laugardagur, nóvember 15, 2008

Bond, James Bond!


Já það er annað hvort of eða van með þetta blessaða blogg. Stundum líða heilu vikurnar án þess að maður setji neitt á blað en svo koma nokkrir póstar á dag. Já svona er maður skrítinn stundum, það gera sennilega þessar pabbahelgar, maður verður svo eirðarlaus eitthvað.


En allavega fór með Skvísunni minni (já ég ætla að hætta að kalla hana Gelgju, hún á það ekki skilið er svo laus við alla þessa gelgjustæla, er eiginlega bara alveg yndisleg þessi elska) í bíó í gær. Sáum "Quantum of Solace". Sko, hmmm... ég er búin að fara á allar Bond myndir sem sýndar hafa verið frá því ég fór að hafa vit á bíói og Roger Moore var svona minn Bond, reyndar fannst mér Pierce Brosnan líka mjög góður.


Mér finnst Daniel Craig svaka flottur og allt það, en hann er ekki eins skemmtilegur og James Bond á að vera, hann er mun kaldari, ofbeldisfyllri og meira harðbrjósta en fyrirrennarar hans. Í þessari mynd er hann drifinn áfram af hatri, reiði og hefndarþorsta og það bara kann ekki góðri lukku að stýra. Þetta er góð hasamynd en ekki nógu góð Bond mynd, ef þið skiljið hvað ég er að meina. Það er nóg af hraða og spennu, vantar ekki eltingaleikina á bílum, á fæti, á bátum og meira að segja á flugvélum, en það vantar húmorinn. Hann er líka ekki með nema einni stelpu í myndinni (ég er nú ekkert að kvarta yfir því svo sem) en sem er nú kannski leið til að nútímavæða Bondinn þar sem það þykir ekkert voðalega karlmannlegt lengur að fleka heilt kvennablaklið eða svo í einni bíómynd. Að öðru leyti var þetta svo sem mjög góð skemmtun og sætu stelpurnar, flottu bílarnir og útsjónasami Bondinn voru öll þarna.

Engin ummæli: