það hafi verið, hann er svo sem ekki að segja neitt nýtt bara að ausa úr skálum reiði sinnar. Það eru margir í þjóðfélaginu í dag sem eru reiðir. Jú, ég get alveg skilið það, en ég vil ekki verða reið. Hef reynt það að vera reið og það er afskaplega slítandi, tætir mann í sundur og rænir mann orku.

Í þessu máli öllu hef ég ákveðið að vera ekki reið, stíga frekar eitt skref afturábak og horfa yfir sviðið, reyna að hjálpa til við að finna lausn á þessu í stað þess að rífa allt niður. Bylting er ekki lausnin, það skiptir ekki máli þó við hengjum 20 og fangelsum 100 það breytir ekki því sem búið er að gera. Og mér finnst bara að við ættum öll að leggjast á eitt og ausa bátinn áður en hann sekkur alveg. Þegar jafnvægi er komið er sjálfsagt að setja af stað óháðar rannsóknir og þá meina ég óháða utanaðkomandi rannsókn, ekki þýðir að láta þessa menn róta í undirfataskúffunum hjá hvor öðrum, kjósa og skipta um menn í brúnni í Seðlabankanum, bara ekki ákkúrat núna, núna skulum við einbeita okkur að því að bjarga því sem bjargað verður.

En ljóðin hans Einars standa fyrir sínu:

Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs.

og eitt gamalt:

Því miður, herra framkvæmdastjóri,
ég hef ekkert að bjóða
í þessum samningaviðræðum
nema þrjú tonn af kokteilsósu,
örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu
og allar hljómplötur Árna Johnsens.

Engin ummæli: