sunnudagur, nóvember 09, 2008

Sambandsleysi!


Ég átti yndislega helgi, nei ekki misskilja mig, það var ekki helgi í sumarbústað með ástinni minni, teljandi stjörnur með kampavín í heita pottinum..... hmmm... kannski á ég einhvern tíman eftir að eiga slíka helgi....

Nei, ég fór með tæplega 70 manns aðallega krökkum á aldrinum 10-15 ára í félagsútilega skátafélagasins okkar hérna í Mosó. Fórum að Laugum í Sælingsdal, sögusvið Laxdælu, reyndar er mjög langt síðan ég las Laxdælu síðast, en ég er að spá í að rifja hana upp fljótlega (hvar eru þessir 30 tímar í sólarhringnum sem ég pantaði í síðustu kosningum hmmm...). Mitt hlutverk í þessari útilegu var eldabuskuhlutverkið ásamt nokkrum hressum foreldrum öðrum. Ég fór með Skottið og Gelgjan var þarna með sínum skátaflokki, hún setti reyndar upp skeifu þegar hún frétti af því að ég ætlaði með, en ég held að það hafi aðallega verið í nösunum á henni allavega var hún alveg til í að fíflast aðeins með systur sinni í sundlaugardiskóinu sem var rétt eftir að við komum vestur á föstudagskvöldinu. Við fórum vestur í rútunni með öllum skátunum (svaka sport hjá þeirri Stuttu), en um það leyti sem við lögðum af stað spurði Skottið mig að því hvort við myndum bara fá lánað tjald.... hún var nefnilega á leiðinni í útilegu og maður er auðvitað í tjaldi í útilegu, alveg óháð því hvort það er sumar eða byrjun nóvember!! Ég svaraði því til að við yrðum í húsi, það kom aðeins svona hugsandi svipur á hana en svo sagði hún: "Ég hef aldrei verið í svona "húsaútilegu""...........

Að Laugum í Sælingsdal er í dag rekið Eddu hótel á sumrin, skildist reyndar að það væri hótel þarna allt árið og ungmennabúðir sem reknar eru á veturnar og þarna koma heilu árgangarnir og eru eina viku í senn, skildist að það væru aðallega 9undu bekkingar sem kæmu og fræðsluefnið væri miðað við það. Þarna er mjög góð aðstaða og meira að segja hægt að fara á "sokkunum" í sund og í íþróttahúsið, þ.e. hægt að ganga innandyra á milli.

Þeir vita það sem hafa farið sem eldabuskur með svona unglingahópi að það er nú ekki mikið um frítíma, maður er eiginlega í eldhúsinu allan daginn 16 tíma á dag hehehe... Allavega var maður mættur kl. 8:00 á morgnana, búa til hafragraut, smyrja brauð, skera ávexti, blanda djús... osfrv. osfrv. morgunmatur er kl. 9:00 þá er maður frammi í grautarskömmtun og að fylla á það sem klárast, þegar morgunmatnum lýkur, þarf að ganga frá, vaska upp, þurrka af borðum og klukkan orðin 10:00 áður en maður veit af, svo er mæting kl. 11:00 til að undirbúa hádegismat, og þeirri törn lýkur um 13:00, á laugardeginum var svo valdagsskrá hjá krökkunum og þaraf höfðu 8 skráð sig í bakstur og við sáum auðvitað um það, þeirri törn lauk með síðdegiskaffi og frágangi eftir það um kl. 16:30 og svo var aftur mæting klukkan 18:00 til að elda kvöldmat, törn sem lauk um kl. 20:00 þá var farið með skátunum á kvöldvöku, ofsaleg gaman og svo var kvöldkaffi, kakó, djús, afgangur af kökum dagsins og kex um klukkan 23:30.... Þannig að ekki get ég sagt að ég hafi skoðað mig mikið um í nágrenninu hehehe....

Aðalkosturinn við þessa helgi var eiginlega sá að maður náði algjörlega að kúpla sig frá öllu standinu sem er búið að vera í gangi. Þarna er ekkert GSM símasamband eða internet, það er ekkert sjónvarp í húsinu, allavega ekkert sem við fundum og svo reyndum við að stilla inn á fréttir í útvarpinu sem var í eldhúsinu en fundum enga stöð og enduðum á að setja bara á Eagles, klassagrúbba....

Semsagt alveg fréttalaus helgi.... púff þvílíkur léttir....

Engin ummæli: